01. júlí. 2015 11:26
Í gær dró til tíðinda í Tromsö í Norður Noregi þar sem komið er fram að Sam Simon, skip Sea Shepherd, er á höttunum eftir flutningaskipinu Winter Bay sem flytur hvalkjötsfarm Hvals hf. til Japan. Ekki er að annað að sjá en að fullyrðingar áhafnar skipsins um að það hafi þurft að leita til Tromsö vegna vélarbilunar hafi verið yfirskin. Í viðtölum skipverja við norska fjölmiðla hefur komið fram að þeir hafi kvikmyndað Winter Bay við bryggju í Tromsö og ætlunin sé að nota myndskeiðin í kvikmynd um ólöglega verslun með afurðir af dýrum í útrýmingarhættu sem sýnd verði á sjónvarpsstöðinni Discovery Channel. Uppákoman sem átti sér stað þegar Hvalur 8 kom með fyrstu langreyðina að landi í gærkvöldi gæti verið hluti af einhverju slíku.
Paul Watson forsprakki Sea Shepherd skrifaði á Facebook-síðu sína í gær að Sam Simon væri nú við Noreg í sérstakri rannsóknarferð sem manaði fram sterkar andstæður ("provoking a great deal of controversy"). Þar upplýsir hann að annað skip Sea Shepherd, Birgitte Bardot, sé nú við Færeyjar. Síðan sé verið að gera þriðja skipið sem heitir Bob Barker klárt til að láta úr höfn í Þýskalandi þaðan sem því verði stefnt til Færeyja.
Sam Simon sigldi skyndilega frá Tromsö í gær og hélt norður á bóginn. Það er nú á reki vestur af Hammerfest í Norður Noregi, á siglingaleiðinni frá Tromsö til Rússlands sem er einmitt sú leið sem Winter Bay þarf að fara til að komast með hvalkjötsfarm sinn áleiðis til Japan. Þannig virðist skip Sea Shepherd bíða þess að Winter Bay leggi úr höfn til að elta það áleiðis til Rússlands. Skipverjar á Sam Simon hafa þó lýst því yfir að þeir hafi ekkert misjafnt í hyggju, þeir séu einungis að koma á framfæri mótmælum gegn hvalveiðum og safna í sarpinn fyrir kvikmynd.
Norska strandgæsluskipið Andenes fylgir Sam Simon og lætur reka við hlið þess. Það má því vera ljóst að nokkur kostnaður fylgir því fyrir Norðmenn að hafa þessa gesti í sinni lögsögu. Tvö stór strandgæsluskip hafa nú haft þau verkefni að fylgjast með Sam Simon síðan um liðna helgi.
Koma Sam Simon til Norður Noregs hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum þar í landi og beint sjónum að íslenska hvalkjötsfarminum sem er í höfn í Tromsö þar sem tengsl hans við heimsókn Sea Shepherd eru augljós. Lögreglan þar hefur upplýst að hans sé vandlega gætt, skipið girt af og engir óviðkomandi fái að koma nálægt því. Skipstjóri Winter Bay hefur hafnað viðtölum við fjölmiðla og segist ekki geta tjáð sig við þá.