Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. nóvember. 2015 07:30

Sveitarstjórn gerir miklar athugasemdir við starfsleyfi

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti samhljóða á fundi sínum þriðjudaginn 27. október ítarlegar athugasemdir við tillögu að starfsleyfi fyrir álver Norðuráls sem felur í sér stækkun álversins. Verði hún að veruleika mun álverið á Grundartanga geta framleitt 50 þúsund tonnum meira af áli á ársgrundvelli. Núgildandi starfsleyfi sem rennur út 2020 miðast við 300 þúsund tonna ársframleiðslu. Athugasemdirnar höfðu áður komið frá Umhverfis- og skipulagsnefnd Hvalfjarðarsveitar til afgreiðslu í sveitarstjórn sem ákvað að gera þær að sínum og senda áfram til Umhverfisstofnunar sem fer yfir umsagnir vegna stækkunaráforma Norðuráls.

 

 

 

Krefjast minni flúormengunar

Hvalfjarðarsveitungar telja nauðsynlegt að herða viðmiðunarmörk fyrir losun flúors frá álverinu því þolmörkum sé þegar náð. Í dag má álverið losa allt að 150 tonn af flúor á ári eða hálft kíló á hvert framleitt áltonn. Ef álverið stækkar í 350 þúsund tonn leggur Umhverfisstofnun til að þessi mörk verði færð niður í 0,43 kíló á tonnið. Þannig yrði heildarlosun á flúor 150,5 tonn miðað við 350 þúsund tonna álframleiðslu. Sveitarstjórnin í Hvalfirði bendir hins vegar á að losunarmörk flúors hjá Alcoa á Reyðarfirði séu töluvert lægri. Þar eru þau 0,35 kíló á tonnið miðað við 360 tonna ársframleiðslu. Hvalfjarðarsveit telur rétt og eðlilegt að hið sama verði látið gilda á Grundartanga og kallar jafnframt eftir skýringum Umhverfisstofnunar á þessu ósamræmi milli álveranna í Reyðarfirði og Hvalfirði. Einnig telur sveitarstjórnin rétt að Norðuráli verði gert að sýna fram á það í verki og með mælingum að hægt sé að reka álverið á Grundartanga innan nýrra og hertra markmiða um flúormengun.

Til viðbótar þessum kröfum bendir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar á að óeðlilegt sé að Norðurál hafi sjálft umsjón með vöktun, mælingum og mati á þeim, ásamt útgáfu á skýrslum sem fjalla um mengun fyrirtækisins. Löngu tímabært sé að endurskoða ákvæði um þetta. Einnig er bent á að ekki sé gert ráð fyrir árlegum mælingum á PAH-efnum sem eru krabbameinsvaldandi.

 

Efast um trúverðugleika

Sveitastjórnin telur trúverðugleika sé áfátt vegna umhverfisvöktunar við álverið. Í dag sér Norðurál til að mynda sjálft um kynningar á þessum þáttum. Hvalfjarðarsveit telur eðlilegt að slíkt sé á höndum Umhverfisstofnunar sem hlutlauss opinbers aðila. Sveitarfélagið óskar eftir því að gerðar verið símælingar, einkum varðandi flúor, og að upplýsingar verði veittar á rauntíma þannig að fólk fá strax upplýsingar um mengunarhættu. Einnig kallar Hvalfjarðarsveit eftir samantekt frá Umhverfisstofnun um svokallað þynningarsvæði í grennd álversins, hvernig það hafi verið skilgreint á sínum tíma og hvort raunmælingar síðustu ára færi stoðir undir þann uppdrátt á þynningarsvæði sem liggur fyrir í starfsleyfisdrögum nú.

Hvalfjarðarsveit kallar sömuleiðis eftir meira gegnsæi þegar kemur að flúormælingum þannig að ekki séu aðeins kynnt meðaltöl og þau sýnd almenningi, heldur séu sýnd hæstu gildi og tíðni þeirra. Sömuleiðis óskar sveitarfélagið eftir því að flúor sé mælt allt árið en ekki aðeins á tímabilinu 1. apríl til 30. september ár hvert.

 

Loðin viðbragðsáætlun

Í athugasemdum sínum víkur sveitarstjórnin einnig að því hvernig brugðist skuli við mengunaróhöppum. Viðbragðsáætlun sé óskýr og tímamörk á tilkynningum um óhöpp þokukennd þar sem talað sé um að þær skuli gefnar út „eins fljótt og kostur er.“ Hér sé nauðsynlegt að kveða á um tímamörk. „Mengunaróhöpp hafa átt sér stað hjá Norðuráli en verulega hefur skort á upplýsingar til almennings þegar það hefur gerst,“ segir í sveitarstjórnin í svari sínu til Umhverfisstofnunar.

Enn er svo bent á að álverið í Reyðafirði þurfi að sæta skilgreindum kröfum um samþættar mengunarvarnir og eftirlit samkvæmt tilskipun ESB en sambærileg ákvæði sé ekki að finna í starfsleyfi Norðuráls.

Einnig er gagnrýnt að lífrænn úrgangur frá svo stórum vinnustað sem Norðuráli skuli ekki notaður í jarðgerð. Sú skoðun er einnig viðruð að ekki sé fjallað um lýsingu og ljósmengun í starfsleyfinu. „Mikið hefur borið á kvörtunum vegna ljósmengunar frá iðnaðarsvæðinu á Grundartanga og ljóst að við því þarf að bregðast.“

 

Telja starfsleyfi eiga að gilda of lengi

Gildistími nýs starfsleyfis á að vera 16 ár. Þetta telur sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að sé of langur tími. Í athugasemdum sveitarstjórnarinnar er að lokum tekið undir með Faxaflóahöfnum að komið verði á fót upplýsingamiðlun til íbúa í grennd við Grundartanga svo þeir geti gert ráðstafanir ef hætta er talin á óhagstæðri dreifingu flúors svo sem við óhentug veðurskilyrði. Einnig er farið fram á að Umhverfisstofnun komi á fót samráðsvettvangi milli þeirra sem vinna við að vakta umhverfi Grundartanga. Íbúar þurfi einnig að hafa greiðan aðgang að grundvallarupplýsingum um stöðu mála á hverjum tíma. Athugasemdir sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar hafa nú verið sendar Umhverfisstofnun. Hún fer yfir þær ásamt öðrum umsögnum sem stofnuninni hafa borist vegna fyrirhugaðrar stækkunar Norðuráls. Lesa má athugasemdirnar í heild sinni í fundargerð sveitarstjórnar á vef Hvalfjarðarsveitar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is