Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
30. júlí. 2015 11:00

Enn ríkir mikil óvissa um makrílvertíð sumarsins

Þann 29. júlí í fyrra, höfðu alls 86 smábátar stundað makrílveiðar það sem af var sumri og alls aflað 1.592 tonna. Samkvæmt yfirliti Fiskistofu nú þá hafa aðeins ellefu smábátar á landsvísu sótt makrílafla í greipar Ægis það sem af er sumri. Þeir hafa samtals landað rétt rúmum 32 tonnum. Af þessum ellefu eru sjö smábátar frá Vesturlandi.  Á sama tíma í fyrra höfðu 27 bátar af Vesturlandi hafið makrílveiðar og alls aflað 549 tonna. Þetta eru mikil viðbrigði samanborið við sama tíma í fyrra.

 

Ekki allt gull sem glóir

Ljóst er að nú stefnir í að makrílvertíð smábáta í sumar verði aðeins skugginn af því sem verið hefur á síðustu vertíðum. „Staðan sem upp er komin er graf alvarleg og mikið áhyggjuefni og sýnir glöggt að ekki allt gull sem glóir,“ segir í frétt á vef Landssambands smábátaeigenda. Talað er um að verð í boði fyrir handfæraveiddan makríl séu aðeins um helmingur þess sem fékkst greitt fyrir hann á vertíðinni í fyrra. Það stefnir því í verðhrun á makríl smábátanna og afleiðingin verður hrun í veiðum nema verðin hækki. Helst er að smábátaeigendur sjái sér hag í að veiða makrílinn og frysta hann í beitu fyrir línuveiðarnar í haust og vetur.

 

Stóru skipin hafa aflað betur en þó er ljóst af aflatölum að ekki er sami krafturinn í aflabrögðum þeirra og á síðasta ári.. Heildarafli þeirra um 45 þúsund tonn það sem af er. Á sama tíma í fyrra voru þau hins vegar búin að veiða 61 þúsund tonn samkvæmt vef Fiskistofu. Afli þeirra það sem af er vertíð nú er þannig um 14 þúsund tonnum minni en á sama tíma í fyrra. Segja má að um fjórðungi minni makrílafli hafi borist á land það sem af er þessari vertíð samanborið við 29. júlí í fyrra.

 

Aðeins búið að veiða fjórðung kvótans

Heildar aflaheimildir íslenskra skipa í makríl nú í ár eru 179 þúsund tonn þannig að enn eru 118 þúsund tonn óveidd ef kvótinn á að nást. Nú er búið að veiða 26 prósent af kvóta ársins. Í fyrra var heildarkvótinn 148 þúsund tonn. Þá var búið að veiða alls 41 prósent af kvótanum þann 29. júlí.

 

Þetta er þyngsta byrjun á makrílvertíð sem við höfum farið inn í frá því að veiðar úr stofninum hófust,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í samtali við vefritið kvotinn.is.

 

Enn virðist mikil óvissa ríkja um sölu- og markaðsmál á makríl. Teikn eru á lofti um talsverðar verðlækkanir á alþjóðlegum mörkuðum. Þykir margt benda til að mikið verðfall verði á makríl í ár enda alvarlegar blikur á lofti í markaðsmálum. Geysimikið er í húfi fyrir þjóðarbúið enda var makríllinn verðmætasti nytjastofn Íslands á síðasta ári. Hann hefur sömuleiðis verið góð búbót fyrir sjávarútveginn og atvinnulíf á Vesturlandi um sumartímann.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is