Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. ágúst. 2015 09:30

ÍA og Fjölnir skildu jöfn í átta marka leik

ÍA tók á móti Fjölni í mögnuðum leik í 17. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á Akranesvelli í kvöld. Skagamenn áttu harma að hefna frá því í fyrri viðureign liðanna sem lauk með 2-0 sigri Fjölnis í Garðabænum.

 

Leikurinn var tíðindalítill fyrsta korterið á meðan liðin þreifuðu fyrir sér. Það var ekki mikið að gerast á vellinum þegar Jón Vilhelm Ákason kom Skagamönnum yfir á 16. mínútu. Garðar Gunnlaugsson fleytti útsparki Árna Snæs Ólafssonar áfram í átt að marki Fjölnis. Bergsveinn Ólafsson freistaði þess að skalla boltann aftur á markvörð sinn. Jón Vilhelm las þá ákvörðun hans, hljóp á bakvið Bergsvein, náði boltanum og lagði hann á milli fóta Þórðar Ingasonar og í markið.

 

Á 27. mínútu jafnaði Mark Magee fyrir Fjölni með laglegu skoti eftir laglega sendingu Arnórs Eyvars Ólafssonar. Það er hins vegar skammt stórra högga á milli í boltanum. Skagamenn höfðu rétt tekið miðju þegar Jón Vilhelm fékk boltann í miðjum vítateig Fjölnis eftir laglegt þríhyrningaspil við Albert Hafsteinsson og renndi honum í fjærhornið. Rétt tæp mínúta leið frá því Fjölnir jafnaði og þar til ÍA var komið aftur yfir.

Skagamenn juku forskot sitt í 3-1 á 38. mínútu. Garðar Gunnlaugsson átti þá stórkostlega aukaspyrnu sem small í samskeytunum og niður í markteiginn. Þar kom Arnar Már Guðjónsson á ferðinni, henti sér fram og skallaði boltann í markið.

 

Á lokamínútu fyrri hálfleiks minnkuðu Fjölnismenn muninn og aftur var það Mark Magee sem skoraði. Viðar Ari Jónsson átti sendingu ofan úr vinstra horninu á kollinn á Mark sem skallaði boltann í nærhornið framhjá Árna Snæ og staðan þegar flautað var til hálfleiks 3-2, Skagamönnum í vil.

 

 

Síðari hálfleikur fór rólega af stað en örlítil harka færðist í leikinn. Pétur Guðmundsson dómari hafði leyft leiknum að fljóta vel í fyrri hálfleik en í þeim síðari neyddist hann í auknum mæli til að þrýsta lofti gegnum flautuna og lyfta spjöldum.

 

Á 75. mínútu barst boltinn inn fyrir vörn Skagamanna á Aron Sigurðarson sem jafnaði með laglegu skoti úr vítateignum, vinstra megin og í fjærhornið. Leikmenn ÍA voru æfir, vildu meina að brotið hefði verið á Arnari Má í aðdragandanum en markið.

Skagamenn lágu í sókn eftir jöfnunarmarkið, Ármann Smári fór fram, var þar og ÍA ætlaði sér að vinna. Það kom hins vegar í bakið á þeim því á 81. mínútu fékk Fjölnir skyndisókn. Téður Aron Sigurðarson fékk boltann á vinstri kanti, stakk honum inn fyrir á Kennie Chopart sem lagði hann snyrtilega í fjærhornið framhjá Árna Snæ.

 

En þar með er ekki öll sagan sögð því í uppbótartíma sendi Darren Lough boltann inn í teig djúpt af vinstri kanti. Ármann Smári reis manna hæst í teignum og skallaði hann niður og fyrir markið á nýjan leik. Arsenij Buinickij reyndi skot en hitti boltann ekki svo hann skoppaði á fjærstöngina. Þangað var Garðar Gunnlaugsson mættur og jafnaði fyrir ÍA.

 

Dramatískum leik á Akranesvelli í kvöld lauk því með jafntefli þar sem liðin skiptu á milli sín átta mörkum.

Eftir leikinn eru Skagamenn sem fyrr í níunda sæti deildarinnar, nú með 18 stig eftir 17 leiki. Næst heimsækja þeir Fylki í Árbæinn sunnudaginn 30. ágúst næstkomandi.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is