Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. júlí. 2015 05:05

ÍA - Leiknir í beinni

Komiði sæl og velkomin í beina textalýsingu frá Akranesvelli þar sem ÍA tekur á móti Leikni R. í 13. umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 19:15. Lýsingin verður hér að neðan og fréttin verður uppfærð eftir atvikum á meðan leik stendur.

 

Lesendum er bent á að nauðsynlegt er að ýta á „refresh“ hnappinn í vafranum því fréttin uppfærir sig ekki sjálfkrafa.

 


 

95. mín. Leik lokið! Skagamenn sigla sigrinum heim. Lokatölur 2-1!

 

94. mín. MARK! Leiknismenn minnka muninn. Boltanum er lyft inn á teig Skagamanna. Leiknismenn pota honum framhjá Árna og í stöngina. Halldór Kristinn Halldórsson tekur frákastið og leggur hann í markið. Þetta var allt saman hið undarlegasta.

 

93. mín. Fyrsti Langasandsbolti leiksins hefur litið dagsins ljós. Marko Andelkovic lúðrar lágri fyrirgjöf Leiknismanns út fyrir bæjarmörkin í gin Ægis konungs.

 

92. mín. Jón Vilhelm með skemmtilega sendingu djúpt af hægri kantinum á kollinn á Ólafi Val en skalli hans framhjá.

 

91. mín. Leikmenn Leiknis reyna hvað þeir geta að minnka muninn en Skagamenn virðast vera að sigla sigrinum heim.

 

89. mín. Ásgeir Marteins í dauðafæri en markvörður leiknis kemur vel út á móti, gerir sig breiðan ver glæsilega.

 

86. mín. Leiknismenn með fyrirgjöf frá hægri og skalla enn eina ferðina rétt yfir markið.

 

84. mín. MARK! Skagamenn eru komnir í 2-0!
Eftir skyndisókn berst boltinn á Þórð Þorstein sem missir hann frá sér og sóknin virðist vera að renna út í sandinn. Hann sendir fyrir þar sem Marko Andelkovic tekur við honum, leikur inn í teiginn og setur hann í fjærhornið.

 

82. mín. Skagamenn gera breytingar á sínu liði. Af velli koma þeir Garðar Gunnlaugsson og Hallur Flosason. Inn á koma Ólafur Valur Valdimarsson og Marko Andelkovic.

 

81. mín. Arsenij kominn einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Halli. Leikur á varnarmann og ætlar að setja hann í nær en rétt framhjá.

 

80. mín. Leiknismenn gera síðustu breytinguna á sínu liði. Kristján Páll Jónsson fer af velli og inn á í hans stað kemur Ólafur Hrannar Kristjánsson. Ekki hefur fengist staðfest hvort þeir séu feðgar eða ekki.

 

78. mín. Leiknismenn sleppa í gegn eftir frábæra sendingu Danny Schreurs skorar en rangstaða dæmd. Leiknismenn æfir.

 

76. mín. Skagamenn ná skyndisókn. Boltinn berst á Jón Vilhelm á hægri kanti sem fer inn á völlinn og skýtur að marki en skot hans varið.

 

74. mín. Aftur nær Leiknir góðri fyrirgjöf, nú frá vinstri, en Darren nær að bjarga í horn áður en sóknarmaður nær til boltans. Upp úr horninu nær Óttar Bjarni skalla en rétt yfir markið.

 

72. mín. Gult spjald. Eiríkur Ingi Magnússon nælir sér í fyrsta spjald Leiknis fyrir að toga Ásgeir niður.

 

72. mín. Kristján Páll með stórhættulega fyrirgjöf fyrir mark Skagamanna og á fjærstöngina en Þórður Þorsteinn kastar sér á boltann og bjargar í horn. 

 

70. mín. Leiknismenn nálægt því að jafna með skalla eftir hornspyrnu en hárfínt framhjá samskeytunum.

 

66. mín. Fast skot að marki Skagamanne en beint á Árna Snæ sem slær boltann upp í loftið og handsamar hann svo.

 

65. mín. Eftir ágætan samleik ná Leiknismenn fyrirgjöf en Árni Snær nær að slæma hendi í boltann áður en þeir ná skalla að marki.

 

63. mín. Skipting. Skagamenn gera breytingu á liði sínu. Af velli fer Eggert Kári og inn á í hans stað kemur Arsenij Buinickij.

 

61. mín. Garðar á góða sendingu innfyrir á Ásgeir sem lætur vaða en varnarmaður nær að henda sér fyrir skotið.

