Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. september. 2015 11:50

Fjölmenni mótmælti lokun grunnskólans á Hvanneyri

Um tvö hundruð íbúar í Borgarbyggð mættu á íbúafund á Hvanneyri í gærkvöldi sem sveitarstjórn boðaði til. Á dagskrá var kynning á ákvörðun sveitarstjórnar frá 11. júní í sumar þess efnis að loka Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar næsta vor. Börnin sem verið hafa þar í 1. til 5. bekk yrði þá annað hvort ekið í skóla að Kleppjárnsreykjum eða í Borgarnes. Óhætt er að segja að fyrirhuguð lokun grunnskóladeildarinnar hefur vakið hörð viðbrögð íbúa. Ásakar hluti þeirra sveitarstjórn um samráðsleysi og að hafa tekið ákvörðun um lokun Andakílsskóla án þess að fyrir lægi með óyggjandi hætti hver ávinningurinn yrði. Segja þeir að það yrði afturför um áratugi að hætta að bjóða upp á nám á öllum skólastigum á Hvanneyri, eitthvað sem gert hafi sérstöðu staðarins mikla umfram aðra þéttbýlisstaði á landinu og átt þátt í velgengni háskólans á staðnum og eflingu þorpsins. Sögðu fundarmenn að háskólaþorpið yrði vængstíft eftir lokun grunnskólans á staðnum. Fundurinn fór fram í matsal Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og var salurinn þétt skipaður.

 

 

 

Rakti ástæður og aðgerðir

Fundurinn hófst á fyrirlestri Kolfinnu Jóhannesdóttur sveitarstjóra sem tók 70 mínútur í að kynna m.a. ástæður þeirra aðgerða sem sveitarstjórn hefur ákveðið að grípa til, fór vítt yfir fjárhags- og skuldastöðu Borgarbyggðar, aðgerðir og tillögur hagræðingarhópa og kynnti ólíkar sviðsmyndir í sameiningu skóla í héraðinu. Sagði hún sveitarstjórn hafa ákveðið að einblína á aðgerðir til hagræðingar án þess að það leiddi til skerðingar þjónustu. Þær sviðsmyndir gengju misjafnlega langt, allt frá lítilli breytingu frá núverandi formi skólahalds í að fækka skólum í sveitarfélaginu í tvo, einn í Borgarnesi og annan í Borgarfirði. Það þýddi lokun tveggja af þremur deildum Grunnskóla Borgarfjarðar. Kolfinna rakti að framlegð sveitarsjóðs væri óviðunandi miðað við rekstur sveitarfélaga almennt. Þá hafi launahækkanir milli áranna 2013 og 2014 þýtt 11,2% hækkun launakostnaðar hjá sveitarfélaginu meðan tekjur jukust einungis um 6,6%. Upplýsti Kolfinna að verkefni sveitarstjórnar væri að bæta framlegð um 200 milljónir á ári. Nú væri fjárfestingageta sveitarsjóðs engin án þess að þurfa að auka skuldir. Þrátt fyrir þær hagræðingar sem sveitarstjórn hefði þegar gripið til, svo sem hækkun fasteignaskatts, vantaði 90 milljónir til að bæta afkomun. Upplýsti hún að fræðslumál tækju til sín 60% af tekjum sveitarsjóðs og að þar væri kostnaður á barn í grunnskóla nú kominn yfir 400 þúsund krónur á íbúa, á sama tíma og sá kostnaður væri t.d. um 250 þúsund á Akranesi.

Sveitarstjóri viðurkenndi í lok erindis síns að sveitarstjórn hefði mátt vinna nokkur atriði betur í aðdraganda umdeildra ákvarðana. Nefndi hún samráðsskort við íbúa, uppýsingaflæði hefði þurft að vera betra, fleiri skýrslur gerðar aðgengilegar, betra samstarf haft við stjórnendur í sveitarfélaginu og að utanaðkomandi ráðgjöf hefði þurft að koma fyrr þegar kom að hagræðingu í fræðslumálum.

 

Kolfinna kynnti þann möguleika sem sveitarstjórn vildi bjóða að í leikskólanum Andabæ á Hvanneyri yrði hægt að hýsa tvo fyrstu árganga grunnskóla, en loka Andakílsskóla. Nú væri leikskólinn ríflega hálfsetinn miðað við húsakost og hægt að koma tveimur árgöngum þar fyrir með góðu móti. Það þýddi að í blönduðum leik- og grunnskóla yrðu börn á aldrinum 18 mánaða til 8 ára. Væru íbúar tilbúnir að skoða þennan möguleika yrði auglýst staða stjórnanda í sameinuðum leik- og grunnskóla á Hvanneyri í haust. Eftir sem áður færu börn á Hvanneyri í 3. bekk og uppúr annaðhvort á Kleppjárnsreyki eða í Borgarnes.

