Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. maí. 2015 01:01

Pílagrímaganga frá Dölum í Borgarfjörð

Í tilefni þess að nú eru 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt verður farið í Pílagrímagöngu frá Hvammi í Dölum yfir í Reykholt í Borgarfirði. Fetað verður í fótspor hinnar kristnu landnámskonu, Auðar djúpúðgu. Gangan sem um ræðir er sex dagleiðir og verður því farin í nokkrum hlutum. Fyrsti hlutinn verður farinn laugardaginn 30. maí kl. 10 frá Hvammi í Dölum í Hjarðarholt. Daginn eftir verður gengið frá Hjarðarholti yfir í Kvennabrekku. Laugardaginn 13. júní verður farið frá Kvennabrekku yfir í Reykjadal og á sunnudeginum þaðan yfir í Hvamm í Norðurárdal. Á mánudeginum 15. júní verður haldið áfram frá Hvammi yfir í Norðtungu í Þverárhlíð og að endingu verður gengið frá Norðtungu yfir í Reykholt þriðjuaginn 16. júní.

 

Gengin gömul þjóðleið

 „Það er bæði spennandi að halda upp á þessi tímamót, 100 ára kosningaafmæli kvenna og tilvalið að minnast kristinna landnámskvenna í leiðinni. Við byrjum í Hvammi, á landnámsbæ Auðar djúpúðgu enda er hennar saga mjög áhugaverð og hún er sterk fyrirmynd fyrir íslenskar konur. Svo göngum við yfir í Borgarfjörðinn enda leikur þetta sögusvið stórt hlutverk á Sturlungaöld. Það voru miklar samgöngur milli Dala og Borgarfjarðar og farnar margar ferðir, þannig að við fetum þarna gamla slóð,“ segir Elínborg Sturludóttir prestur í Stafholti. Hún segir að ekki verði farið eftir Bröttubrekku, heldur gengin gömul þjóðleið um Sanddal. „Það eru margir sem þekkja þá fallegu leið og hafa farið hana ríðandi. Við endum svo í Reykholti 16. júní. Okkur finnst við hæfi að klára göngurnar áður en við fögnum 100 ára kosningaafmælinu,“ bætir Elínborg við.

 

Andlegt ferðalag

Hún segir að gangan sé pílagrímaferð en í þeim sé ekki bara ferðast frá einum stað til annars, heldur séu slíkar göngur líka andlegt ferðalag. Í göngunni verði hugleidd sagan og arfleifð kristinnar trúar og menningar og ekki síst áhrif kristinnar trúar á sjálfsmynd íslenskra kvenna. „Við ætlum að minnast allra þessara kvenna en auðvitað voru það bæði karlmenn og konur sem létu sig þetta kvenfrelsi varða og börðust fyrir því. Þetta hefði aldrei fengist í gegn ef ekki hefði verið fyrir karlmennina líka. En fyrst og fremst munum við beina sjónum okkar að þessari arfleifð. Við notum hana til að byggja okkur upp. Þarna göngum við og hugleiðum frelsisbaráttu. Hver einasta manneskja þarf í lífi sínu að berjast fyrir ákveðnu frelsi. Öll þráum við frelsi og það er svo margt sem getur fjötrað okkur, bæði ytri aðstæður og innri rimlar sem koma í veg fyrir að við blómstrum,“ segir Elínborg. Hún segir að pílagrímagöngur séu oft notaðar til uppbyggingar og í þeim takist fólk á við ýmsar tilvistarspurningar og hlúa að því sem gerir lífið innihaldsríkara. Í þeim sé kyrrð og fólk fái tóm til að hugsa og fara inn á við. „Allir sem hafa áhuga á arfleifð kristinnar trúar og frelsisbaráttu íslenskra kvenna eru hjartanlega velkomnir í gönguna. Hver hluti göngunnar er 11 - 25 kílómetrar og við gerum ráð fyrir að gengið verði í fjóra til sex tíma hvern dag. Við leggjum alltaf af stað klukkan 10 að morgni og erum því búin um miðjan dag,“ segir Elínborg að endingu. Nánari upplýsingar um gönguna er að finna á www.pilagrimar.is og hjá: elinborg.sturludottir@kirkjan.is

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is