Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. maí. 2015 05:57

Andlát – Skúli Alexandersson fv. oddviti og alþingismaður

Skúli Alexandersson fyrrverandi alþingismaður, sveitarstjórnarmaður og Sandari lést á Landspítalanum í gær, 88 ára að aldri. Skúli fæddist 9. september 1926 og ólst upp á jörðinni Kjós, nærri þeim stað sem Djúpuvíkurþorpið byggðist upp. Sjálfur sagðist hann einungis hafa verið smástubbur þegar hann fór að venja komur mínar á síldarplönin og þar í grennd. Þetta var á bestu árunum í Djúpuvík en svo fór að þar tók að halla undan fæti eins og víðar þar sem lífsbaráttan var erfið. Skúli fluttist til Hellissands 26 ára gamall en í millitíðinni fetaði hann menntaveginn og prófaði sitthvað fleira til sjós og lands. Safnaði þar reynslu sem átti síðar eftir að koma sér vel í reynslubankanum. Hann var m.a. á síld og síldarbátum sem náðu í silfur hafsins inn í Hvalfjörð og á sundunum við Reykjavík.

Skúli fór í Samvinnuskólann sem þá var í Reykjavík. Að loknu námi þar réði hann sig til starfa hjá Kaupfélagi Skagfirðinga þar sem hann var verslunarmaður 1951-1952. Þá flutti hann vestur á Hellissand þar sem hans starfsvettvangur og búseta var eftir það auk þingmennskunnar við Austurvöll. Skúli starfaði hjá Kaupfélagi Hellissands í þrjú ár. Síðan tók hann þátt í því ásamt fleirum að kaupa 50 tonna mótorbát og starfaði að útgerð hans í nokkur ár. Tók þá við starfi framkvæmdastjóra Útgerðarfélagsins Jökuls 1961 og veitti því félagi forstöðu í þrjá áratugi, eða þar til útgerðinni var hætt.

 

Skúli kvaðst sjálfur frá unga aldri hafa haft mikinn áhuga á stjórnmálum. Aðhyllst Sósíalistaflokkinn og Æskulýðsfylkinguna meðan hann nam í Samvinnuskólanum í Reykjavík. Svo eftir að hann fluttist vestur myndaði hans ásamt fleirum hóp félagshyggjumanna sem bauð fram lista til sveitarstjórnar í Neshreppi utan Ennis eins og sveitarfélagið hét þá. Þar náðu þeir meirihluta og Skúli varð oddviti 1954 og gegndi því embætti í 12 ár. Eftir það var hann oddviti í tæp tvö tímabil, en seinasta árið hans í oddvitastarfinu var 1981. En það var ekki nóg með að Skúli væri þaulsetinn í sveitarstjórn heldur var hann einnig kosinn til starfa á Alþingi. Hann var fyrst kosinn á þing fyrir Alþýðubandalagið á Vesturlandi 1979 og sat á þingi til 1991. Hafði reyndar áður verið inni á þingi meira og minna frá 1971 til 1979, sem varamaður Jónasar Árnasonar.

 

Skúli sagði sjálfur að þátttaka sín í atvinnulífinu hafi verið besta vegarnestið þegar hann settist á þing. Alla tíð var hann með púlsinn á slagæð atvinnulífsins og fylgdist grannt með þróun búsetu og byggðar í sinni heimabyggð. Það gerði hann raunar allt til síðasta dags. Í takt við það helgaði hann ferðaþjónustunni starfskrafta sína síðustu áratugina eftir að þingstörfum lauk. Hann hafði meðal annars forustu um að byggja Hótel Hellissand, standa að uppbyggingu sjóminjasafns, skógrækt var hugleikin, nánara samstarf sveitarfélaga og sitthvað fleira. Líkamlegri heilsu Skúla tók að hraka á síðustu árum þótt hugurinn væri á sama hraða og fyrr. Fyrir einungis fáum mánuðum ákvað hann að flytja ásamt Hrefnu Magnúsdóttur eiginkonu sinni á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hann þurfti að vera í nálægð við ákveðna læknisþjónustu flesta daga. Hann undi hag sínum vel á Hrafnistu og sýndi þar áfram óbilandi áhuga sem hann hefur alla tíð haft fyrir landsmálum og ekki síst byggðamálum á Vesturlandi. Ekki er lengra en nokkrir dagar síðan hann hringdi í undirritaðan til að ræða sitthvað sem okkur báðum var hugleikið. Kvaðst þá vera nýkominn úr ferð vestur til að minnast látins félaga. „Hann var kannski síðastur þessara orginala sem unnu sinni heimabyggð,“ sagði Skúli um genginn samferðamann sinn. Ég kváði og sagði að meðan Skúli drægi andann væri allavega einn eftir. Hann hló sínum dillandi hlátri.

 

Eftir að Skúli flutti á Hrafnistu tók Þórhallur Ásmundsson blaðamaður viðtal við hann sem birtist í Skessuhorni fyrr á þessu ári. Þar var skautað yfir ýmislegt úr lífshlaupi kappans. Lokaorðin í því viðtali geri ég að lokaorðum þessarar stuttu minningar um látinn héraðshöfðingja. Eftir að hafa komið að rekstri Skessuhorns í tæplega tvo áratugi hef ég verið spar á að kalla menn því sæmdarheiti sem héraðshöfðingi er. Get ég þó með góðri samvisku sagt að Skúli Alexandersson er sá einstaklingur sem sýnt hefur sínu heimahéraði og raunar Vesturlandi öllu hvað mesta ræktarsemi í seinni tíð. Slíkir menn eru jafn mikilvægir sínum heimahéruðum og sólin er öllu lífi á jörðinni.

 

Aðspurður um framtíðarhorfur síns gamla byggðarlags á Snæfellsnesi, sagði Skúli: „Undirstöðuatvinnugreinarnar, sérstaklega sjávarútvegurinn, eru sterkar á Snæfellsnesi. Ferðaþjónustan er líka stöðugt að eflast og á mikla framtíð fyrir sér. Ég var baráttumaður fyrir því að sveitarfélögin sameinuðust og varð fyrir vonbrigðum að Grundarfjörður og Stykkishólmur kæmu ekki inn í sameininguna þegar Snæfellsbær varð til. Ég held að sameinað sveitarfélag á Snæfellsnesi, sem yrði það annað stærsta á Vesturlandi, gæti gefið slagkraft til aukinnar uppbyggingar á svæðinu. Ég býst við að fyrr en seinna þurfi fólk að fara að huga að því. Við þurfum að standa saman, það gerir okkur sterkari. Fjölbrautaskólinn er gott dæmi um það og mjög mikilvægt að við getum varið alla starfsemi á svæðinu og eflt hana. Öðruvísi fjölgar fólkinu ekki eða byggðin eflist.“

 

Ég votta eftirlifandi eiginkonu, börnum og öðrum afkomendum dýpstu samúð. Blessuð sé minning Skúla Alexanderssonar.

 

Magnús Magnússon, ritstjóri.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is