Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. júlí. 2015 10:32

Skagamenn slíta sig frá botnbaráttunni með sigri á Leikni

ÍA mætti Leikni í 13. umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu á Akranesvelli í kvöld. Fyrir leikinn voru Skagamenn í níunda sæti deildarinnar með 13 stig en Leiknir í því ellefta með 10. Fyrri viðureign liðanna í sumar lauk með 0-1 sigri ÍA.

Liðin voru nokkuð jöfn framan af leik. Leiknismenn voru heldur yfirvegaðri í samleik sínum en ekki nógu beinskeyttir fram á við. Skagamenn vörðust prýðilega og sóknaraðgerðir þeirra voru markvissari. Á 22. mínútu átti Darren Lough frábæra fyrirgjöf frá vinstri sem Hallur Flosason rétt missti af. Boltinn barst á Eggert Kára Karlsson. Hann fór framhjá varnarmanni, lagði hann á Jón Vilhelm Ákason sem skaut að marki en Leiknismenn björguðu á línu.

Á 38. mínútu náðu Skagamenn forystunni. Eftir aukaspyrnu frá hægri barst boltinn til Ásgeirs Marteins sem náði að snúa og skjóta að marki úr erfiðri stöðu. Eyjólfur Tómasson í marki Leiknis náði ekki að halda boltanum. Eggert Kári náði frákastinu og skoraði auðveldlega úr markteignum en Eyjólfur hefði ef til vill átt að gera betur. Staðan í hálfleik 1-0.

 

Í síðari hálfleik var áfram nokkuð jafnt á með liðunum. Garðar Gunnlaugsson hefði getað komið ÍA í 2-0 eftir að hann vann boltann af varnarmanni Leiknis en skot hans hárfínt framhjá. Stuttu síðar átti Kolbeinn Kárason skalla í þverslánna og skömmu seinna þrumaði Halldór Kristinn Halldórsson boltanum yfir af markteig Skagamanna.

Leiknismenn virtust ná meiri og betri tökum á leiknum eftir því sem leið á. Nokkrum sinnum reyndi á vörn Skagamanna eftir kantspil Leiknismanna. Þeir skoruðu síðan á 78. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu við kröftug mótmæli gestanna, bæði innan vallar sem utan.

Skagamenn gerðu tvöfalda skiptingu á 82. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði varamaðurinn Marko Andelkovic. Skagamenn voru í skyndisókn þegar boltinn barst til Þórðar Þorsteins Þórðarsonar í utanáhlaupi á hægri kanti. Sendingin var ekki alveg nógu góð og sóknin virtist vera að renna út í sandinn. Þórður náði hins vegar að koma boltanum fyrir þar sem Marko tók á móti honum, fór framhjá einum varnarmanni, lagði boltann í fjærhornið og kom Skagamönnum í 2-0.

Undir lok venjulegs leiktíma fékk Ásgeir Marteinsson dauðafæri eftir frábæra stungusendingu en Eyjólfur í marki Leiknis gerði vel og varði skot hans og Leiknismenn eygðu enn veika von. Þeir minnkuðu muninn á 94. mínútu með undarlegu marki. Boltanum var þá lyft inn á teig Skagamanna, djúpt af hægri kanti. Danny Schreurs tókst að pota honum framhjá Árna Snæ í markinu og í stöngina. Þar kom Halldór Kristinn Halldórsson og lagði boltann í netið. Skagamenn heimtuðu rangstöðu en dómarinn sýndi því lítinn áhuga og markið stóð.

Fleiri mörk voru hins vegar ekki skoruð og lokatölur á Akranesvelli 2-1, Skagamönnum í vil.

Úrslitin gera það að verkum að ÍA lyftir sér upp um eitt sæti í deildinni, situr nú í því áttunda með 16 stig eftir 13 leiki og er búið að slíta sig aðeins frá liðunum í botnbaráttunni.

Næsti leikur Skagamanna er útileikur gegn Víkingi R. miðvikudaginn 5. ágúst næstkomandi.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is