Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. október. 2015 09:53

Íbúafundur á Akranesi í kvöld um framtíð Sementsreits

„Tækifæri og framtíðaruppbygging á Sementsreitnum,“ er yfirskrift opins kynningarfundar sem fram fer á Akranesi í kvöld um skipulagsmál reitsins. Fundurinn verður um tækifæri og framtíðaruppbyggingu á svokölluðum Sementsreit á Akranesi. Sementsreiturinn er í hjarta bæjarins en svæðið er um átta hektarar að stærð, eða 80 þúsund fermetrar, og á því eru fjölmargar byggingar sem áður tilheyrðu Sementsverksmiðjunni sem lokað hefur verið lokað. Akraneskaupstaður eignaðist reitinn í lok árs 2013 þegar þríhliða samkomulag var gert á milli Akraneskaupstaðar, Sementsverksmiðjunnar ehf. og Arion banka. Í kjölfarið var haldinn fjölmennur íbúafundur um málið þar sem kynntar voru ýmsar hugmyndir um nýtingu á reitnum. Skilaboð frá íbúum voru þá að bæjaryfirvöld ættu að flýta sér hægt með skipulag á reitnum.

 

Starfshópur sem skipaður var í lok árs 2014 hefur fengið í hendurnar tillögur að rammaskipulagi frá þremur arkitektastofum; Kanon, Ask og Landmótun og er fundurinn í kvöld ætlaður til að kynna íbúum og öðrum hagsmunaaðilum tillögurnar og leita eftir viðhorfi bæjarbúa áður en næstu skref verða tekin, þ.e. gerð deiliskipulags, framkvæmda- og niðurrifsáætlun. Fundurinn hefst klukkan 17:30 og verður í Tónbergi, sal Tónlistarskólans við Dalbraut. Áætlað er að hann standi til klukkan 20:30. Boðið verður upp á léttan kvöldverð. 

Hér að neðan er viðtal sem birtist í Skessuhorni í síðustu viku við Rakel Óskarsdóttir, formann starfshóps um framtíð Sementsreitsins.

 

 

Framtíð Sementsverksmiðjureitsins fljótlega ráðin

 

Grunnur að framtíð Sementsverksmiðjureitsins á Akranesi verður ráðinn á næstu misserum. Starfshópur sem skipaður var um framtíð reitsins hefur nú fengið í hendurnar tillögur að rammaskipulagi frá þremur arkitektastofum og eru næstu skref að funda með íbúum bæjarins um málið, áður en framkvæmda- og niðurrifsáætlun verður gerð. Rakel Óskarsdóttir bæjarfulltrúi og formaður starfshópsins fór yfir stöðuna með blaðamanni Skessuhorns.

 

„Flýtið ykkur hægt“

„Þetta ferli hófst á íbúafundi sem haldinn var í janúar 2014. Þá hafði Kanon arkitektastofa verið fengin til að opna huga fólks fyrir því hvernig Sementsreiturinn gæti verið. Að því loknu voru skipaðir vinnuhópar úr röðum fundargesta sem fengu tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sínum um reitinn,“ segir Rakel. Í lok árs 2014 var starfshópurinn formlega settur á laggirnar. Hópurinn er skipaður Rakel, Dagnýju Jónsdóttur og Bjarnheiði Hallsdóttur og vinna þær náið með Sigurði Páli Harðarsyni sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs og Hildi Bjarnadóttur skipulags- og byggingarfulltrúa. „Hópurinn vann svo úr þeim mörgu upplýsingum sem komu fram á íbúafundinum, en það sem stóð uppúr voru skilaboðin „flýtið ykkur hægt“ og það erum við að gera.“ Vinna hópsins hefur því verið kortlögð eftir þeim hugmyndum og erindisbréfi starfshópsins þar sem meðal annars koma fram forsendur, markmið og hlutverk hans.

