10. júlí. 2015 06:01
Í lok síðustu viku var nýtt tjaldstæðishús vígt í Ólafsvík. Húsið er um 60 fm að stærð með fullkominni aðstöðu fyrir ferðafólk. Kristinn Jónasson bæjarstóri sagði í samtali við Skessuhorn að með þessu húsi væri bærinn kominn í nútímann með bættri aðstöðu fyrir ferðamenn. Ekki hafi verið vanþörf á þessu húsi þar sem eldra tjaldstæðishúsið hafi verið barn síns tíma. Kristinn sagði ennfremur að kostnaður við nýja húsið væru nálægt 20 milljónum króna. „Þetta hús er eins og þau gerast best á landinu,“ sagði hann.
Að sögn Kristins er mikil fjölgun ferðamanna um Snæfellsbæ á þessu ári. „Straumur ferðamanna er líklega 40% meiri en á sama tíma á síðasta ári. Ég á von á meiri aukningu í framtíðinni þannig að nú erum við betur í stakk búin til þess að taka við þessum aukna straumi hingað,“ sagði Kristinn.