Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. júlí. 2015 02:00

Skotthúfan komin til að vera í Stykkishólmi

Mikið var um að vera í Stykkishólmi um síðustu helgi. Fjöldi gesta sóttu bæinn heim og Stykkishólmur iðaði af mannlífi. Leirkera- og eldsmiðir komu saman hjá Leir 7  en annar viðburður setti einnig svip sinn á bæinn. Það er Skotthúfan, þjóðbúningadagur Norska hússins, sem var haldinn með ýmsum áhugaverðum dagskrárliðum. Þetta er í ellefta sinn sem Skotthúfan fer fram. Tvær af þeim þremur konum sem báru hitann og þungann af skipulagningu hátíðarinnar í ár eru sammála um að hún hafi sjaldan eða aldrei heppnast betur.

 

Meðal dagskrárliða var hin svokallaða Skotthúfukeppni. Í hana getur fólk lagt sínar eigin hönnuðu skotthúfur. Gestir og gangandi í Norska húsinu kusu síðan hvaða húfa þeim þótti skemmtilegust. Í ár bárust átta húfur í keppnina. Skotthúfa Huldu Hreindal Sigurðardóttur varð hlutskörpust.

 

„Þetta gekk mjög vel. Það voru tónleikar á föstudagskvöldinu í gömlu kirkjunni hér í Stykkishólmi þar sem flutt var gömul íslensk sálmatónlist. Svo byrjaði hátíðin klukkan eitt á laugardeginum. Það var fluttur fyrirlestur í gömlu kirkjunni og veitt hefðbundið kaffi með pönnukökum hér í Norska húsinu. Síðan voru fyrirlestrar í Eldfjallasafninu á laugardeginum. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur talaði þar um Móðuharðindin. Síðan hélt Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur og rithöfundur erindi um það hvernig íslenskir kvenbúningar breyttust eftir harðindin. Að lokum var haldin kvöldvaka á laugardagskvöld í Tang & Riis. Þar voru sungin gömul íslensk þjóðlög og Pétur Húni Björnsson kvað rímur eftir Sigurð Breiðfjörð. Hann gerði það reyndar einnig í Norska húsinu fyrr um daginn einnig. “ segir Hjördís Pálsdóttir safnstjóri Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla. Auk þess að skipuleggja hátíðina þá tók hún sjálf virkan þátt í Skotthúfunni.

 

Anna Melsteð er einnig í hópi þeirra sem skipulögðu Skotthúfuna í ár. „Þetta lukkaðist mjög vel. Skotthúfan verður endurtekin í Stykkishólmi að ári. Hún hefur fest sig í sessi og verður vísast árlegur viðburður hér eftir,“ segir Anna. Að hennar sögn hefur Skotthúfan þróast og eflst með hverju ári. „Skotthúfan er breytileg frá ári til árs. Í fyrra var lögð áhersla á gamla langspilið og tónlist þess. Þar að auki kom þjóðdansahópurinn Sporið úr Borgarfirði en þau gátu því miður ekki komið núna. Í ár horfðum við á Móðuharðindin og skoðuðum hvernig faldbúningurinn breyttist eftir þær hörmungar. Síðan var fyrirlestur um það hvernig klæðnaður kvenna breyttist eftir að þær fengu kosningarétt fyrir einni öld. Ljósmyndasýning var sett upp um klæðnað kvenna í Stykkishólmi, nærsveitum og eyjum Breiðafjarðar í gömlu kirkjunni hér í Stykkishólmi. Það er athygli vert að rifja upp það voru konur í Hólminum og Breiðafjarðareyjunum sem beittu sér fyrst fyrir því að kirkja yrði reist í Stykkishólmi. Helga Ósk Einarsdóttir sýndi einnig víravirki og skartgripi í gömlu krambúðinni í Norska húsinu. Þar var gaman að skoða hvernig hún hefur nýtt flókið skartgripahandverk og hönnun fyrri alda til að skapa nýja hluti.“

 

Skotthúfan er að sögn Önnu í stöðugri þróun. „Hátíðin var haldin fyrst í kjölfar námskeiðs í þjóðbúningagerð sem efnt hafði verið til hér í Stykkishólmi. Til að byrja með var það mest fólk héðan úr bænum sem tók þátt. Síðan hefur fólk komið úr fleiri áttum. Í dag sjáum við mikið úrval þjóðbúninga á Skotthúfunni. Í fyrra náði dagskrá Skotthúfunnar svo í fyrsta sinn yfir þrjá daga. Það var öðrum þræði gert því þá átti hún tíu ára afmæli. Við sjáum að það er greinilegur áhugi fyrir svona viðburði,“ segir Anna Melsteð.

 

Skoða má skemmtilegt safn ljósmynda frá Skotthúfunni 2015 á Facebook-síðu hátíðarinnar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is