Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. maí. 2015 06:00

Haldið var upp á sjötugsafmæli Eric Claptons í Brún

Þakið lyftist næstum af gamla félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit á sunnudagskvöldið þegar fólk kom þar saman á tónleikum til að heiðra breska tónlistarmanninn Eric Clapton. Hann varð sjötugur fyrr á þessu ári og af þeim sökum efndu Clapton-félagar í Borgarfirði til heiðurstónleika.

 

Tónlistarmenn sem allir koma úr Borgarfirði og Hvalfirði stofnuðu sveitina Key to the Highway og æfðu saman lög í dagskrá sem síðan var flutt í Brún.

 

Hjómsveitin samanstóð af Reyni Haukssyni gítarleikara frá Hvanneyri, Heimi Klemenzsyni  hljómborðsleikara frá Dýrastöðum, svo voru það bræðurnir Ásmundur trommuleikari og Jakob Grétar Sigurðssynir bassaleikari, báðir frá Varmalæk, og síðan söngvarinn Heiðmar Eyjólfsson frá Hlíð í Hvalfjarðarsveit sem nýverið sló í gegn í söngleiknum Grease á Akranesi. Í lávarðadeild Key to the highway eru svo þeir Gunnar Ringsted gítarleikari og tónlistarkennari í Borgarnesi og Ólafur Garðarsson trommuleikari sem m.a. spilaði fyrrum í mörgum af þekktustu hljómsveitum Íslands. Haukur Júlíusson frá Hvanneyri, faðir Reynis gítarleikara, var síðan kynnir og sögumaður þessa kvöldstund. Hún varð bæði stórskemmtileg og eftirminnileg þar sem tæpt var á löngum ferli Claptons.

 

„Það komu um níutíu manns sem var mjög gott. Ég spurði að gamni mínu fólk sem kom hvernig það hefði frétt af þessum viðburði. „Það var auglýsing í Skessuhorni,“ sögðu margir. Ég hafði gaman af að heyra það því ég hafði sett auglýsingu í blaðið og hún virkaði greinilega svona ljómandi vel,“ segir Haukur Júlíusson. Hann er mikill Clapton-aðdáandi og að sjálfsögðu einn Clapton-félaganna sem stóðu fyrir tónleikunum. Á tónleikunum sagði Haukur meðal annars frá því að hann, Ólafur Garðarsson, Geir Waage síðar prestur í Reykholti, Óskar Guðmundsson seinna rithöfundur og fræðimaður í Véum sem allir voru á tónleikunum í Brún ættu sameiginlega fortíð. „Við vorum allir saman í skóla á Núpi. Þar kom saman ungt fólk alls staðar af landinu. Þar man ég að var endurómur af Yardbirds sem var ein af fyrstu hljómsveitum Eric Claptons. Svo var Jóhannes Gunnarsson neytendafrömuður líka með okkur á Núpi. Hann kynnti fyrir okkur það sem þá var meira svona jaðartónlist eins og söngkonuna Joan Baez.“

 

Leynigestur tónleikanna í Brún var Ólafur Garðarsson trommuleikari. Þannig voru tveir trommuleikarar á tónleikunum sem báðir slógu taktinn samtímis. Það gaf tónleikunum mjög skemmtilegt yfirbragð bæði tónlistarlega og sjónrænt. „Ólafur var einn af Óðmönnum, Trúbroti og Náttúru en hefur lítið stigið á svið til fjölda ára. Svo kom þessi hugmynd upp að hann tæki í með þeim með og svo þróaðist það í hann spilaði með þeim. Sá yngsti í hjómsveitinni er tvítugur en elsti 65 ára. Þeir hittust fyrst allir saman á laugardeginum fyrir tónleikana. Yngri strákarnir voru himinlifandi að fá að spila með sjálfum Ólafi Garðarssyni og síðan spillti ekki fyrir að hafa Gunnar Ringsted með. Báðir þessir tveir búa yfir áratuga reynslu og eru hluti af tónlistarsögu Íslands,“ segir Haukur.

 

Tónleikarnir í Brún heppnuðust það vel að full ástæða er til að spyrja hvort ekki sé lag að endurtaka þá á stærri vettvangi. „Það hefur ekki verið rætt. Sumir í hljómssveitinni eru uppteknir út af plötuupptöku og Reynir sonur minn er að flytja til Noregs í byrjun júní. Það væri þó vissulega gaman að endurtaka þetta,“ segir Haukur Júlíusson.

 

Hér má svo sjá tónlistarmyndband með félögunum Eric Clapton og BB King. Þeir voru miklir vinir og gáfu út plötu saman fyrir nokkrum árum. BB King lést í gær 89 ára gamall.

 

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is