 

Stuðla að verbúðalífi

Að loknu erindi Kolfinnu gafst íbúum kostur á að tjá skoðanir sínar og varpa fram fyrirspurnum. Mikill tilfinningahiti var í þeirra röðum og þung orð féllu í garð sveitarstjórnar. Það var skoðun sumra að búið væri að mynda gjá milli íbúa og sveitarstjórnar og að vanlíðan væri mikil, ekki síst í röðum barnafólks sem teldi að um forsendubrest væri að ræða fyrir búsetu á Hvanneyri og í nágrenni yrði grunnskóladeildinni lokað. „Traustið milli ykkar hreppsnefndarmanna og íbúa er einfaldlega ekki lengur til staðar,“ voru orð séra Geirs Waage sem var afar þungorður í garð sveitarstjórnar. Sagði hann meðal annars að engu líkara væri en sveitarstjórn vildi stofna til verbúðalífs þeirra sem ættu að starfa við vaxandi og ný ferðaþjónustufyrirtæki í Borgarfirði. Nýir starfsmenn þar veldu frekar að keyra langa leið til og frá vinnu fremur en að setjast að í héraði þar sem brestur og óvissa ríkti í skólamálum.

 

Lýsti annarri skoðun

Heimamenn á Hvanneyri og aðrir sem kváðu sér hljóðs voru flestir á einu máli um að þeir vildu viðhalda starfsstöðvum grunnskólanna eins og þær eru í dag, enda um grunnstoð samfélagsins að ræða. Með einni undantekningu þó. Einar Guðmann Örnólfsson frá Sigmundarstöðum í Þverárhlíð lýsti þeirri skoðun sinni undir lok fundar að hann væri ósammála því að fækkun skólastöðva leiddi til lakara skólastarfs. Hvatti hann þvert á móti sveitarstjórn til að fækka starfsstöðvum skólanna í Borgarfirði þannig að fjölga mætti í bekkjardeildum. Taldi hann að fámennir bekkir gætu jafnvel verið hamlandi fyrir félagslegan þroska ungmenna og útilokað væri annað en samkenna í tveimur eða fleiri bekkjum. Kvaðst hann til dæmis fylgjandi því að skólinn á Kleppjárnsreykjum yrði efldur og tæki til sín börn sem nú ganga í skóla á Varmalandi og Hvanneyri. Slíkur skóli hefði 222 nemendur eins og íbúafjöldinn væri í dag, eða að jafnaði 22,2 nemendur í árgangi.

 

Andstætt aðalskipulagi

Hart var deilt á sveitarstjórn fyrir samráðsleysi í aðdraganda ákvörðunar um lokun skólans. Fulltrúar úr Íbúasamtökum Hvanneyrar kynntu sjónarmið félagsins. Bryndís Geirsdóttir og Sólrún Halla Bjarnadóttir sögðu að búið væri að segja þeim ósatt. Þeim hafi alltaf verið sagt: „Hafið engar áhyggjur, það hefur engin ákvörðun verið tekin um lokun skóla.“ Annað hafi svo komið á daginn. Sögðu þær skýrslu sem sveitarstjórn byggði ákvörðun sína á innihalda rangar upplýsingar og úrelt gögn. Bentu þær á að með ákvörðun sinni væri sveitarstjórn að ganga gegn gildandi aðalskipulagi. Þar væri meðal annars gert ráð fyrir að íbúar á Hvanneyri yrðu 850 árið 2022. Bentu þær á að fjórða mesta fólksfjölgun á landinu væri nú í Borgarbyggð og því væri ákvörðun um fækkun skóla úr takti við þá þróun sem hafin er og sögðu að allsstaðar á landinu væru reknir grunnskólar í þorpum af svipaðri stærðargráðu og Hvanneyri. „Það er fordæmalaust að loka skólum í þéttbýli í svo miklum vexti,“ sögðu þær Bryndís og Sólrún Halla.

