Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. nóvember. 2015 01:15

Ýmsir viðburðir í sveitarfélögum á Vesturlandi á aðventu

Það verður ýmislegt um að vera á aðventunni á Vesturlandi. Jólatré verða tendruð víðast hvar á næstunni og ýmsir fjölbreyttir jólaviðburðir á döfinni, svo sem helgileikir, markaðir og jólatónleikar - svo fátt eitt sé nefnt. Skessuhorn tók saman það helsta sem er á dagskrá á aðventunni, skipt eftir sveitarfélögum landshlutans. Athugið að listinn er hvergi nærri tæmandi og fleiri viðburðir geta bæst við þegar líður á aðventuna:

 

 

 

 

 

Akranes:

Margt verður að gerast á Akranesi á aðventunni samkvæmt dagskrá fyrir fyrstu aðventuhelgina, sem er næsta helgi. Líkt og undanfarin ár fer Útvarp Akraness í loftið á hádegi á föstudag og verður dagskrá fram á miðjan sunnudag, líkt og ávallt er fyrstu helgina í aðventu. Alla helgina verða sýningarnar Saga líknandi handa og Á fætur í Safnaskálanum í Görðum opnar frá klukkan 13 - 17. Á laugardag verður sannkölluð aðventustemning á Akranesi. Listafólk í Samsteypunni verður með opið frá kl. 14 - 16 þar sem boðið verður upp á fjölda fallegra listmuna til sölu og klukkan 16 hefst aðventuskemmtun á Akratorgi. Þar verða ljósin verða tendruð á jólatrénu, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri hjálpar börnum að kveikja ljósin, lúðrasveitin spilar og skólakór Grundaskóla flytur nokkur jólalög. Þá munu jólasveinar kíkja í heimsókn og tilboð verður á heitu súkkulaði og jólaglöggi á Skökkinni Café. Um kvöldið verða aðventutónleikar Kórs Akraneskirkju að Kalmansvöllum 1. Sérstakir gestir tónleikanna eru Guðrún Gunnarsdóttir söngkona og Gunnar Gunnarsson píanóleikari. Sunnudaginn 29. nóvember verður barnabíó í Bíóhöllinni þegar myndin Góða risaeðlan verður frumsýnd.

 

Áframhaldandi jólastemning verður svo í desember. Verslanir og veitingastaðir á Akranesi verða með opið á aðventunni og hægt verður að gera góð kaup. Mánudaginn 14. desember verða tónleikar í Vinaminni þar sem Andrés Þór Gunnlaugsson gítarleikari, Karl Olgeirsson píanóleikari og Jón Rafnsson kontrabassaleikari leika jólalög og sálma af nýútkomnum geisladiski sem heitir Hátíðarnótt. Fjölmargir jólatónleikar verða í Tónbergi í jólamánuðinum. Nemendatónleikar verða fimm talsins þar sem nemendur Tónlistarskóla Akraness leika á hin ýmsu hljóðfæri. Kór eldri borgara verður með samsöng í Tónbergi þriðjudaginn 8. desember klukkan 15 og kvennakórinn Ymur verður með tónleika 10. desember klukkan 20. Þá verða tónleikar forskóladeildar tónlistarskólans fimmtudaginn 17. desember kl. 17. Fleiri menningarviðburðir verða í bænum og má þar nefna tónleika Bubba Morthens í Bíóhöllinni, sem haldnir eru árlega á Jólaföstu. Þá verða sýningarnar Saga líknandi handa og Á fætur opnar til áramóta, svo eitthvað sé nefnt.

 

Hvalfjarðarsveit:

Fimmtudaginn 26. nóvember verða Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Tónlistarskólinn á Akranesi með sameiginlega tónleika í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd. Söngdeild skólanna slá saman í tónleika í kirkjunni kl. 20. Þann 1. desember verður svo haldin árleg Fullveldishátíð í Heiðarskóla klukkan 17.

