Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. maí. 2015 12:00

Starfhópur leggur til sölu á hlut Borgarbyggðar í Orkuveitu Reykjavíkur

Sveitarfélagið Borgarbyggð á fjölda fasteigna auk þess að sveitarfélagið á hlutdeild í nokkrum félögum. Starfshópur um eignir og eignarhluta í sveitarfélaginu og mögulega sölu þeirra skilaði í gær af sér skýrslu. Lagt er til að sala fjölda eigna verði undirbúin til að létta á skuldahlutfalli sveitarsjóðs og bæta rekstrarhæfi sveitarfélagsins. Starfshópurinn leggur til að seldar verði eignir sem hafa fasteignamat að upphæð 308,4 milljónir króna og að fasteignir að upphæð 167,7 milljónir verði mögulega seldar. Þegar eru fasteignir að fjárhæð kr. 64,9 milljónir króna í söluferli. Allar þessar upphæðir taka mið af fasteignamati. Hvað eignarhluti í félögum viðvíkur leggur starfshópurinn til að seldir verði minni eignarhlutir Borgarbyggðar í félögum og hlutdeild sveitarfélagsins í reiðhöllinni í Borgarnesi lækkuð þannig að sveitarfélagið eigi ekki áfram meirihluta í félaginu. Ákveðið var að skoða möguleika á sölu 0,93% eignarhlutar Borgarbyggðar í Orkuveitu Reykjavíkur og vinna verðmat á félaginu í samvinnu við meðeigendur í OR. „Jafnframt var ákveðið að selja ekki hlut Borgarbyggðar í Faxaflóahöfnum í ljósi þeirra jákvæðu framtíðarhorfa sem við félaginu blasa að óbreyttu,“ segir í niðurstöðu starfshópsins.

 

 

Hússtjórnarskólinn verðmætastur

Starfshópurinn leggur til í skýrslu sinni að seldar verði alls tólf fasteignir. Langmest verðmæti er talið felast í húsi fyrrum Hússtjórnarskólans á Varmalandi sem síðari ár hefur verið nýtt undir unglingadeild Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi. Áætlað er að að hægt verði að fá 146 milljónir fyrir húsið. Auk þess er lagt til að seldar verði fimm húseignir á Varmalandi, núverandi húsnæði leikskólans Hnoðrabóls á Grímsstöðum í Reykholtsdal, salur í húsi eldri borgara við Borgarbraut 65a, útihús og íbúðarhús á Kárastöðum við Borgarnes og íbúð við Kveldúlfsgötu 28 í Borgarnesi. Áætlað er að söluvirði allra fyrrgreindra húseigna sé 255,2 milljónir króna. Auk þessara tólf eigna eru fjórar fasteignir þegar í söluferli, en það eru Kveldúlfgata 2b, íbúðarhús á Varmalandi, Árberg 4a á Kleppjárnsreykjum og Gunnlaugsgata 17 í Borgarnesi.

Loks nefnir starfshópurinn nokkrar aðrar eignir sem mögulega mætti selja. Þær eru hús Tónlistarskóla Borgarfjarðar við Borgarbraut 23 í Borgarnesi, frystihús og reykhús í Brákarey, parhús á Kleppjárnsreykjum, skrifstofuhúsnæði í Litla Hvammi í Reykholti og félagsheimilið Valfell í Borgarhreppi. Áætlað söluverð þessara eigna er 142,2 milljónir króna.

 

Eignarhlutir í félögum

Í skýrslu vinnuhópsins segir að Borgarbyggð hafi í áranna rás eignast hluti í ýmsum félögum og séu þeir ólíkir að gerð og starfsemi. Mest verðmæti felist í 0,93% eignarhluta í Orkuveitu Reykjavíkur sem verðmetinn er á 379,2 milljónir króna og 4,14% eignarhlutur í Faxaflóahöfnum sem verðmetinn er á 343,6 milljónir króna. Þá er 1,78% hlutur í Lánasjóði sveitarfélaga metinn á 157,8 milljónir króna, 92% eignarhlutur í Menntaskóla Borgarfjarðar er metinn á 58,2 milljónir króna og 56% hlutur í Reiðhöllinni í Borgarnesi er verðmetinn á 76,7 milljónir króna. Starfshópurinn leggur til að selja sem flesta minni eignarhluta í ýmsum fyrirtækjum. „Samfélagslegt virði þeirra er mismunandi en í ljósi núverandi aðstæðna í samfélaginu og sveitarfélaginu telur hópurinn óhætt að selja þessa hluti.“

 

Í vinnuhópnum um eignir sveitarfélagsins sátu fimm sveitarstjórnarfulltrúar: Jónína Erna Arnardóttir, sem jafnframt var formaður hópsins, Helgi Haukur Hauksson, Hulda Hrönn Sigurðardóttir, Magnús Smári Snorrason og Ragnar Frank Kristjánsson.

 

Sjá skýrslu starfshópsins um eignamál í heild sinni hér.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is