01. júlí. 2015 04:57
First endangered fin whale of the 2015 season killed in Iceland yesterday. Check out the video from our action. No words needed this time. #whalerwatching #whaling #iceland #endangered #hardtoport
Posted by Hard To Port on 1. júlí 2015
Hvalveiðaandstæðingarnir sem mótmæltu við hvalstöðina í Hvalfirði í gærkvöld þegar fyrsta langreyður vertíðarinnar var dregin á land hafa birt eigin myndbandsupptöku af atburðinum. Hana má skoða á Facebook-síðu félagsskapar sem kallar sig Hard to Port og mun hafa staðið fyrir mótmælunum í gær. Aðgerðin er bæði mynduð úr kajaknum sem var notaður en einnig úr klettunum ofanvert sunnan við hvalstöðina.
Samtökin Hard to Port voru að því er fram kemur á heimasíðu þeirra, stofnuð eftir að þýski ferðamaðurinn Arne Feuerhahn klifraði upp í tunnu í frammastri Hvals 8 í Reykjavíkurhöfn á síðasta ári. Þar dvaldi hann við mótmæli í nokkra klukkutíma. Ætlaði að vera í tvo sólarhringa, en yfirgaf tunnuna löngu áður en sá tími rann út og hvarf svo við lítinn orðstír að sumra mati.
Nú er Arne snúinn aftur og í gær birtist hann á uppblásnum kajak við hlið Hvals 8 vopnaður neyðarblysum. Hann virðist einnig sá sem klifraði upp á hvalinn þegar dýrið var dregið að landi til verkunar og skoða má í myndbandinu sem fylgir hér með.
Á Facebook-síðu Hard to Port má sjá fleiri myndbönd. Þau sýna meðal annars að Arne og félagar hafa fylgdust með því úr leynum þegar lokaundirbúningur fyrir vertíð fór fram á hvalbátunum í grennd við hvalstöðina á sunnudag. Þar er einnig að finna fjölda ljósmynda frá starfsemi sem gefa til kynna að þau hafi sent hóp fólks til Íslands í sumar til að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Svo virðist sem Hard to Port, sem hefur aðsetur í Berlín í Þýskalandi, ætli að halda uppi eins konar fjölmiðlaherferð gegn hvalveiðum í sumar og safna fé í leiðinni.
Í viðtali við Arne Feuerhahn sem birtist í Reykjavik Grapevine í fyrrasumar og lesa má með því að smella hér, kemur meðal annars fram að hann hefur starfað fyrir Sea Shepherd-samtökin . Þau sökktu tveimur íslenskum hvalveiðibátum 1986 og sitja nú um hvalkjötsfarminn sem er um borð í Winter Bay í Tromsö í Norður Noregi eins og Skesshorn hefur þegar greint frá.