 

Borgarbyggð:

Ýmislegt er á döfinni í Borgarbyggð á aðventunni, sérstaklega um næstu helgi. Á föstudagskvöld verður hið árlega jólabingó Kvenfélagsins 19. júní í matsal Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Sunnudaginn 29. nóvember verða ljósin tendruð á jólatré Borgarbyggðar á Kveldúlfsvelli við ráðhúsið í Borgarnesi við hátíðlega athöfn. Dagskráin hefst klukkan 17 og mun Guðveig Anna Eyglóardóttir formaður byggðarráðs flytja ávarp. Sungin verða nokkur vel valin jólalög til að koma Borgfirðingum í alvöru jólaskap og Grýla og Stekkjarstaur koma til byggða og færa börnunum ávaxtanammi. Nemendur níunda bekkjar Grunnskólans í Borgarnesi munu gefa gestum og gangandi heitt kakó. Laugardaginn 5. desember verður jólamarkaður í gömlu hlöðunni í Nesi í Reykholtsdal þar sem finna má handverk og matvöru úr héraði.

 

Þá eru ýmsir menningarviðburðir á dagskrá í Borgarbyggð á aðventu. Þriðjudaginn 1. desember verða tónleikar í Reykholtskirkju, Hátíð fer að höndum ein. Um er að ræða hátíðar- og kyrrðarstund í samstarfi Tónlistarfélags Borgarfjarðar, Reykholtskirkju og Vesturlandsprófastsdæmis. Föstudaginn 4. desember verður haldin skemmtunin Leppalúðar og létt jólatónlist í Hjálmakletti í Borgarnesi. Um er að ræða jólaskemmtun með Hvanndalsbræðrum, Sóla Hólm og Gísla Einarssyni. Þá verða Aðventutónleikar Reykholtskórsins í Reykholtskirkju sunnudaginn 6. desember kl. 20, þar sem flutt verða bæði innlend og erlend aðventu- og jólalög. Þriðjudaginn 8. desember kynnir Óskar Guðmundsson rithöfundur nýja bók sína um Skúla Alexandersson í bókhlöðu Snorrastofu klukkan 20:30. Svavar Knútur og Kristjana Stefáns verða með jólatónleika á Sögulofti í Landnámssetrinu 10. desember klukkan 20:30. Föstudaginn 11. desember verður svo leiksýning í íþróttahúsinu á Hvanneyri kl. 20, þegar Möguleikhúsið mun setja upp leikverkið Aðventu sem byggt er á sögu Gunnars Gunnarssonar. 15. desember næstkomandi lesa bræðurnir Ævar Þór og Guðni Benediktssynir úr nýútkomnum bókum sínum á Sögulofti í Landnámssetri og árlegur helgileikur nemenda á Hvanneyri verður fimmtudaginn 17. desember.

 

Grundarfjörður:

Að vanda hefst aðventan í Grundarfirði á aðventudegi Kvenfélagsins Gleym mér ei í Samkomuhúsinu þann 29. nóvember. Aðventudagurinn stendur yfir frá klukkan 14 til 17 og verða þar sölubásar með handverki, kökum og fleiru, auk þess sem kvenfélagið selur vöfflur og kakó. Á dagskrá aðventudagsins er að finna söng- og tónlistaratriði frá tónlistarskólanum, tilkynnt verður um val íþróttamanns Grundarfjarðar 2015 og úrslit verða kunngjörð í ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðar 2015. Þá verða vinningar afhentir í jólahappdrætti kvenfélagsins. Allur ágóði af aðventudeginum rennur óskiptur til þeirra sem mest þurfa á stuðningi að halda í samfélaginu.

Líkt og undanfarin ár mun Lions annast uppsetningu á jólatré bæjarins. Tréð verður tendrað sunnudaginn 29. nóvember klukkan 18:00 og er það kærkomin fjölskyldustund í upphafi aðventu. Lions verður svo með sinn árlega jólamarkað í Sögumiðstöðinni dagana 10. til 12. desember. Markaðurinn verður opinn kl. 16 - 19 dagana 10. - 11. desember en laugardaginn 12. desember verður opið frá kl. 14 - 16. Meðal þess sem verður á boðstólum á jólamarkaðnum má nefna lifandi jólatré og greinar, leiðisskreytingar ásamt fiskmeti af ýmsu tagi og fleira góðgæti. Einnig verður til sölu rjúkandi heitt súkkulaði og rjómavöfflur. Jólasveinninn verður á kreiki þessa daga. Allur ágóði af jólamarkaðinum rennur í líknarsjóð Lions. Skátafélagið Örninn í Grundarfirði lætur ekki sitt eftir liggja í aðdraganda jóla. Á aðventukvöldi kirkjunnar sem verður þriðja sunnudag í aðventu ætla skátarnir að gefa gestum handunnin jólaljós sem þeir vinna sjálfir. Þá verða skátarnir með jólakvöldvöku þar sem átta til níu ára gamlir skátar verða með helgileik.

