Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
01. maí. 2015 03:21

Formaður VLFA segir að kjarabætur verkafólks verði sóttar með góðu eða illu

Stéttarfélögin á Akranesi héldu baráttufund í tilefni 1. maí. Fundarsalurinn að Kirkjubraut 40 var troðfullur af fólki. Þáttaka í 1. maí hátíðarhöldum á Akranesi hefur ekki verið meiri til fjölda ára en var í dag. Vilhálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness (VLFA) var ræðumaður dagsins.

 

Vilhjálmur Birgisson hóf ræðu sína á því að minnast baráttukonunnar Bjarnfríðar Leósdóttur sem lést 10. mars síðastliðinn 91 árs að aldri. Hátíðargestir fundarins risu úr sætum og minntust hennar.

 

Í ræðu sinni var Vilhjálmi greinilega efst í huga kjarabaráttan sem nú stendur yfir með yfirvofandi verkföllum. Hann gagnrýndi nýlegar uppsagnir ræstingarkvenna við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. "Hafi skólameistari skömm fyrir þessa framgöngu og skora ég á hann að draga þessar uppsagnir tafarlaust til baka og leita annarra leiða til að fara í vasa íslensks lágtekjufólks til hagræðingar," sagði hann meðal annars.

 

Síðan vék Vilhjálmur að kjarabaráttunni. "Krafa verkafólks er sanngjörn en hún byggist á því að lágmarkslaun verði komin upp í 300.000 króna lágmarkslaun innan þriggja ára sem þýðir að mánaðarlaun verkafólks myndu hækka að meðaltali um 33 þúsund á ári næstu 3 árin. Já, ég get svo sannarlega tekið undir að ef eitthvað er þá sé þetta alltof hógvær krafa. En hvað segir valdaelítan um þessar hógværu launakröfur verkafólks eins og t. d. þeir sem stjórna Samtökum atvinnulífsins og já eða fulltrúar Seðlabanka Íslands og stjórnvalda? Jú, þessir aðilar hafa teiknað upp sviðsmynd sem lýsir ástandinu ef kröfur verkafólks um 300.000 króna lágmarkslaun innan þriggja ára ná fram að ganga og sú sviðsmynd er mun verri en þegar allt efnahagslíf landsins hrundi í október 2008. Samtök atvinnulífsins sögðu að verðbólgan færi upp í 27% og verðtryggðar skuldir heimilanna myndu hækka um 500 milljarða ef gengið yrði að kröfum verkafólks. Þetta eru miklu verri afleiðingar en þegar bankahrunið varð en þá fór verðbólgan upp í 18% og verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu um 400 milljarða. Nei, hræðsluáróðurinn ríður ekki við einteyming hjá valdaelítu þessa lands. Afleiðingarnar verri heldur en sjálft bankahrunið ef verkafólk hækkar um 33.000 krónur á mánuði."

 

Vilhjálmur sagðist blása á hagfræðingatungutak um stöðugleika. "Þetta tungutak er bara notað þegar kemur að því að semja um kaup og kjör verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði. Það að raska stöðugleikanum heyrist aldrei þegar efri lög samfélagsins skammta sér launahækkanir eins og enginn sé morgundagurinn. Hver man ekki þegar seðlabankastjóri hótaði íslensku launafólki stýrivaxtahækkun í kjölfar kjarasamninganna 2011 ef launakröfur verkafólks yrðu ekki afar hófstilltar? Þessi sami seðlabankastjóri fór svo sjálfur þetta sama ár og stefndi bankanum sínum og vildi fá leiðréttingu sinna launa upp á 300.000 krónur á mánuði."

 

Formaður Verkalýðsfélagsins varpaði fram þeirri spurningu hvers vegna aldrei heyrðist í Samtökum atvinnulífsins þegar æðstu stjórnendur hækkuðu laun sín jafnvel um milljónir króna á mánuði eins og ótal nýleg dæmi sönnuðu. Hann rakti nokkur þeirra.  

 

Vilhjálmur sagði einnig að stjórnvöld yrðu að koma að lausn yfirstandandi kjaradeilna til dæmi með skattkerfisbreytingum svo sem hækkun persónuafsláttar, sérstaklega hjá þeim tekjulægstu.

 

"Þessu til viðbótar þurfa íslensk stjórnvöld að beita sér af fullum þunga fyrir því að sú okurlánastarfsemi sem hér fæst að þrífast líði undir lok. Þau vaxtakjör sem hér eru í boði eru íslenskri alþýðu dauðagildra. Að bjóða fólki húsnæðislán óverðtryggð upp á 8% vexti eða verðtryggð upp á 4% vexti eru okurvextir sem nánast mafían á Sikiley væri stolt af," sagði Vilhjálmur.

 

Hann skaut svo föstum skotum á bankana. "Að hugsa sér að bankarnir séu búnir að hagnast um 300 milljarða frá hruni vegna þess að þeir fengu afslátt á kröfum almennings úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju og hafa rukkað almenning nánast upp í topp er með ólíkindum. Landsbankinn hagnaðist um 30 milljarða á síðasta ári og takið eftir, fimm milljarðar voru vegna þjónustugjalda. Hugsið ykkur að hagnaður Landsbankans bara vegna þjónustugjalda var hærri en hagnaður stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins. Þetta er galið."

 

Að lokum ítrekaði Vilhjálmur gildi yfirstandandi kjarabaráttu. "Ég hef líka sagt að það græði allir á því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar, ekki bara verkafólkið sjálft, heldur kemur það sér líka vel fyrir ríki og sveitarfélög sem fá hærri skatttekjur. Aukin kaupgeta verkafólks kemur sér líka vel fyrir verslun og þjónustufyrirtæki. Semsagt, allir græða. Ég ítreka það að hækkun lágmarkslauna er lýðheilsumál því allir sem hafa lent í því að ná ekki endum saman á milli mánaða og eiga ekki fyrir mat handa börnum sínum vita hverslags sálarangist og vanlíðan slíku ástandi fylgir fyrir alla á heimilinu. Þetta þekki ég af eigin raun því ég og konan mín áttum orðið fjögur börn einungis 27 ára gömul og við þurftum að brauðfæða okkur og okkar börn á verkamannalaunum sem var eðli málsins samkvæmt, ómögulegt. Þessa reynslu mína hef ég ætíð að leiðarljósi í mínum störfum sem forystumaður í verkalýðsfélagi og geri mér því algerlega grein fyrir því að sú láglaunastefna sem hér er rekin er dauðans alvara fyrir samfélagið allt og kjör verkafólks verður að lagfæra og það verður gert í þessum kjarasamningum með góðu eða illu," sagði Vilhjálmur Birgisson í lok ræðu sinnar.

 

Þegar hann hafði lokið máli sínu reis allur salurinn á fætur og klappaði formanninum lof í lófa fyrir ræðuna. Á eftir voru kaffiveitingar í boði stéttarfélaganna og karlakórinn Svanur á Akranesi söng nokkur lög.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is