Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. júlí. 2015 09:00

Eitthvað fyrir alla á Reykhóladögum um helgina

Reykhóladagar verða haldnir hátíðlegir dagana 23. - 26. júlí næstkomandi. Dagskráin verður í grófum dráttum með hefðbundnu sniði en þó bætast við einhverjar nýjungar. Til dæmis verða í fyrsta sinn haldnir Össuleikar í Króksfjarðarnesi og hið sívinsæla kassabílarallí hefur einnig verið fært þangað, til prufu. „Í ár verða fleiri viðburðir hér og þar um sveitina en verið hefur,“ sagði Jóhanna Ösp Einarsdóttir, tómstundafulltrúi og skipuleggjandi Reykhóladaganna, í samtali við Skessuhorn. „Það er um að gera að reyna að nýta fleiri staði í sveitinni okkar,“ bætir hún við.

 

Í ár verður í fyrsta sinn boðið upp á armbönd fyrir þá sem vilja sækja allar kvöldskemmtanir hátíðarinnar. Auk þess eru fjórar máltíðir innifaldar sem og þátttökugjaldið í Reykhóladagahlaupinu. Aðgangur að viðburðum er að öðru leyti ókeypis. „En að sjálfsögðu er hægt að borga sig inn á einstaka viðburði ef fólk vill það heldur,“ segir Jóhanna. Dagskráin hefst laust eftir hádegi á fimmtudeginum með kvikmyndasýningu á Báta- og hlunnindasýningunni. Snemma kvölds verður slegið upp harmonikkuballi þar sem Halldór Þorgils Þórðarson mun þenja nikkuna. Að því loknu verður barsvar og tónleikar með hinni fornfrægu hljómsveit Spöðum. „Þeir komu og héldu tónleika á Reykhóladögum í fyrra og það sló algjörlega í gegn,“ segir Jóhanna.

 

Föstudagurinn er þéttskipaður viðburðum fyrir alla fjölskylduna. Íbúar bjóða gestum og gangandi í súpu í hádeginu áður en hverfin keppa sín á milli í alls kyns þrautum í Hvanngarðabrekku. Árleg spurningakeppni verður á sínum stað og um kvöldið verður brenna í Bjarkalundi. Strax að henni lokinni mun trúbadorinn Halli Reynis stíga á svið.

 

Laugardagurinn hefst á Reykhóladagahlaupi, þar sem hlaupagarpar geta valið um nokkrar vegalengdir. Þreyttir hlauparar geta náð sér niður á jóganámskeiði strax að hlaupi loknu. „Það hefur aldrei verið jóganámskeið áður. Hún Elísabet Norðdahl, sem er einmitt héðan, hafði samband við mig og langaði að taka þátt í dagskránni. Mér fannst þetta því upplagt og um að gera að nýta krafta heimafólksins,“ segir Jóhanna. Framtak heimamanna verður áfram áberandi eftir hádegi þegar hin árlega dráttarvélasýning verður haldin. Fjölskyldurnar á Grund og Seljanesi leggja til vélarnar á sýninguna að stærstum hluta og hafa gert frá upphafi. Við sama tilefni verður gestum þrítugum og eldri gefinn kostur á að spreyta sig í akstursleiknibraut og er það Grundarfólk sem heldur utan um keppnina.

 

Að því loknu verður karnivalstemning í Hvanngarðabrekku með hoppuköstulum, þaraþrautum og fleiru fyrir börnin. Hluti af því verður skottsala, nokkurs konar flóamarkaður þar sem fólk selur úr skottinu á bílnum sínum, „beint frá station-bíl(i),“ segir Jóhanna létt í bragði. Strax í kjölfar þessa hefst grillveisla á sama stað undir veislustjórn Jóhannesar Kristjánssonar eftirhermu. Seinna um kvöldið verða tvö böll með hljómsveitinni Sóldögg, það fyrra fyrir alla aldurshópa en það síðara fyrir 18 ára og eldri.

 

Dagskráin teygir sig yfir á sunnudag að þessu sinni því boðað verður til léttmessu í Reykhólakirkju. Til að slá botninn í hátíðina verða Össuleikarnir haldnir í fyrsta sinn í Króksfjarðarnesi síðdegis og þar fer einnig fram hið árlega kassabílarallí.

 

„Gestir Reykhóladaganna mega búast við fjölskylduvænni skemmtun þar sem boðið verður upp á eitthvað við allra hæfi,“ segir Jóhanna að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is