Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. ágúst. 2015 11:22

Dramatík á Kópavogsvelli

ÍA mætti Breiðabliki í 16. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Viðureign liðanna á Akranesvelli fyrr í sumar lauk með 0-1 sigri Breiðabliks og fyrir leikinn í gær voru Skagamenn í níunda sæti deildarinnar en Blikar í því þriðja. Leikmenn Breiðabliks réðu lögum og lofum á vellinum í fyrri hálfleik og sóttu stíft. Þeir brenndu hins vegar ítrekað af í ákjósanlegum færum. Allra besta færið fékk Ellert Hreinsson á 34. mínútu. Höskuldur Gunnlaugsson átti þá frábæra fyrirgjöf, beint á Ellert sem skaut boltanum yfir markið af eins metra færi eða svo. Aðeins þremur mínútum síðar náðu Blikar skalla að marki eftir hornspyrnu en Árni Snær varði meistaralega í marki Skagamanna. Þegar flautað var til hálfleiks hafði hvorugu liðinu tekist að skora þrátt fyrir þunga sókn heimamanna.

 

 

En eitthvað varð undan að láta. Síðari hálfleikur var aðeins tveggja mínútna gamall þegar Jonathan Glenn kom Breiðabliki yfir. Arnór Sveinn Aðalsteinsson sendi góða fyrirgjöf fyrir mark Skagamanna þar sem Glenn kom aðvífandi og skallaði boltann í netið.

 

Eftir markið lifnaði yfir leik ÍA liðsins og þeir sköpuðu sér nokkur sæmileg færi. Breiðablik var þó sterkara liðið á vellinum. Guðjón Pétur Lýðsson hefði getað aukið forystu þeirra á 63. mínútu en skot hans úr vítateignum varði Árni Snær glæsilega.

 

Á 83. mínútu gerðist það hins vegar að Skagamenn jöfnuðu gegn gangi leiksins. Jón Vilhelm Ákason hafði þá boltann hægra megin í vítateignum, lagði hann út fyrir miðjan teig þar sem Albert Hafsteinsson kom á ferðinni og lagði hann snyrtilega í markhornið.

 

Dramatíkin átti enn eftir að aukast í Kópavoginum því á 88. mínútu skoraði Jonathan Glenn sitt annað mark og kom Breiðabliki aftur yfir. Þegar komið var fram í uppbótartíma fengu Skagamenn hornspyrnu. Allt liðið var sent í vítateig Blika, Árni Snær markvörður þar með talinn. Hornspyrnan fór hins vegar forgörðum, boltinn barst á títtnefndan Jonathan Glenn sem geystist upp allan völlinn og skoraði í autt markið. Lokatölur á Kópavogsvelli 3-1, Breiðabliki í vil.

 

Úrslitin þýða að Skagamenn sitja í níunda sæti deildarinnar með 17 stig eftir 16 leiki. Næst mæta þeir Fjölni á Akranesvelli mánudaginn 24. ágúst og verður sá leikur í beinni textalýsingu á vef Skessuhorns.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is