08. júlí. 2015 06:01
Á fundi Rótarýklúbbs Borgarness síðastliðinn miðvikudag fóru fram umdæmisstjóraskipti Rótarý á Íslandi. Guðbjörg Alfreðsdóttir lét af embætti og við því tók Magnús B. Jónsson á Hvanneyri, félagi í Rótarýklúbbi Borgarness. „Rótarý á Íslandi er hluti af alþjóðlegu félagi. Hér á landi er 31 klúbbur og félagar um 1200 talsins. Hlutverk leiðtoga þessara samtaka er tvíþætt. Í fyrsta lagi er það forysta inn á við, þ.e. að hlúa að veikum klúbbum og efla þá sem eru sterkir. Í öðru lagi er umdæmisstjóri forsvarsmaður fyrir Rótarý á Íslandi á erlendri grundu,“ sagði Magnús þegar blaðamaður Skessuhorns tók hann tali eftir fundinn. „Hver umdæmisstjóri leggur sínar línur og kemur með sínar eigin áherslur til embættisins auk þess að fylgja þeim línum sem forverar hans hafa lagt. Ég mun leggja áherslu á að styrkja þá klúbba sem eiga erfitt af ýmsum ástæðum. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægara sé að efla þá sem fyrir eru en að stofna nýja ef gamall klúbbur deyr. Það er mikilvægt að umdæmisstjóri skynji hvaða klúbbar eru veikir og hverja þarf að styrkja,“ segir Magnús.
Nánar er sagt frá þessu í Skessuhorni sem kom út í dag.