 

60. mín. Kristinn Páll Jónssoná skot hægra megin úr vítateignum sem Darren hendir sér fyrir. Leiknismenn hafa verið betri undanfarnar mínútur.

 

58. mín. Stórhætta við mark Skagamanna. Hornspyrna fellur fyrir fætur Halldórs Kristins Halldórssonar sem lúðrar boltanum yfir markið frá markteignum úr sannkölluðu dauðafæri.

 

54. mín. Skipting. Leiknismenn gera tvær breytingar á liði sínu. Kolbeinn Kárason og Sindri Björnsson víkja fyrir Elvari Páli Sigurðssyni og Danny Schreus.

 

53. mín. Skammt stórra högga á milli. Jón Vilhelm tekur hornspyrnu sem Garðar skallar rétt framhjá.

 

53. mín. Hætta við mark Skagamanna. Kolbeinn Kárason skallar hornspyrnu í þverslána og Árni Snær handsamar síðan boltann. Skagamenn heppnir.

 

52. mín. Kristján Páll Jónsson á góða sendingu inn á teig Skagamanna. Ármann Smári rennir sér á boltann en hittir hann illia og hann stefnir í markhornið en Árni Snær vel á verði og grípur hann.

 

51. mín. Garðar vinnur boltann af varnarmanni inni í vítateig Leiknismanna hægra megin, á skot að marki en hárfínt framhjá.

 

48. mín. Jón Vilhelm á góða aukaspyrnu frá vinstri sem er skölluð á markið en varið.

 

46. mín. Síðari hálfleikur er hafinn. Vilhjálmur Alvar lætur loftið leika um flautuna. Leiknismenn hafa boltann.

 

45. mín. Hálfleikur. Skagamenn leiða 1-0 í leik sem hefur hingað til verið laus við stór tíðindi og merkar fregnir. Eggert Kári Karlsson kom þeim yfir eftir að markverði Leiknis mistókst að halda skoti Ásgeirs Marteinssonar.

 

43. mín. Gult spjald. Leiknismenn eru eitthvað pirraðir þessa stundina og kvarta sáran yfir öllum ákvörðunum dómarans. Davíð Snorri Jónasson þjálfari þeirra fær gult spjald fyrir athugasemd af bekknum.

 

39. mín. Gult spjald. Darren Lough hlotnast fyrsta gula spjald leiksins fyrir brot úti á vinstri kanti.

 

38. mín. MARK! Skagamenn eru komnir yfir! Eftir aukaspyrnu frá hægri berst boltinn til Ásgeirs Marteins sem nær skoti að marki úr erfiðri stöðu. Markvörður Leiknis nær ekki að halda boltanum og Eggert Kári nær frákastinu og skorar auðveldlega.

 

33. mín. Garðar fleytir langri markspyrnu Árna Snæs inn í teiginn en Eyjólfur Tómasson, markvörður Leiknis, nær til boltans rétt á undan Ásgeiri Marteins.

 

28. mín. Leiknismenn við það að sleppa í gegn en reynsluboltinn Ármann Smári les lokasendinguna og bjargar þessu.

 

25. mín. Eftir langt innkast berst boltinn út fyrir teiginn þar sem Þórður Þorsteinn tekur hann á fyrsta með vinstri en skot hans framhjá.

 

22. mín. Stórhætta við mark Leiknis! Darren með frábæra fyrirgjöf frá vinstri sem Hallur rétt missir af. Eggert fær boltann, fer framhjá varnarmanni, potar boltanum út á Jón Vilhelm sem á skot frá vítapunktinum en bjargað á línu!

 

21. mín. Leiknir ná góðri fyrirgjöf frá hægri, skalla að marki en skallinn laus og beint á Árna Snæ í markinu.

 

20. mín. Spyrnan er stórgóð, fer framhjá varnarmönnum Leiknis en Skagamenn hársbreidd frá því að komast í boltann.

 

19. mín. Skagamenn fá aukaspyrnu um 35 metra frá marki, aðeins til hægri. Jón Vilhelm býst til að lyfta boltanum inn á teig.

 

15. mín. Árni Snær með frábæra sendingu frá markinu, beint á Garðar á vítateigsboganum en hann nær ekki að taka boltann með sér.

 

13. mín. Leiknismenn vinna boltann á vinstri kanti eftir mistök Eggerts Kára. Kolbeinn Kárason kemst inn á teig, leggur boltann fyrir en Arnór rennir sér fyrir fyrirgjöf hans og bægir hættunni frá.

