15. júlí. 2015 08:01
Það verður söguleg stund í dag þegar Hótel Húsafell opnar dyr sínar fyrir fyrstu gestunum sem þar munu njóta dvalar. Þar með hefst það sem hiklaust má kalla nýjan kafla í ferðaþjónustu á þessum vinsæla og fagra dvalarstað efst í byggðum Borgarfjarðar. „Það var haldið eins konar reisugildi á sunnudagkvöld fyrir fólkið sem hefur unnið að byggingu og frágangi hótelsins. Undanfarið hefur verið unnið myrkranna á milli við að ganga frá því sem eftir stóð í frábærri samvinnu allra sem þar áttu hlut að máli,“ segir Unnar Bergþórsson hótelstjóri. Seinna í júlímánuði er svo ætlunin að halda eins konar opið hús í hótelinu þar sem almenningi gefst kostur á að koma í heimsókn og skoða það. „Þetta verður líklega föstudaginn 24. júlí eða þar um bil. Við erum ekki alveg búin að ákveða dagsetninguna enn. Fyrst þurfum við að sjá betur hvernig bókunarstaðan verður svo við séum fullviss um að geta annað því að halda slíkan dag,“ segir Unnar.
Nánar er greint frá framkvæmdunum í Skessuhorni sem kom út í dag. Einnig er rætt við Pál Guðmundsson listamann á Húsafelli sem skreytt hefur hótelið með verkum sínum.