Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. september. 2015 10:34

Ákvörðun sveitarstjórnar stendur óbreytt um skólahald

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær voru lagðar fram til umræðu tvær ályktanir sem samþykktar voru á íbúafundi á Hvanneyri 2. september síðastliðinn. Önnur þeirra fjallaði efnislega um að skorað var á sveitarstjórn að fresta ákvörðun um lokun Hvanneyrardeildar Grunnskóla Borgarfjarðar þar til búið væri að samþykkja nýja skólastefnu fyrir sveitarfélagið. Hin ályktunin gekk öllu lengra en í henni var lýst vantrausti á meirihluta sveitarstjórnar. Á fundi sveitarstjórnar urðu talsverðar umræður. Ragnar Frank Kristjánsson fulltrúi VG í sveitarsjórn lagði fram bókun þar sem hann leggst gegn því að grunnskólahald verði aflagt á Hvanneyri. Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti hins vegar á fundinum að halda sig við fyrri ákvörðun sína. Hún gengur út á að loka Hvanneyrardeild GBF en færa kennslu 1.-2. bekkjar grunnskólabarna yfir í leikskólann Andabæ. Staða skólastjóra Andabæjar verður auglýst. Þannig yrði Andabær blandaður leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum 18 mánaða til átta ára frá og með haustinu 2016. Eldri börnum frá Hvanneyri og nágrenni verður ekið í grunnskóla í Borgarnes eða á Kleppjárnsreyki og fá foreldrar val um hvorn kostinn þeir taka. Með þessum breytingum telur sveitarstjórn sig geta sparað 35-40 milljónir króna á ári.

 

 

Að sögn Björns Bjarka Þorsteinsson forseta sveitarstjórnar verður nú haldið áfram af hálfu sveitarfélagsins og embættismanna þess að ná samtali við skólasamfélagið í kringum Hvanneyrardeildina. „Ákvörðun sveitarstjórnar stendur en hana teljum við byggja á faglegum og fjárhagslegum rökum,“ segir hann. „Á fundinum í gær var rætt um vinnuplagg það sem fræðslunefnd samþykkti fyrr í vikunni varðandi undirbúning að gerð skólastefnu. Vonandi náum við við gerð skólastefnunnar góðu samtali við samfélagið allt og stefnum ótrauð á að ljúka gerð hennar í byrjun næsta árs.“ Björn Bjarki segir að talsvert sé af fólki bæði á Hvanneyri og í nágrenni sem er ekki á sömu skoðun og sá hópur sem talað hefur ákveðnast gegn lokun Hvanneyrardeildar GBF. „Það er talsvert af fólki tilbúið að taka þetta samtal við okkur, en hefur ekki viljað beita sér í umræðunni sökum þess hve tilfinningarík hún hefur verið. Þetta fólk sér kosti þess að börnum sé kennt í stærri bekkjardeildum og fjölmennari skólum og um leið dregið úr þörf á samkennslu fleiri árganga. Þar við bætast þau rök að ekki er fullnægjandi aðstaða til kennslu íþrótta og sunds á Hvanneyri. Ég vona að við náum þeim áfanga að við getum farið að undirbúa jarðveginn fyrir öfluga skólastofnun á Hvanneyri sem og annarsstaðar í Borgarbyggð,“ sagði Björn Bjarki í samtali við Skessuhorn.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is