Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
13. október. 2015 10:01

Kvikmyndahátíðin Northern Wave haldin í Grundarfirði í áttunda sinn

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í Grundarfirði um næstu helgi. Á hátíðinni verða sýndar tæplega 50 stuttmyndir, bæði íslenskar og alþjóðlegar auk 22 íslenskra tónlistarmyndbanda. Hátíðin verður með stærra sniði í ár en verið hefur. Áður en hún hefst munu tæplega þrjátíu kvikmyndagerðarmenn koma til Grundarfjarðar til að vera viðstaddir vinnusmiðju í boði Wift (Women in film and television). „Vinnusmiðjan kallast Surviving the rabbit hole en þar fá nemendur fræðslu í formi fyrirlestra og ráðgjöf fyrir komandi verkefni. Við stefnum að því að gera meira af þessu, að stækka hátíðina á þennan veg,“ segir Dögg Mósesdóttir leikstjóri og Grundfirðingur. Þetta er í áttunda sinn sem kvikmyndahátíðin er haldin í Grundarfirði og hefur Dögg stýrt henni frá upphafi.

 

 

 

Heimilisleg kvikmyndahátíð

Að sögn Daggar er dagskrá hátíðarinnar mótuð eftir því hvernig myndir eru sendar inn í hvert skipti. „Þannig að við erum með nokkur þemu í gangi núna. Við verðum til dæmis með norrænar stuttmyndir og stuttmyndir þar sem leikstjórarnir eru viðstaddir. Svo erum við með nokkrar myndir sem sýna Ísland með augum útlendinga og aðrar sem Íslendingar hafa gert erlendis. Þannig að við erum svolítið að einblína á sjónarhornið í ár, hvað mótar sýnina sem myndin gefur,“ útskýrir Dögg. Hún segir aðsóknina á hátíðina jafnan vera góða. „Þetta er nokkuð föst tala, um 150 manns sem koma á hverju ári. Nú hefur gistirými í Grundarfirði aukist þannig að það ætti að vera nóg pláss fyrir alla. Það er þó ekki okkar markmið að sprengja Grundarfjörð, heldur viljum við halda hátíðinni þannig að hún sé hæfilega lítil. Það er okkar einkenni, að fólk geti kynnst hvert öðru og að hún hafi heimilislegt yfirbragð,“ segir hún og bætir því við að hátíðin sé opin öllum.

 

Nóg um að vera

Að venju fer hátíðin að mestu fram í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Þar verða sýndar fjölmargar alþjóðlegar stuttmyndir bæði á föstudag og laugardag. „Á föstudagskvöldið verða íslensk tónlistarmyndbönd sýnd á veitingastaðnum Rúben og áhorfendur kjósa þar um besta tónlistarmyndbandið. Í kjölfarið stígur Sesar A á stokk og opnar fyrir karaókí sem mun standa fram á nótt,“ segir Dögg. „Á laugardeginum verða áfram sýndar alþjóðlegar myndir. Auk þess mun Baldvin Z kvikmyndaleikstjóri leiða áhorfendur í gegnum reynslu sína af kvikmyndagerð, sýnd verða brot úr verkum hans, svo sem Óróa og Vonarstræti og gerð myndanna rædd,“ heldur hún áfram. Á sunnudeginum verða sýndar íslenskar stuttmyndir ásamt því að verðlaunaafhending hátíðarinnar fer fram. Árlega fá aðstandendur þeirra mynda sem dómnefnd velur peningaverðlaun og verða veitt þrenn verðlaun í ár; fyrir bestu íslensku stuttmyndina, besta tónlistarmyndbandið og bestu alþjóðlegu stuttmyndina. „Í dómnefndinni í ár eru Baldvin Z, Ísold Uggadóttir kvikmyndagerðarkona og Iris Brey sem er franskur kvikmynda- og sjónvarpsþáttagagnrýnandi. Það er gott fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn að fá tækifæri til að sýna henni verk sín, enda velur hún myndir sem sýndar eru í gagnrýnendavikunni á kvikmyndahátíðinni í Cannes,“ segir Dögg.

 

Keppt um besta fiskréttinn

Að kvöldi laugardagsins verður hin sívinsæla fiskréttakeppni haldin, en hún er jafnframt lokahóf menningarhátíðarinnar Rökkurdaga. Þar verður keppt um besta fiskréttinn, sem allir eru gerðir úr grundfirsku hráefni. Í veislunni verður lifandi tónlist, þar sem listamaðurinn Frímann Kjerúlf ætlar að spila á svokallað ljósleiðaratæki í takt við tónlistina. „Þetta verk var eitt af opnunaratriðum Vetrarhátíðar í Reykjavík og framkallar ótrúlegt sjónarspil. Eftir fiskiveisluna verður svo dansleikur með hljómsveitinni MilkyWhale á Rúben,“ segir Dögg. Þrenn verðlaun verða veitt í fiskiréttakeppninni; 40 þúsund króna peningaverðlaun, dekurgjafabréf fyrir tvo í deluxe herbergi á Hótel Búðum ásamt fimm rétta kvöldverði og gjafabréf fyrir tvo í níu rétta kvöldverð á annað hvort Fisk- eða Grillmarkaðnum. Það eru Hrefna Rósa Sætran og Jon Favio Munoz Bang yfirkokkur Hótel Búða sem sitja í dómnefnd.

 

Heimasíða Northern Wave hátíðarinnar er http://www.northernwavefestival.com/  Þar er hægt að skrá þátttöku í fiskréttakeppnina og þar má einnig fá frekari upplýsingar um þær stuttmyndir sem sýndar verða á stuttmyndahátíðinni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is