Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. júlí. 2015 01:47

Reglur eru í gildi um flutning hættulegra efna um Hvalfjarðargöng

Um hálf níuleytið í morgun að íslenskum tíma varð alvarlegt slys í Noregi þegar tengivagn slitnaði aftan úr olíubíl á leið uppúr Skatestraum-jarðgöngunum sem eru neðansjávar í Bremanger í Sogn og Firðafylki í Vestur-Noregi. Tengivagninn með 16.500 lítrum af bensíni slitnaði aftan úr olíubílnum og rakst í vegg ganganna. Leki kom að tanki tengivagnsins, það kviknaði í bensíninu, sprenging varð og gríðarmikill eldur. Bílstjóri olíubílsins náði að gera viðvart í neyðarsíma í göngunum svo þeim yrði lokað og forðaði sér síðan en lét alla snúa við sem hann mætti á leiðinni upp úr þeim. Alls voru 19 manns í göngunum þegar slysið varð en allir komust út. Sex voru sendir á sjúkrahús eftir að hafa andað að sér reyk en ástand þeirra er ekki alvarlegt. Mikill eldur logar í göngunum. Lögreglan í Sogn og Firðafylki skrifar á Twitter-síðu sína að nú hafi allir björgunar- og slökkviliðsmenn verið kallaðir út úr þeim þar sem sjór er farinn að leka inn í þau, líklega af völdum sprenginga. Óttast er að göngin hrynji saman.

 

 

Þessar fregnir hafa vakið athygli á Íslandi og leitt hugann að Hvalfjarðargögnum. „Það eru reglur í gildi um Hvalfjarðargöng. Þær byggja byggja á ákveðnu áhættumati sem hefur verið unnið fyrir Hvalfjarðargöng í tvígang. Vegagerðin og lögreglan ákveða svo takmarkanir og undanþágur á þeim. Í það heila þá er akstur olíu og bensíns takmarkaður og það er bannað að flytja gas. Það má sjá nánari reglur um þetta á heimasíðu Spalar,“ segir Gísli Gíslason stjórnarformaður Spalar í samtali við Skessuhorn.

 

Afmarkaðir tímar í Hvalfjarðargöng

Á vef Spalar er tilgreint að bannað sé að flytja hættulega farma um Hvalfjarðargöng frá kl. 10:00 á föstudögum til kl. 01:00 á laugardögum. Einnig frá kl. 07:00 á laugardögum til kl. 01:00 á sunnudögum. Sömuleiðis frá kl. 07:00 á sunnudögum til kl. 01:00 á mánudögum. Um verslunarmannahelgi er flutningur hættulegra efna einnig bannaður frá kl. 10:00 fimmtudaginn fyrir verslunarmannahelgi til kl. 24 að kvöldi þriðjudags eftir verslunarmannahelgi. Svipað er um páska og hvítasunnu. Bann gildir frá kl. 10:00 miðvikudaginn fyrir páska til kl. 24 að kvöldi þriðjudags eftir páska, og frá kl. 10:00 föstudaginn fyrir hvítasunnu til kl. 24 að kvöldi þriðjudags eftir hvítasunnu. Það sem telst til hættulegra farma er eftirfarandi: sprengifim efni, lofttegundir, eldfimir vökvar, eldfim föst efni, efni með hættu á sjálftendrun, efni sem mynda eldfimar lofttegundir við snertingu við vatn, eldnærandi efni, lífræn peroxíð, eitruð efni, smitefni, geislavirk efni, ætandi efni og önnur hættuleg efni.

 

Gísli segir að flutningar á eldsneyti og öðrum álíka förmum í gegnum Hvalfjarðargöng hafi gengið vel á þeim 16 árum sem göngin hafa verið í opin. Hann segir að þó sé ekki vitað hve mikið af hættulegum förmum fari um Hvalfjarðargöng árlega. „Svona óhöpp eins og urðu í Noregi setja hins vegar alltaf hnút í magann. Við höfum alltaf lagt áherslu á öryggismálin í Hvalfjarðargöngum, meðal annars með því að halda niðri umferðarhraða. Olíubílarnir eru líka undir meira og betra eftirliti en margir aðrir bílar af sambærilegri stærð. Á endanum er þetta þó alltaf spurning um aðgæslu ökumanna. Atvikið í Noregi er áminning um að þurfi að hafa vakandi auga með þessum málum,“ segir Gísli Gíslason.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is