Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. maí. 2015 10:48

Leggja til róttækar tillögur á fræðslumálum í Borgarbyggð

Á vef Borgarbyggðar voru í dag birtar skýrslur tveggja starfshópa um skóla- og húsnæðismál í sveitarfélaginu. Annar starfshópurinn átti að hafa til umfjöllunar hagræðingu í fræðslumálum og leggja fram tillögur þar að lútandi en hinn átti að fjalla um eignir sveitarfélagsins Borgarbyggðar og mögulega sölu þeirra. Farið var af stað með þessa vinnu að beiðni sveitarstjórnar vegna bágrar rekstrar- og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Báðir vinnuhóparnir voru mannaðir af fólki úr sveitarstjórn og einum varamanni í sveitarstjórn. Í niðurstöðum skýrslu starfshóps um hagræðingu í fræðslumálum eru m.a. lagðar til róttækar breytingar. Þar á meðal lokun Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri, færslu leikskóla frá Grímsstöðum að Kleppjárnsreykjum, færslu skólahalds á Varmalandi í eitt hús (gamla grunnskólahúsið), sölu húss Tónlistarskóla Borgarfjarðar, kennsku 10. bekkjar í Borgarnesi í húsi Menntaskóla Borgarfjarðar, hagræðingu í skólaakstri og sitthvað fleira. Hópurinn segist í niðurstöðum sínum byggja tillögur sínar á hugmyndum sem fram hafa komið á fundum og í viðtölum við starfsfólk Borgarbyggðar, auk þess sem stuðst hafi verið við fyrirliggjandi skýrslur um skipulag skólamála í Borgarbyggð, gögn um núverandi stöðu og tillögur ráðgjafa.

Leggja niður grunnskóla á Hvanneyri

Sú tillaga sem fyrirfram hefur mætt mestri andstöðu íbúa er lokun Hvanneyrardeildar Grunnskóla Borgarfjarðar. Um það segir: „Vinnuhópurinn leggur til sameiningu leikskóla og yngstu tveggja bekkja grunnskólans á Hvanneyri. Foreldrar hafi val um þessa leið. Þetta felur í sér að 3., 4., 5. og 6. bekkur barna frá Hvanneyri stundi nám við Grunnskólann í Borgarnesi frá og með næsta hausti. Nemendum frá Hvanneyri sem eru komnir á Kleppjárnsreyki verði gefinn kostur á að ljúka skólagöngu þar.“

 

Þá segir í niðurstöðum starfshópsins: „Lagt er til að skoðaðir verði kostir þess að nám nemenda í 10. bekk fari fram í Menntaskóla Borgarfjarðar (Hjálmakletti). Þessi valkostur verði skoðaður í samstarfi og samráði við stjórnendur Menntaskóla Borgarfjarðar, stjórnendur grunnskóla og foreldra. Lagt er til að starfsstöð Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi verði sameinuð í eitt húsnæði á Varmalandi og flutt alfarið í gamla barnaskólann. Þessi tillaga komi strax til framkvæmda og verði allir nemendur komnir í sama húsnæði haustið 2015. Ljóst er að mæta þarf húsnæðisþörf leikskólans Hnoðrabóls. Núverandi húsnæði er ekki viðunandi. Lagt er til að skoðað verði hvort að hægt sé að nýta húsnæðis grunnskólans á Kleppjárnsreykjum undir leikskólann. Skoða þarf hagkvæmni þess að leikskólinn verði staðsettur í húsnæði grunnskólans á Kleppjárnsreykjum, kostnað við endurbætur á húsnæði og lóðaframkvæmdir sem ráðast þyrfti í. Sú leið verði borin saman við þær leiðir sem lagðar voru til í skýrslu vinnuhóps um Hnoðraból.“

 

Samningur um Laugargerði framlengdur um þrjú ár

Í niðurstöðum vinnuhópsins um fræðslumál segir jafnframt að ef sveitarstjórn samþykkir tillögur hópsins muni mötuneytum fækka um tvö, eitt á Hnoðrabóli og eitt á Hvanneyri. „Ennfremur ætti fækkun starfsstöðva að hafa í för með sér bætt aðgengi og einfaldara skipulag íþrótta- og tómstundaskóla og tónlistarskóla.“ Lagt er til að kallað verði eftir sjónarmiðum foreldra barna á skólasvæði Laugargerðisskóla um flutning barna í Grunnskólann í Borgarnesi. Samningur við Laugargerðisskóla verði framlengdur til næstu þriggja skólaára með þeim hætti að greitt verði fast gjald á nemenda fyrir þá nemendur Borgarbyggðar sem þar stunda nám.“

 

Leikskólaaldur og yfirstjórn

Lagt er til að inntökualdur í öllum leikskólum Borgarbyggðar verði 18 mánuðir frá og með haustinu 2015. Inntökutími verði samræmdur í öllum leikskólum frá og með haustinu 2015.

 

Einnig er lagt til að gerðar verði breytingar á yfirstjórn fræðslumála. Fjölskyldusvið verði aðskilið frá fjármálasviði og áhersla lögð á að styrkja stjórnsýslu á sviði fræðslumála. Vægi mannauðsstjórnunar verði aukið innan stjórnsýslunnar. Loks leggur vinnuhópurinn áherslu á eftirfylgni með breytingum og ráðgjöf til stjórnenda. „Ráðinn verði verkefnisstjóri í 6-12 mánuði til að vinna betur með tillögur hópsins, vinna að nánari útfærslum í samráði og samstarfi við stjórnendur og innleiða breytingar í skólastarfi í Borgarbyggð.“

 

Vilja selja hús Tónlistarskólans

Varðandi Tónlistarskóla Borgarfjarðar segir: „Áform eru um að færa Tónlistarskólann inn í nýbyggingu við Grunnskólann í Borgarnesi. Í ljósi ástands hússins þá leggur vinnuhópur um eignir til að Borgarbraut 23 verði seld og fundin góð aðstaða fyrir skólann í samráði t.d. við Grunnskóla Borgarness og Menntaskóla Borgarfjarðar þangað til að skólinn flytur í nýtt húsnæði.“

 

Hagræðing í skólaakstri

Þá fjallaði vinnuhópurinn um skólaakstur, meðal annars í Borgarnesi. „Lagt er til að gerð verði sérstök úttekt á fyrirkomulagi og nýtingu skólaaksturs innanbæjar í Borgarnesi með það að markmiði að fækka ferðum fyrir næsta skólaár. Gerð verði úttekt á nýtingu tómstundaaksturs og skoðað hvort hagkvæmara sé að taka upp styrki til foreldra vegna aksturs barna í íþróttir og tómstundir.“

 

 

Í vinnuhópi um rekstur og skipulag fræðslumála sátu: Guðveig Eyglóardóttir, sem jafnframt var formaður hópsins, Finnbogi Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Geirlaug Jóhannsdóttir og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Í vinnuhópi um eignir sveitarfélagsins sátu: Jónína Erna Arnardóttir sem jafnframt var formaður hópsins, Helgi Haukur Hauksson, Hulda Hrönn Sigurðardóttir, Magnús Smári Snorrason og Ragnar Frank Kristjánsson.

 

Skýrslur starfshópanna má í heild sinni lesa hér:

 

Skýrsla um framtíð skólamála í Borgarbyggð

 

Skýrsla um eignamál í Borgarbyggð

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is