Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. október. 2015 11:14

Gamall skuldabaggi LbhÍ við ríkissjóð er enn ógreiddur

Ríkisendurskoðun birti síðastliðinn miðvikudag skýrslu um uppsafnaðan rekstrarhalla Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar segir að vandinn hafi aukist um 37% milli áranna 2011 og 2014. „Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að tryggja að rekstur skólans rúmist innan fjárheimilda. Þá þarf að finna varanlega lausn á skuld skólans við ríkissjóð en hún nam 630 milljónum króna í árslok 2014,“ segir í skýrslunni. Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um rekstrarvanda og erfiða fjárhagsstöðu Landbúnaðarháskóla Íslands. Uppsafnaður rekstrarhalli skólans þá nam þá um 317 milljónum króna og skuld hans við ríkissjóð um 694 milljónum króna. Í skýrslunni benti Ríkisendurskoðun á að um væri að ræða fjármuni sem Alþingi hefði aldrei samþykkt að verja til skólans. Stofnunin hvatti bæði mennta- og menningarmálaráðuneytið og skólann til að grípa til aðgerða til að vinna bug á þessum vanda. Tryggja yrði að rekstur skólans rúmaðist innan fjárheimilda. Þá hvatti Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að finna varanlega lausn á skuld skólans við ríkissjóð.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að undanfarin ár hefur fjárhagsstaða skólans enn versnað þrátt fyrir viðleitni stjórnenda hans til að taka á vandanum. Þannig stóð uppsafnaður halli í um 433 milljónum króna í árslok 2014. Aftur á móti hefur skuld skólans við ríkissjóð minnkað lítillega en stóð þó í 630 milljónum króna í árslok 2014. Því ítrekar Ríkisendurskoðun framangreind hvatningarorð (ábendingar) til ráðuneytisins og Landbúnaðarháskólans.

Framlög ekki fylgt verðlagsþróun

Í kjölfar birtingu skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur Björn Þorsteinsson rektor LbhÍ bruðist við og sent fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem hann vill árétta nokkur atriði. „Stjórnendur LbhÍ hafa gripið til margháttaðra ráðstafana til þess að koma rekstri skólans inn fyrir ramma fjárheimilda. Telja verður að náðst hafi góður árangur í þeim efnum. Samkvæmt bókhaldi skólans skila fyrstu átta mánuðir yfirstandandi árs afgangi miðað við samþykkta fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir 20 m.kr. endurgreiðslu upp í skuld skólans við ríkisjóð.“

 

Þá segir Björn að hluta undirliggjandi vanda skólans og þróun fjárveitinga til hans megi rekja til þess að árið 2008, þegar skólinn var fluttur úr umsjá landbúnaðarráðuneytis til menntamálaráðuneytis, var ríkisframlagi til rekstrar hans deilt upp milli þessara tveggja ráðuneyta þar sem hið síðarnefnda þótti ekki hafa nægilega reynslu eða þekkingu á málefnum landbúnaðar. „Sá alvarlegi hængur var hins vegar á þessari ráðstöfun að framlögin sem tengd voru landbúnaðarráðuneytinu – síðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti breyttust ekki í takti við verðlagsþróun eins og framlag menntamálaráðuneytis, þótt að í báðum tilvikum séu framlögin nýtt til að reka innviði og greiða laun fastra starfsmanna. Framlag menntamálaráðuneytisins til skólans var árið 2008 um 724 m.kr. á núvirði en á fjárlögum 2015 er fastaframlagið um 649 m.kr. sem er rúmlega 10% samdráttur. Framlag Landbúnaðarráðuneytisins var árið 2008 um 237 m.kr. á núvirði en á fjárlögum 2015 er fastaframlagið hins vegar í raun 151 m.kr. sem jafngildir 36% samdrætti.“

 

Mótast af tilviljanakenndri rýrnun krónunnar

Björn Þorsteinsson segir fagnaðarefni að sá árangur hafi náðst í núverandi fjárlagafrumvarpi fyrir 2016 að nú fyrst síðan 2008 sé gert ráð fyrir að framlag atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verði verðbætt. „Það breytir þó ekki því að á þessum árum, sem liðið hafa óverðbætt, hefur framlagið 2015 rýrnað sem svarar um 70 m.kr. á núvirði. Það er ekki ásættanlegt að fjármögnun stofnunar af hálfu Alþingis sé látin mótast af tilviljanakenndri rýrnun krónunnar og hækkandi kauplagi. Stjórnendur LbhÍ hafa ekki verið upplýstir um að þessi þróun sé hluti af yfirlýstri eða meðvitaðri stefnu Alþingis og að fjárveitingar til Landbúnaðarháskóla Íslands eigi að skera niður umfram aðra háskóla í landinu. Því er eðlilegt að því sé beint til Alþingis að framlag atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verði uppfært miðað við verðmæti framlagsins árið 2008.“

 

Björn vísar einnig í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2012 en þar sagði orðrétt að: “Ef framlög til LbhÍ hefðu fylgt meðaltalshækkun íslenskra háskóla þá væri enginn rekstrarhalli á skólanum til staðar”.

 

Niðurskurður er faglega dýru verði keyptur

„Viðleitni stjórnenda LbhÍ til að ná tökum á rekstri stofnunarinnar við síminnkandi rekstrarframlög hefur verið faglega dýru verði keypt. Haustið 2008 voru starfsmenn 134 en eru nú 81 og hefur þeim því fækkað um 40%. Þetta þýðir að margar lykilstöður í fagdeildum og á stoðsviði eru nú ómannaðar. Þessi staða hefur hvergi verið sett fram sem hluti af markmiðum stjórnvalda í þróun þekkingarsköpunar og kennslu á verndun og nýtingu auðlinda á landi hérlendis,“ segir Björn Þorsteinsson rektor LbhÍ.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is