Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. maí. 2015 02:27

Átelur formann VLFA harðlega fyrir samningagerð

„Þetta er algerlega á skjön við allt sem skynsamlegt má telja í kjarabaráttu þar sem samstaða er lykill að því að ná árangri.  Svona háttarlag eins og kollegi minn Vilhjálmur Birgisson á Akranesi ástundar, bæði að semja við fyrirtæki innan eða utan við Samtök atvinnulífsins, er algerlega óásættanlegt. Hann heldur að með þessu sé hann sé að brjóta niður samstöðumátt Samtaka atvinnulífsins en að mínu mati er hann að brjóta niður samtakamátt verkalýðshreyfingarinnar. Er mönnum eins og Vilhjálmi Birgissyni ekkert heilagt,“ spyr Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands.

Brjóta niður samstöðuna

Í frétt Skessuhorns fyrr í morgun upplýsti Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness að félag hans væri búið að gera nýja kjarasamninga við 12 fyrirtæki á Vesturlandi. Þar með eru starfsmenn þeirra ekki þátttakendur í verkföllum. „Ég hef talað gegn því að stéttarfélögin væru að semja svona einhliða út og suður. Með þessu brjóta þau niður samstöðu launþega. Í þessum tilfellum er oftast verið að semja við þau fyrirtæki sem borga best frá því áður. Án þess að ég vilji fara að gera þessa kjarabaráttu að kynjabaráttu þá vek ég samt athygli á að þetta eru yfirleitt fyrirtæki þar sem flestir ef ekki allir starfsmenn eru karlar. Með þessu háttarlagi skilja þeir sem fyrir því standa hins vegar þau lægst launuðu eftir í skítnum. Oftar en ekki þá eru það konur,“ segir Signý.

 

„Það eru helstu verkalýðsforingjar landsins að þeirra eigin sögn sem stunda þennan leik að gera sjálfstæða samninga við fyrirtæki. Þar er ég að tala um Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn á Húsavík. Ég er algerlega komin með upp í kok af þessu framferði þeirra. Þeir eyðileggja fyrir launþegahreyfingunni það sem lagt var upp með sem aðalmálið í þessari baráttu. Það var að laga stöðuna hjá þeim sem eru með lökust kjörin. Þessir samningar þeirra félaga brjóta kjarabaráttuna niður innan frá. Samningarnir hafa hins vegar engin áhrif á Samtök atvinnulífsins.“

 

Margvíslegar afleiðingar

Signý segist verða áþreifanlega vör við afleiðingar þess að Verkalýðsfélag Akraness bjóði nú upp á kjarasamninga félaga sinna við einstaka fyrirtæki. „Sem dæmi má nefna að við hjá Stéttarfélagi Vesturlands upplifum að starfsmenn einstakra fyrirtækja segi sig úr félaginu til þess að ganga í Verkalýðsfélag Akraness. Þetta gera þeir einvörðungu vegna þess að þeir eru hjá fyrirtæki sem er að fara að semja við það stéttarfélag um nýjan kjarasamning. Þarna má nefna verktakafyrirtækið Snók sem þjónustar fyrirtækin á Grundartanga. Svo er það annað í þessu sem er að þetta er ekki sanngjarnt gagnvart atvinnurekendum. Þeir horfa kannski upp á að samkeppnisaðilar þeirra semja við Verkalýðsfélag Akraness og halda þannig áfram rekstri á meðan þeir sjálfir þurfa að búa við hömlun í rekstri vegna verkfalla. Eðlilega spyrja þeir hvers vegna það eigi að skilja þeirra fyrirtæki eftir í þessu sambandi. Öll eðlileg samkeppni raskast. Atvinnurekendur verða reiðir og kenna stéttarfélögunum um þetta ástand. Ég þarf allt í einu að svara spurningum um hvort ég geri mér grein fyrir hvað ég sé að gera atvinnusvæðinu á Vesturlandi þegar við hjá Stéttarfélagi Vesturlands eigum enga sök á því hvernig komið er í þessum samningamálum gagnvart einstökum fyrirtækjum. Hún liggur alfarið hjá Verkalýðsfélagi Akraness og Samtökum atvinnulífsins. Ég hefði ekki viljað fara í leðjuslag innan launþegahreyfingarinnar, og þá við Verkalýðsfélag Akraness og formann þess, en þetta er óþolandi staða,“ segir Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands.

 

Breytt landslag á vinnumarkaði

Þegar Skessuhorn ræddi við Signýju um hádegisbil í dag var hún ásamt samstarfsfólki sínu að koma úr verkfallsvörslu og eftirliti í Dölum á leið til að halda sömu störfum áfram í Borgarfirði. „Við urðum ekki vör við nein verkfallsbrot í Dölum. Hins vegar er ljóst að umhverfið á vinnumarkaði hefur að mörgu leyti breyst frá því við vorum í svona kjarabaráttu síðast. Verktökum og því sem kalla mætti gerviverktökum hefur fjölgað mjög. Þetta fólk er utan stéttarfélaga. Við erum að sjá verktaka í hlutverkum í dag sem voru ekki til áður. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða betur í ljósi reynslunnar sem við upplifum núna. Síðan er það félagafrelsið sem mikið hefur verið rætt um. Við erum að finna félagsfólk í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur vestur í Dölum þó að Dalir séu að sjálfsögðu ekki starfssvæði þess stéttarfélags,“ sagði Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is