 

Stykkishólmur:

Um fyrstu aðventuhelgi verður ýmislegt um að vera í Stykkishólmi. Kór Stykkishólmskirkju og Hólmarinn Þór Breiðfjörð verða með jólatónleika í kirkjunni kl. 17 þar sem flutt verður ljúf aðventutónlist. Jólahlaðborð verður á Hótel Stykkishólmi, opnun sýningar Ingibjargar Hildar Benediktsdóttur í vinnustofu Tang & Riis, þar sem hún sýnir ofna hluti og hefur sett upp vefstól sem gestum og gangandi gefst færi á að skoða. Þá verður jólabasar Hringskvenna í Hólminum um næstu helgi og Norska húsið komið í jólabúning.

Jólastemning verður í Hólmgarði í Stykkishólmi föstudaginn 4. desember þegar ljósin á jólatrénu frá Drammen verða tendruð á milli klukkan 17 og 18. Fernir jólatónleikar verða haldnir í tónlistarskólanum dagana 7. og 8. desember þar sem nemendur úr öllum deildum skólans munu flytja jólalög og fjölbreytta tónlist. Fimmtudaginn 17. desember verða svo hátíðartónleikar í Stykkishólmskirkju þar sem nemendur tónlistarskólans flytja jólatónlist. Fjölbreytt samspil verður, einleikur og söngur úr öllum deildum skólans. Enginn aðgangseyrir er og allir hjartanlega velkomnir.

 

Snæfellsbær:

Kveikt verður á ljósum jólatrjánna í Snæfellsbæ næsta sunnudag. Ljósin verða tendruð kl. 16:30 á Hellissandi og kl. 17:30 í Ólafsvík. Þessa helgi verður langur laugardagur hjá verslunum í Snæfellsbæ og ýmis tilboð í gangi alla helgina. Einnig verður Pakkhúsið opið um næstu helgi og þá næstu en jólaopnum verður síðan 12. til 23. desember. Jólasveinarnir koma þá í heimsókn alla dagana. Piparkökuhúsakeppni verður í Pakkhúsinu fyrir jólin. Húsunum þarf að skila inn fyrir 18. desember og besta húsið verður svo valið 21. desember.

 

Mikil menningar- og tónlistarveisla verður í Snæfellsbæ á aðventunni. Frystiklefinn frumsýnir leikverkið Fróðá 4. desember næstkomandi og jólatónleikarnir Jólin heima verða haldnir í Klifi sunnudaginn 6. desember. Þar koma fram tónlistarmenn frá Snæfellsbæ. Daginn eftir verða jólatónleikar tónlistarskólans og fimmtudaginn 10. desember verður kirkjukór Ólafsvíkur með jólatónleika. Auk þess verður skóla- og barnakórinn með jólatónleika í Ingjaldshólskirkju miðvikudaginn 16. desember.

 

Reykhólar:

Árlegur jólamarkaður verður í Kaupfélagshúsinu í Króksfjarðarnesi um næstu helgi. Þar verður ýmislegt til sölu og kvenfélagið Katla verður með hátíðarvöfflur, jólakökur og fleira gott, ásamt jólakakói og kaffi. Allur ágóði af veitingasölunni rennur óskiptur til Björgunarsveitarinnar Heimamanna til kaupa á nýjum björgunarbát með dælubúnaði.

 

Dalabyggð:

Fyrstu aðventuhelgina verður aðventukvöld með Helgu Möller í Hjarðarholtskirkju. Þar verður kveikt á fyrsta aðventuljósinu, kirkjukór Dalaprestakalls syngur jólasálma og Margrét Guðmundsdóttir jólalag. Þá munu fermingarbörn flytja kærleiksboðskap og krakkarnir úr kirkjuskólanum syngja og spila nokkur jólalög. Miðvikudaginn 2. desember kl. 17:30 verður kveikt á jólatré Dalamanna við Dalabúð og sunnudaginn 13. desember kl. 15 mun Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli segja frá jólasveinunum 84 á Byggðasafni Dalamanna.

Birt með fyrirvara um breytingar í dagskrá og aðra dagskrárliði sem ekki var kunnugt um þegar blaðið var sent í prentun.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is