 

Andstætt hagsmunum LbhÍ

Björn Þorsteinsson rektor LbhÍ kvað sér hljóðs. Sagði hann hagsmunum Landbúnaðarháskólans stefnt í uppnám með ákvörðun sveitarstjórnar. Sagði hann Hvanneyringa gera kröfur um metnað og gæði en ekki undanhaldsstefnu eins og sveitarstjórn Borgarbyggðar virtist vera upptekin af. Sagði hann að með ákvörðun sveitarstjórnar yrði mun erfiðara að fá fólk á barneignaraldri til að setjast að á Hvanneyri og það rýrði möguleika á að ráða starfsfólk og nemendur. Benti Björn á að lokun grunnskólans væri óafturkræf aðgerð og varanleg stefnumörkun sem leiddi til neikvæðrar byggðaþróunar. Sagði hann sveitarstjórn ekki trúa á vöxt héraðsins og engu líkara væri en að Hvanneyri ætti ekki að dafna. Fagnaði Björn frumkvæði ungra íbúa að verja hagsmuni byggðarinnar en lýsti jafnframt áhyggjum yfir hvernig samskiptum íbúa og sveitarstjórnar hefði verið háttað.

 

Grunnskólinn var stoðin

Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri kvaðst hafa upplifað fleiri ár í skólamálum á Hvanneyri en margur annar. Sagði hann frá því hversu Hvanneyrarstaður efldist eftir að Andakílsskóli var byggður og hóf starfsemi. Það hafi tekist með trú og dyggum stuðningi Jakobs Jónssonar á Varmalæk og fleiri mætra manna. Grunnskólinn hafi þannig alltaf verið sú stoð sem þurfti til að staðurinn byggðist upp í það sem hann nú er. Sagði hann uppbyggingu í ferðaþjónustu í héraðinu einnig byggja á því að til staðar væru skólar sem gætu hýst börn þeirra sem vinna þyrftu við slík fyrirtæki.

 

Hiti í mannskapnum

Margir fleiri tóku til máls og flestir tjáðu sig með svipuðu sniði og þeir sem nefndir hafa verið hér að framan. Útilokað er í skammri yfirferð af nærri fimm tíma fundi að geta þeirra allra. Einna fastast deildu þó á störf sveitarstjórnr þau Hallgrímur Sveinsson, Bjarni Benedikt Gunnarsson, Álfheiður Sverrisdóttir og Kristbjörg Austfjörð, auk framangreindra. En Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, móðir og kennari, baðst í upphafi máls síns afsökunar á því að vera baggi á sveitarsjóði. Hún ætti jú tvö börn, annað í leikskóla en hitt að bíða eftir leikskólaplássi. Baðst hún jafnframt afsökunar á því að sem kennari hafi laun hennar verið hækkuð eftir starfsmat. Flutti Þóra Geirlaug tilfinningaþrungna ræðu og fasta ádrepu á störf sveitarstjórnar og viðurkenndi fúslega að henni væri mikið niðri fyrir. Sér fyndist troðið alvarlega á hagsmunum sínum. Uppskar hún mikið lófaklapp. Rósa Marinósdóttir á Hvanneyri var einnig harðorð í garð sveitarstjórnar. Sagði m.a. að engu líkara væri en verið væri að leggja Hvanneyri í einelti. Fyrst af hálfu ríkisins fyrir tveimur árum og nú af hálfu sveitarstjórnar Borgarbyggðar. „Segið af ykkur ef þið teljið ykkur ekki fært að reka grunnskólana,“ sagði Rósa.

 

„Stendur ekki eða fellur með grunnskóla“

Guðveig Anna Eyglóardóttir formaður fræðslunefndar Borgarbyggðar sagði í ávarpi sínu og svörum við fyrirspurnum að það væri hennar trú að tækifæri barna á Hvanneyri og nágrenni til að fá góða kennslu yrðu ekki skert með þessum breytingum sem sveitarstjórn hefði ákveðið. Vísaði hún til föðurhúsanna ávirðingum um að hún og aðrir í sveitarstjórn væru að leggja Hvanneyri í einelti. „Hvanneyrarstaður stendur ekki eða fellur með því hvort þar verður grunnskóli eða ekki,“ sagði hún.