 

Tillögurnar verða að rammaskipulagi

Í byrjun sumars fékk hópurinn þrjár teiknistofur til að koma með tillögur að rammaskipulagi. „Við leituðum til ASK arkitekta, Landmótunar og Kanon arkitekta og fengum þá til að koma með hugmyndir að svæðinu eftir þeim forskriftum sem við höfðum. Við vildum fá tvær tillögur frá hvorri stofu, annars vegar þar sem allt hefur verið rifið og hins vegar tillögur þar sem haldið yrði í einhverjar sögulegar minjar,“ útskýrir Rakel. Hún segir að sá misskilningur hafi komið upp að þessi vinna væri nákvæm endurtekning á því sem gert var í fyrra, þegar hugmyndir Kanon arkitekta voru sýndar á íbúafundinum. „Þær myndir voru bara til að sýna fólki að reiturinn gæti orðið eitthvað annað en hann er í dag. En þessar tillögur sem um ræðir núna verða að rammaskipulagi, sem verður svo grunnur að deiliskipulagsvinnu. Þarna er verið að ramma inn svæðið og ákveða hvað við viljum sjá á þessum reit.“

 

Hár niðurrifskostnaður

Rakel segir stofurnar ekki vera í samkeppni hvor við aðra, frekar mætti kalla það samvinnu. „Það er ekki algengt að arkitektastofur vinni með þessum hætti en sjónarmið þeirra var að þau gátu ekki sleppt þessu tækifæri, þar sem það er svo spennandi og í raun mjög einstakt. Þarna er mikið útsýni til suðurs, baðströndin og líf í höfninni,“ segir hún. Rakel segi að starfshópnum gefist svo tækifæri til að velja það besta úr öllum tillögunum. „Gulrótin fyrir stofurnar gæti svo verið að fá áframhaldandi starf. Við erum gríðarlega ánægð með þá vinnu sem stofurnar hafa lagt í og það er augljóst að þær hafa vandað mjög til verksins. Við reynum svo, í samvinnu við íbúa á Akranesi, að finna stjörnurnar í hverri teikningu fyrir sig,“ heldur hún áfram.

 

Í miðju ferlinu lét Akraneskaupstaður vinna ástandsskoðun mannvirkja á Sementsverksmiðjureitnum. „Þá kom í ljós að sumt er í betra lagi en annað, en sumt er hreinlega ónýtt. Hugmyndir arkitektanna byggja meðal annars á þeirri úttekt og á því sem þeir sjá einstakt við svæðið.“ Rakel segir að í ástandsskoðuninni hafi verið gerð áætlun um niðurrifskostnað. Þar kemur fram að það muni kosta hundruð milljóna að rífa verksmiðjuna niður. „Þannig að það má að hluta til segja þetta hafi verið hálfgerð grýlugjöf á sínum tíma. En það er hins vegar alveg ljóst að það var vilji Akraneskaupstaðar að svæðið væri í eigu bæjarins, hinn kosturinn var gjaldþrot Sementsverksmiðjunnar og svæðið hefði þá verið í gíslingu fjármálastofnana í ár eða jafnvel áratugi. Í dag eru gerðir þannig samningar við framkvæmdaaðila að ef þeir hætta starfsemi, þá skilji þeir við landið eins og þeir tóku við því. En það var víst ekki inn í myndinni þegar þessi verksmiðja var byggð,“ segir Rakel. Hún bætir því við að Akraneskaupstaður hafi verið í viðræðum við ríkið vegna þessa. „Ríkið á til dæmis hluta af húsnæðinu við Mánabraut 20 og erum við að vinna í því að koma þeirri eign alfarið í eigu Akraneskaupstaðar. En það er alveg ljóst að það er nauðsynlegt að fá ríkið að þessari vinnu með einhverjum hætti.“

 

Annar íbúafundur framundan

Á fundinum [í dag] munu stofurnar þrjár kynna sínar tillögur, svo verður gestum boðið upp á léttan kvöldverð og að lokum gefst íbúum kostur á að ræða og draga fram það jákvæða í teikningunum. Það er mjög mikilvægt að eiga samtal við íbúa í stórum málum sem þessum. Þarna er um að ræða mjög stórt svæði sem er alveg í hjarta bæjarins.“ Í framhaldi af þeirri vinnu verður farið í deiliskipulagsvinnu fyrir reitinn og leggur Rakel áherslu á að Akraneskaupstaður muni flýta sér hægt í þessu máli. „Þetta verður ekkert gert á einni nóttu. Við þurfum að vinna þetta í skrefum og byrja sem fyrst. Reiturinn verður hólfaður niður í svæði og þetta verður áfangaskipt. Þetta verður að vera raunhæft en það þarf að byrja á þessu. Það þurfa samt allir að átta sig á því að þetta er langhlaup,“ segir hún. Rakel segist vonast til þess að vinnan á reitnum hefjist á næsta ári. „Íbúar mega ekki vera skildir eftir með spurninguna „hvað svo“ á vörunum. Vinnan mun halda áfram eftir íbúafundinn, þessu máli verður ekkert stungið ofan í skúffu.“

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is