 

Grasbalarnir eru þéttskipaðir. Ekki viss hvort efsta línan eru áhorfendur eða biðröðin í hamborgaratjaldið þar sem freistingarnar búa.

 

9. mín. Hafði varla ritað orðin þegar Ásgeir Marteinsson kom sér framhjá varnarmanni og gaf sendingu inn á teig sem hreinsuð var í innkast. Upp úr því fengu Skagamenn svo færi eftir að Leiknisvörnin leyfði boltanum að skoppa í vítateignum. Skallinn á markið hins vegar laus.

 

8. Leiknismenn nokkuð yfirvegaðri í leik sínum þessar fyrstu mínútur. Flýta sér hægt og leika sín á milli.

 

4. mín. Jón Vilhelm skrúfar langa aukaspyrnu inn á teiginn en Leiknismenn skalla frá.

 

Seljabrytavaktin (e. celebrity watch): Garðar Gunnlaugsson er á vellinum.

 

1. mín. Skagamenn leika laglega sín á milli. Garðar gefur boltann á Ásgeir sem leggur hann fyrir Eggert Kára en skot hans framhjá hægra megin úr vítateignum.

 

1. mín. Leikurinn er hafinn! Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari blæs í flautu sína. Skagamenn byrja með boltann.

 

Liðin ganga út á völlinn í fylgd knattspyrnuhetja framtíðarinnar. 5 mín. í leik.

 

Það er nokkur fyrirferð í þessum Leiknisstuðningsmönnum. 

 

Stuðningsmenn gestanna eru töluvert meira áberandi hér á vellinum en heimamenn enn sem komið er. Rútan úr Breiðholtinu er mætt.

 

Korter í leik og Benni Valur er að sækja kaffi handa blaðamönnum. Hann vinnur mjög óeigingjarnt starf hér á Akranesvelli og kunnum við honum bestu þakkir fyrir!

 

Annars eru bæði lið mætt út á völl og farin að hita upp. 35 mín. í leik.

 

Hamborgaratjaldi hefur verið komið upp beint á móti blaðamannastúkunni, að því er virðist gagngert til að freista mín.

 

Fínn lagalisti í gangi á Akranesvelli núna. 45 mín í leik. Diskó!

 

Blaðamaður vissi ekki einu sinni að hann ætti til fermingarbrandara. Knattspyrnan kemur stöðugt á óvart.

 

Skessuhorn hefur haft af því spurnir að allir leikmenn í byrjunarliði Leiknis hafi fermst í Fella- og Hólakirkju. Ekki náðist í Sr. Svavar Stefánsson, sóknarprest í Fellasókn, við vinnslu þessa innslags. Kristindómur Leiknismanna hefur því enn ekki fengist staðfestur.

 

 

Byrjunarlið Skagamanna er sem hér segir:

12. Árni Snær Ólafsson (m) 
4. Arnór Snær Guðmundsson 
5. Ármann Smári Björnsson 
8. Hallur Flosason 
9. Garðar Bergmann Gunnlaugsson 
10. Jón Vilhelm Ákason 
11. Arnar Már Guðjónsson 
16. Þórður Þorsteinn Þórðarson 
19. Eggert Kári Karlsson 
23. Ásgeir Marteinsson 
27. Darren Lough 

Byrjunarlilð gestanna úr Leikni:

 

22. Eyjólfur Tómasson (m) 
3. Eiríkur Ingi Magnússon 
4. Halldór Kristinn Halldórsson 
7. Atli Arnarson 
8. Sindri Björnsson 
9. Kolbeinn Kárason 
11. Brynjar Hlöðversson 
15. Kristján Páll Jónsson 
20. Óttar Bjarni Guðmundsson 
21. Hilmar Árni Halldórsson 
23. Gestur Ingi Harðarson 

 

Nú styttist í að byrjunarliðin verði kunngjörð. Ég er nokkuð spenntur, viðurkenni það.

 

Aðstæður á Akranesvelli eru nánast eins og best verður á kosið. Völlurinn lítur vel út og miðað við fánana rétt andar vindi úr vestnorðvestri.

 

Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 0-1 sigri Skagamanna.

 

Skagamenn eru fyrir leikinn í 9. sæti deildarinnar með 13 stig eftir tólf leiki en gestirnir úr Breiðholtinu sitja í 11. og næstneðsta sæti með 10 stig eftir jafn marga leiki.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is