Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. júlí. 2015 09:04

Gunnar Bragi svarar Skúla Mogensen og Bubba Morthens fullum hálsi

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra gefur lítið fyrir andóf einstaklinga á borð við Skúla Mogensen forstjóra WOW Air og Bubba Morthens tónlistarmanns gegn fyrirhugaðri sólarkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga. Báðir hafa farið mikinn gegn verksmiðjunni í sumar. Bubbi ýjaði meðal annars að því í útvarpsviðtali á Bylgjunni nýverið, reyndar í gríni en þó eflaust með broddi af alvöru, að nú stefndi í að svo mikil flúormengun yrði í Hvalfirði að enginn sem æki þar í gegn þyrfti að bursta tennurnar næstu 1.500 árin eða svo.

 

„Ég botna ekkert í þessari umræðu,“ segir utanríkisráðherrann um málflutning andstæðinga sólarkísilverksmiðjunnar. Hann bætir við að honum finnist margt í henni með því vitlausasta sem hann hafi heyrt lengi.

 

Utanríkisráðherrann og 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis er harður fylgismaður þess að sólarkísilverksmiðja Silicor verði reist. Hann segir í viðtali við Skessuhorn að ríkisstjórnin standi heilshugar á bak við hana og að hún vilji að þessi verksmiðja á Grundartanga verði að veruleika sem allra fyrst.

 

„Á Grundartanga er álver og járnblendiverksmiðja auk annarrar starfsemi. Verksmiðja Silicor á að rísa við endann á lóð álversins. Mér finnst alger rökleysa í þessum skoðunum Skúla Mogensen og Bubba Morthens. Ef iðnaður á Grundartanga kemur í veg fyrir að hótel eða ferðaþjónusta rísi við Hvalfjörð, hafa menn þá áform um að koma álverinu og járnblendinu í burtu? Iðnaður á Grundartanga er staðreynd. Með Silicor er verið að tala um verkefni sem er væntanlega umhverfisvænna en það sem við höfum fyrir á Grundartanga án þess sú starfsemi sem þar er hafi verið til neins skaða. Menn ættu að fagna þessari uppbyggingu.“

 

En telur þingmaðurinn og ráðherrann ekki að rétt hefði verið að sólarkísilverksmiðja Silicor færi í umhverfismat? „Við erum með ákveðin lög og reglur um þessa ferla. Eftir þeim er farið. Það á ekki að beygja lög eftir geðþótta. Sérfræðingar hafa lagt mat á þessa tækni sem á að nota. Þetta verkefni var metið af þeim svo að verksmiðja Silicor þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Við það situr. Sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit hefur einnig axlað sína ábyrgð og vandað mjög til verka í sínum ferlum sem snúa til að mynda að skipulagsmálum.“

 

Gunnar Bragi segir að sér finnist kominn tími til þess að þau sem gagnrýna iðnaðaruppbyggingu á Íslandi líti nú aðeins í eigin barm. „Þau mættu velta fyrir sér hvort þessi starfsemi sé nú ekki að skila einhverju til þeirra líka. Að hún sé einnig fyrir þeirra hag og heildarinnar. Allt styrkir þetta efnahagslíf okkar sem búum hér á Íslandi. Við þurfum að breikka úrvalið í atvinnulífinu og efla heildarmynd þess. Það þarf að búa til góða og rétta blöndu. Það geta til dæmis orðið áföll í ferðaþjónustu, álverð getur lækkað eða komið upp vandræði á fiskmörkuðum. Með því að bæta við okkur iðnaðarkostum erum við að fjölga eggjunum í körfunni og væntanlega gera framtíðina öruggari.“

 

Gunnar Bragi segir einnig: „Silicor-verkefnið er mjög jákvætt sem ég veit að við í ríkisstjórninni viljum að verði að veruleika sem allra fyrst.“

 

Úr opnuviðtali Skessuhorns við Gunnar Braga Sveinsson.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is