Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
02. október. 2015 12:30

Gerðist sumarstarfsmaður á tjaldsvæðinu á Patreksfirði

Í maímánuði birtist svartur og hvítur fressköttur á tjaldsvæðinu á Patreksfirði. Hann kom þangað fyrstur gesta, tveimur dögum eftir að tjaldsvæðið var opnað. Michael Wulfken umsjónaraðili tjaldsvæðisins hélt fyrst um sinn að um væri að ræða kött úr nágrenninu en fljótlega kom í ljós að svo var ekki. Kötturinn fékk þá athvarf á tjaldsvæðinu og Michael gaf honum reglulega að éta. Kettinum var gefið nafnið Tjaldur Palomino og varði hann öllu sumrinu á tjaldsvæðinu á Patreksfirði, fjarri sínum heimahögum. Bergrún Halldórsdóttir var ein þeirra sem hugsaði um hann fyrir vestan. „Hann settist bara að á tjaldsvæðinu og hafði aðstöðu inni. Það veit enginn hvernig hann komst hingað en hann hefur að öllum líkindum fengið sér far með einhverjum bíl. Það hafði enginn tjaldað á þeim tíma sem hann kom, þannig að hann var ekki laumufarþegi í ferðavagni,“ segir Bergrún í samtali við Skessuhorn.

Fór á Lionsfund

„Ferðamenn höfðu mjög gaman að honum. Hann hélt til þar sem eldunaraðstaðan er og svaf þar. Þar var opinn gluggi og hann var því frjáls ferða sinna og heimsótti stundum fólk í tjöldin. Svo labbaði hann hringinn með staðarhaldara og rukkaði með honum. Þetta er alveg sérstakur köttur,“ segir Bergrún. Kisi hafði það gott á Patreksfirði í sumar. Það kom fyrir að heppnin var með honum og hann fékk að bragða á góðgæti hjá ferðafólki,svo sem grilluðum laxi. Hann náði líka að skella sér á fund með Lionsklúbbi Patreksfjarðar. „Hann hefur líklega séð gestagang í Félagsheimilinu og ákveðið að blanda geði við meðlimi Lions áður en hann fór heim,“ segir Bergrún. Auglýst var eftir eigendum Tjalds Palomino reglulega í sumar, en án árangurs. Þegar sumri tók að halla auglýsti Bergrún á ný eftir eigandanum. „Við settum auglýsingu inn á Kattholt og þar sá eigandinn mynd af honum og hringdi strax í mig.“ Kötturinn reyndist vera frá Hellissandi og heitir í raun Þristur. Síðastliðinn sunnudag fékk Þristur far heim með Baldri og hitti eigendur sína í Stykkishólmi. „Hann þekkti þau strax, reis upp um leið og hann heyrði í þeim,“ segir Bergrún.

 

Hrifinn af tjaldsvæðum

Ásdís Þórðardóttir Ben er eigandi Þrists. Hún segir hann mikinn útivistarkött, þó hann hafi ekki týnst áður. „Hann á það til að rápa mikið og á sumrin kemur það fyrir að hann birtist ekki í nokkra daga í senn. Hann þvælist oft mikið upp í fjárhúsahverfi, í Krossavík og upp á tjaldsvæði á sumrin. Við höfum oft fíflast með að hann sé að vinna þar á sumrin,“ segir Ásdís og hlær. Spurning er hvort ævintýraþráin hafi blundað lengi í Þristi en honum tókst að laumast inn í fellihýsi á Hellissandi í fyrra. Eigandinn heyrði svo mjálm, opnaði fellihýsið og út stökk Þristur. „Það kom engum á óvart, hann er sjálfboðaliði á tjaldsvæðinu,“ bætir Ásdís við.

 

Var fúll að koma heim

Þristur var vel haldinn þegar hann kom heim. Hann hafði bætt aðeins á sig í útilegunni, svona eins og gengur. Það voru miklir fagnaðarfundir þegar Þristur skilaði sér heim eftir fjögurra mánaða fjarveru. Allir voru kátir - nema Þristur sjálfur. „Hann var eiginlega skítfúll þegar hann kom heim um síðustu helgi. Það var vel tekið á móti honum en hann fékk sér bara smá rjóma og fór beint út. Hann er nú farinn að jafna sig aðeins, hann fékk sér góðan morgunverð með rjóma í morgun og er nú að leggja sig. Hann er búinn að það svo gott á Patreksfirði í sumar, kannski vildi hann ekkert koma heim,“ segir Ásdís hlæjandi. Hún segir Þrist ekki vera félagslyndan og hann er ekki hrifinn af læðunum á heimilinu. Hann er einfari sem er mikið úti, nema þegar veðrið er vont. „Ég hélt að hann væri dáinn en hafði samt einhvern veginn á tilfinningunni að hann hefði kannski bara farið. Við vorum búin að labba um allt og leita af honum og ég fylgdist reglulega með Kattholtssíðunni. Nú látum við örmerkja hann og ég læt hann vera með ól, þó hann sé ekki hrifinn af því.“

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is