 

Orkan fer í vörn

Ragnar Frank Kristjánsson fulltrúi VG í sveitarstjórn var eini sveitarstjórnarfulltrúinn sem kvaðst ósammála þeirri stefnu sveitarstjórnar að loka skólanum á Hvanneyri. Skoraði hann á núverandi meirihluta sveitarstjórnar til að ná sáttum við íbúa, sú ólga sem búið væri að mynda væri að skaða samfélagið meira en flest annað. „Orkan fer í vörn, en ekki í þá sókn sem ætti að vera. Hér þarf að byggja að nýju upp jákvæðan orðstýr,“ sagði Ragnar Frank.

 

Erfið fjárhagsstaða engin nýlunda

Geirlaug Jóhannsdóttir fulltrúi Samfylkingar í sveitarstjórn harmaði að lítið hafi verið gert úr varnaðarorðum síns flokks fyrir síðustu kosningar, um alvarlega fjárhagsstöðu sveitarsjóðs. Samfylking hefði þá bent á að selja mætti eignarhluta í Faxaflóahöfnum og OR og væri það enn þeirrar skoðunar að það væri farsælast til að greiða niður skuldir sveitarsjóðs. Hvatti hún til að skipuð yrði sáttanefnd íbúa og sveitarstjórnar því við núverandi trúnaðarbrest væri ekki hægt að una.

 

Á fundinum komu fram ábendingar um að e.t.v. væri hagstætt fyrir íbúa á Hvanneyri og nágrenni að skoðað yrði hvort raunhægt væri að óska eftir sameiningu við Skorradalshrepp. Þannig yrðu hreppamörk Skorradalshrepps færð niður um Andakíl að Borgarfirði. Engin formlega tillaga barst um þetta en var þó rætt enda margt sem Skorradalur og Hvanneyri hefur átt og á sameiginlegt.

 

Í lok fundar, eftir að fjórir og hálfur tími voru liðnir frá setningu hans, voru lagðar fram ályktanir sem beindust gegn sveitarstjórn. Sú fyrri gekk efnislega út á að skora á sveitarstjórn að fresta boðuðum breytingum í skólamálum í héraðinu þar til skólastefna sveitarfélagsins lægi fyrir. Var sú tillaga samþykkt samhljóða. Síðari ályktun fundarins gekk öllu lengra en þar var lýst vantrausti á störf meirihluta sveitarstjórnar og tíunduð ýmis verk hennar sem þóttu ekki hafa leitt til góðs. Var meirihluti sveitarstjórnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hvattur til að segja af sér í ljósi þess að algjör trúnaðarbrestur væri kominn upp milli sveitarstjórnar og íbúa. Sú tillaga var samþykkt, en þó með mun færri atkvæðum en sú sem skemmra gekk. Þegar þarna var komið sögu var komið fram yfir miðnætti og farið að fækka á fundinum.

 

Ályktanir lagðar fram í næstu viku

Allir sveitarstjórnarfulltrúar voru mættir á fundinn og tóku átta þeirra til máls. Svöruðu spurningum sem ýmist var beint til þeirra persónulega eða sveitarstjórnarinnar allrar. Í lok fundar upplýsti Björn Bjarki Þorsteinsson oddviti sjálstæðismanna í sveitarstjórn að ályktanir fundarins yrðu ræddar á fundi sveitarstjórnar í næstu viku. Hvorki hann, né aðrir fulltrúar úr sveitarstjórn, gáfu til kynna að ákvörðun um lokun Hvanneyrardeildar GBF yrði endurskoðuð. Hins vegar kveðst sveitarstjórn tilbúin að skoða þann kost að færa kennslu tveggja fyrstu árganga grunnskólans inn í leikskólann Andabæ á Hvanneyri. Af þeim sökum var frestað ákvörðun um ráðningu í laust starf leikskólastjóra þar í sumar.

 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða:

 

„Fundarmenn leggja til að sveitarstjórn dragi ákvörðun sína um lokun grunnskóladeildar GBF á Hvanneyri til baka. Ákvörðunin byggir á úreltum og röngum gögnum og hefur sveitarstjórn ekki tekist að sanna með óyggjandi hætti að aðgerðin sé nauðsynleg. Að auki er ákvörðunin tekin án samráðs og í andstöðu við íbúa. Fundarmenn krefjast þess að sveitarstjórn vinni eftir aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010 – 2021 og að skólastefna verði mótuð áðun en ráðist verði í svo íþyngjandi niðurskurð.“

 

Skessuhorni hefur ekki borist skriflega síðari ályktunin sem samþykkt var á fundinum. Sú gekk lengra og lýsti vantrausti á meirihluta sveitarstjórnar, eins og áður sagði.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is