Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. maí. 2015 08:30

Hjónin Barónn Blár og Barónessa Berfætt eignast afkvæmi

Norsk barónshjón slá nú í gegn á óravíddum internetsins eftir að þau eignuðust tvo afkomendur sl. laugardag og mánudag í beinni útsendingu frá óðali sínu á eyju eða hólma í Smöla-eyjaklasanum í Mæri- og Raumsdalsfylki í Noregi. Þetta er miðja vegu milli Kristjánssunds og Þrándheims. Þau eru ernir og heita Barónn Blár og Barónessa Berfætt.

 

Fyrr í vor var sett upp vefmyndavél við óðal þeirra. Norska héraðsfréttablaðið Tidens Krav hefur síðan streymt kvikmynd í beinni útsendingu allan sólarhringinn frá hreiðrinu. Þessi útsending hefur vakið mikla athygli í Noregi og víðar um heim enda eru Norðmenn þekktir frumkvöðlar í að búa til beinar sjónvarpsútsendingar frá ólíklegustu atburðum sem slegið hafa í gegn. Nefna má strandsiglingar og framleiðslu á ullarpeysu allt frá rúningi til prjónavinnu. Nú síðast í apríl var norska ríkissjónvarpið með sólarhrings beina útsendingu á netinu úr norsku fjárhúsi þar sem sauðburður stóð sem hæst. Í fyrravor var Tidens Krav með beina netútsendingu af því þegar tjaldaparið Hjálmar og Hjördís lágu á hreiðri sínu í grennd við Namsos. Allur Noregur fylgdist með þeim bókstaflega með öndina í hálsinum.

 

Nú í ár eru það svo arnarhjónin Barónn Blár og Barónessa Berfætt sem halda áhorfendum við efnið. Mikil gleði braust út þegar lítill grár hroðri stakk sér upp í hreiðrinu á laugardaginn 2. maí. Í gær klaktist svo út lítill bróðir eða systir. Nú síðdegis hefur síðan mátt fylgjast með hvernig Barónessan liggur á hreiðrinu. Öðru hvoru stendur assan upp til að gefa ungum sínum. Baróninn faðir þeirra virðist hafa dregið björg í bú og er það eitthvað sem líkist fiski. Þetta er í fimmta sinn sem þau hjón klekja út ungum, en það hafa þau gert annað hvert ár undanfarinn áratug.

 

Heimamenn í Smöla þar sem ernirnir eiga óðal sitt eru himinlifandi. Sveitarstjórinn þar brosir hringinn í viðtali við Tidens Krav enda er beina útsendingin ómetanleg auglýsing og að hans sögn vafalítið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Nálega 100 þúsund manns hófu áhorf á arnarhjónin gegnum internetið um liðna helgi og vafalítið um athyglin aukast enn nú þegar ungar eru komnir. Allir helstu fjölmiðlar Noregs hafa enda greint frá þessari útsendingu. Samhliða þessu öllu svara svo fuglafræðingar spurningum fólks á netinu um haferni og lífshætti þeirra þannig að þessu ævintýri fylgir mikil fræðsla fyrir almenning.

 

Íslenskir hafernir eiga sér óðul víða um Vesturland, ekki síst í og við Breiðafjörð þar sem segja má að sé þeirra ríki. Fyrir nokkrum árum var hægt að fylgjast með arnarpari gegnum vefmyndavél á óðali þeirra við Gilsfjörð en ekki hefur frést af slíku síðustu vor og sumur.

 

Norðmenn velta því nú fyrir sér hvaða nöfn ungarnir eigi að fá en eru í bobba því ekki er hægt að kyngreina þá fyrr en þeir hafa stálpast eftir nokkrar vikur.

 

Með því að smella hér má horfa á fjölskyldulífið hjá barónshjónunum norsku á Smöla.  

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is