Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
08. október. 2015 07:07

Aðstoðarskólameistara FVA sagt upp störfum

Hafliða Páli Guðjónssyni aðstoðarskólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi hefur verið sagt upp störfum. Hann var ráðinn aðstoðarskólameistari í vor og hóf störf sem slíkur við skólann 1. ágúst síðastliðinn. Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara og honum til aðstoðar við daglega stjórn skólans og rekstur. Í löngu frímínútum fjölbrautaskólans á föstudaginn í síðustu viku kvaddi Hafliði sér hljóðs á kennarastofunni og tilkynnti að honum hefði verið sagt upp á mánudeginum. Hann lýsti því þar sem svo að hann hefði verið boðaður á fund Ágústu Elínu Ingþórsdóttur skólameistara á skrifstofu hennar þennan dag. Þar var hún þá stödd ásamt sérlegum ráðgjafa og Hafliði fékk í hendur skriflega uppsögn. Síðdegis í dag var Hafliða svo gert að skila lyklum að byggingu skólans og yfirgefa hana. Í kjölfarið mun skólameistari hafa lesið upp skriflega yfirlýsingu á fundi með öðru starfsfólki skólans og rætt við það í framhaldinu. Mikil spenna er í röðum starfsfólks skólans út af stjórnun hans. Tveir starfsmenn sem Skessuhorn hefur rætt við í kvöld staðfesta það.

 

Skessuhorn hafði síðastliðinn mánudag samband bæði við Hafliða Guðjónsson og Ágústu Elínu vegna málsins. Hvorugt vildi þá tjá sig um málið.

 

 

Spenna meðal starfsmanna

Reynir Þór Eyvindsson formaður skólanefndar staðfesti í samtali við Skessuhorn fyrr í vikunni að honum hafi verið tilkynnt um uppsögn Hafliða. „Ég fékk að vita þessa uppsögn nú á föstudaginn í liðinni viku. Ágústa skólameistari hafði samband við mig og tilkynnti mér um þetta. Ég vissi ekkert um málið fyrr en hún hafði samband og upplýsti mig um það,“ segir Reynir.

 

Samkvæmt heimildum Skessuhorns þá hefur málið valdið töluverðri ólgu og mun loft vera lævi blandað meðal kennara innan veggja skólans. Ágústa Elín tók við stöðu skólameistara um síðustu áramót og þykir hafa umdeildan stjórnunarstíl. Það olli uppnámi og andmælum þegar sjö ræstingarkonum fjölbrautaskólans var sagt upp störfum snemma á liðnu vori. Margar þeirra höfðu að baki áratuga þjónustu við skólann. Það var gert að sögn skólameistara vegna þess að nauðsyn bæri til að taka á uppsöfnuðum rekstrarvanda skólans. Reynir Þór formaður skólanefndar segir að nefndarfólk hafi um skeið haft áhyggjur af því hvernig skólanum sé stjórnað undir hinum nýja skólameistara. „Þarna eiga sér stað stjórnunarhættir sem hafa ekki verið fallnir til vinsælda. Við sem skipum stjórnina erum reyndar aðeins fyrir utan þetta þar sem starfsmannamálin liggja utan okkar valdsviðs en starfsandinn á vinnustaðnum virðist ekki vera góður.“

 

Ekki gert í samráði við skólanefnd

Reynir segir að starfsmannamálin hafi lítt eða ekki komið inn á borð skólanefndar. „Ráðningin á Hafliða Guðjónssyni í starf aðstoðarskólameistara nú í vor var til að mynda ekki borin undir okkur í skólanefndinni, en fyrrverandi skólameistarar hafa svo sem ekki borið ráðningar í þá stöðu undir nefndina til þessa. Hið sama gildur um uppsagnir á ræstingarkonum skólans nú í sumarbyrjun. Þar stóðum við í stjórninni frammi fyrir orðnum hlut þegar uppsagnirnar voru orðnar staðreynd. Ágústa skólameistari hafði reyndar samband við mig rétt áður en hún gekk til þess að segja konunum upp til að segja mér hvað hún hygðist gera. Ég var á móti þeim uppsögnum og bað hana um að ganga ekki til þess verks en allt kom fyrir ekki.“ Aðspurður segir Reynir að skólanefnd hyggist funda um málefni skólans og þá stöðu sem nú er komin upp, síðar í þessari viku.

 

Það skal áréttað að Ágústa Elín skólameistari vill ekki tjá sig við Skessuhorn um starfsmannamál skólans og það ástand sem þar ríkir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is