10. júlí. 2015 01:24
Undanfarna daga hafa Skagamenn veitt athygli litlum seglbátum sem sjá má á hverjum degi á siglingu út af Langasandi. Um er að ræða æfingabúðir á vegum Siglingasambands Íslands sem fram fara á Akranesi þessa vikuna. „Þetta eru æfingabúðir fyrir öll siglingafélög á landinu, hér eru krakkar meðal annars frá Akureyri og höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Úlfur Hróbjartsson, formaður Siglingasambands Íslands, þegar blaðamaður Skessuhorns heimsótti hópinn þar sem hann snæddi hádegismat í blíðunni á Aggapalli síðastliðinn miðvikudag. „Við gerum þetta einu sinni á ári, að fara og halda æfingabúðir einhvers staðar á landinu. Undanfarin ár höfum við verið á Akureyri, Sauðárkróki og Stykkishólmi svo dæmi séu tekin,“ bætir hann við.
„Þetta er alveg ljómandi aðstaða,“ sagði Úlfur aðspurður um hvernig væri að sigla á Akranesi. „Nokkuð varið af skerjunum í kring. Reyndar opið fyrir sunnanáttinni en þegar svo ber undir er nóg pláss til að sigla í höfninni.“