Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. október. 2015 06:01

Andlát – Óli Jón Ólason ferðamálafrömuður

Óli Jón Ólason ferðamálafrömuður er látinn, 82 ára að aldri. Óli Jón fæddist í Reykjavík 17. október 1933. Foreldrar hans voru Arnlín Petrea Árnadóttir (Adda), f. 1905 í Gerðakoti á Miðnesi, d. 1985 og og Óli Jón Ólason, stórkaupmaðurfrá Stakkhamri í Miklaholtshreppi, f. 1901, d. 1974. Systkini Óla voru þrjú; Elínborg 1928-1996, Elín f. 1932 og Gunnar Árni f. 1941. Óli Jón ólst upp í Laugarásnum í Reykjavík. Sem ungur drengur var hann í sveit í Mávahlíð á sumrin hjá Ágústi föðurbróðir sínum. Hann gekki í Gagnfræðaskóla Austurbæjar en lauk verslunarskólaprófi frá Verslunarskóla Íslands. Óli giftist árið 1953 Steinunni Þorsteinsdóttur og saman eignuðust þau sex börn. Þau settust að í Skíðaskálanum í Hverdölum árið 1959 og ráku þar gisti- og veitingaþjónustu í tíu ár. Þaðan lá leiðin á Akranes og ráku þau hjónin Hótel Akranes í fimm ár, eða þar til leiðir þeirra skildu. Óli vann framan af við sölumennsku og verslunarstörf. Árið 1959 hóf hann eins og fyrr segir hótel- og veitingarekstur og þar með var brautin rudd. Ferðamálin áttu eftir það hug hans allan og hann vann við ferðaþjónustu nær alla tíð síðan.

 

 

Þegar upplýsingamiðstöð ferðamála var stofnsett í Reykjavík var Óli Jón einn af fyrstu starfsmönnum hennar. Hann gekkst fyrir stofnun Ferðamálasamtaka á Vesturlandi og Suðurlandi og var fyrsti ferðamálafulltrúi þessara landshluta og starfaði við það um nokkurt skeið. Á þeim tíma ritaði hann mjög framsækna skýrslu um framtíðaruppbyggingu ferðamála á Vesturlandi. Þar komu fram hugmyndir sem löngu síðar áttu eftir að verða að veruleika, svo sem að stofna Snorrastofu í Reykholti og Stríðsminjasafn í Hvalfirði auk þess sem hvalstöðin þar yrði miðpunktur sýningar um hvali og hvalveiðar Íslendinga. Óli Jón var einn af stofnendum Sambands veitinga- og gistihúseigenda (SVG) sem er einn af forverum SAF (Samtaka aðila í ferðaþjónustu) og sat þar í stjórn um árabil.

 

Árið 1979 hóf Óli Jón aftur hótel- og veitingarekstur. Hann flutti þá ásamt Huldu Jónsdóttur, þáverandi sambýliskonu sinni, að Laugum í Sælingsdal, og saman ráku þau sumarhótel í nokkur ár. Jafnframt sáu þau um mötuneyti skólans og stunduðu kennslu á vetrum. Þeirra leiðir skildu.

 

Árið 1990 kynnist Óli Jón eftirlifandi eiginkonu sinni, Steinunni Hansdóttur. Tóku þau að sér rekstur gistihúss að Miklubraut 1 í Reykjavík og síðan gistiskála í Ármúla í Reykjavík. Síðar keyptu þau rekstur héraðsfréttablaðsins Fjarðarpóstsins í Hafnarfirði og bættu svo um betur og stofnuðu Kópavogspóstinn. Árið 1997 tóku þau Óli Jón og Steinunn við hluta mannvirkja gamla Héraðsskólans í Reykholti og byggðu þar upp glæsilegt heilsárshótel í mötuneytis- og heimavistarálmum skólans. Yfir þeirri uppbyggingu var reisn og framsýni. Árið 2004 fluttu þau hjón í Grundarfjörð og enn var lagður grunnur að betri þjónustu við ferðamenn. Þau stofnuðu ferðaskrifstofuna Þemaferðir, ásamt dóttur og tengdasyni, og ráku ferðamannaverslunina Tourist Market í sex ár.

 

Óli Jón hélt að eigin frumkvæði leiðsögunámskeið fyrir heimafólk og sá til þess að farþegar skemmtiferðarskipa fengju bestu mögulegu upplýsingar um Snæfellsnesið sem hann unni svo mjög. Og jafnframt flutti hann þessa vinnu heim í hérað. Hann átti mikið og farsælt samstarf með Ferðaskrifstofunni Atlantik og hópferðabílafyrirtækinu Sterna um að útvega heimafólk til að leiðsegja erlendum ferðamönnum um allt Snæfellsnesið.

 

Óli var mikill athafnamaður og frumkvöðull á ýmsum sviðum, hvort sem það voru íþróttir, stjórnmál, land eða þjóð. Hann var m.a. formaður Félags eldri borgara í Grundarfjarðarbæ og gaf út 20 ára afmælisrit félagsins. Hann var Lionsfélagi, bæði í Hveragerði og í Búðardal, og hann skrifaði fjölmargar greinar um ferðamál í fjölmiðla.

Óli Jón Ólason fékk ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín að ferðamálum. Nefna má hér að hann var fyrsti handhafi verðlauna Skessuhorns, sem veitt hafa verið æ síðan, var kosinn Vestlendingur ársins 1998. Þá var Óli Jón, ásamt Kristleifi Þorsteinssyni á Húsafelli, sérstaklega heiðraður á 20 ára afmæli Ferðamálasamtaka Vesturlands fyrir frumkvöðlastörf að ferðamálum. Það átti vel við því Óli Jón hefur á ýmsan hátt rudd brautina í ferðaþjónustu á Vesturlandi og eins og sjá má á æviágripi hans hér að ofan hefur hann komið við í ferðaþjónustu á öllum svæðum Vesturlands, á Akranesi, í Dölum, Borgarfirði og nú síðast á Snæfellsnesi þar sem rætur hans lágu.

 

Útför Óla Jóns Ólasonar verður gerð frá Áskirkju miðvikudaginn 14. október klukkan 13. Sérstök afmælis- og kveðjustund verður síðan haldin í Grundarfirði á afmælisdegi Óla, laugardaginn 17. október klukkan 14.

 

Börn Óla Jóns og Steinunnar eru alls átta. Óli var alltaf mikill pabbi, afi og langafi allra í stórfjölskyldunni sinni. Hann fylgdist grannt með öllu því sem var að gerast í lífi þeirra. Afa- og langafabörnin eru orðin 37. Fyrir hönd Skessuhorns vil ég þakka Óla Jóni Ólasyni fyrir samfylgdina og mikla ræktarsemi í garð okkar fjölmiðils. Óli Jón skildi af eigin raun úr störfum sínum hversu mikilvægt það var að héruð þessa lands eigi öfluga fjölmiðla til að hægt sé að miðla upplýsingum um hvaðeina sem fólk er að fást við í leik og starfi. Mikill höfðingi og frumkvöðull er fallinn frá. Sendi ég Steinunni og stórfjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. Vesturland allt hefur misst góðan vin.

 

Magnús Magnússon.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is