Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. janúar. 2016 09:01

Hæfileikaríkir heimamenn á Þorrablóti Skagamanna

Þorrablót Skagamanna verður haldið með pompi og prakt í íþróttahúsinu við Vesturgötu laugardaginn 23. janúar næstkomandi. Er þetta í sjötta skipti sem blótið er haldið og alla tíð hafa Skagamenn tekið vel í framtakið og fjölmennt á þorrablót. Að vanda er það Club 71 á Akranesi sem á veg og vanda að framkvæmd og skipulagningu blótsins. „Eins og alltaf áður verður gleðin í fyrirrúmi og skemmtiatriðin í hæsta gæðaflokki,“ segir Guðráður Gunnar Sigurðsson, betur þekktur sem Gurri, talsmaður Club 71.

 

„Yfirskrift blótsins í ár er „hæfileikaríkir heimamenn“ og eigum við nóg af þeim hér á Skaga,“ bætir hann við en vill ekki gefa upp hverjir og með hvaða hætti heimamennirnir hæfileikaríku munu koma við sögu á Þorrablóti Skagamanna. Gurri er þó tilbúinn að ljóstra því upp hverjir veislustjórarnir verða. „Veislustjórn verður í höndum Skagamannsins og stórleikarans Hallgríms Ólafssonar. Honum til halds og trausts verður svo enginn annar en Rúnar Freyr Gíslason leikari,“ segir hann.

 

 

Að öðrum leyti segir Gurri blótið verða með nokkuð hefðbundnu sniði. Veitingarnar verða í höndum matreiðslumeistara Galito á Akranesi og sömu íþróttafélög aðstoða við undirbúning og framkvæmd blótsins og síðast. Knattspyrnufélag ÍA, Þjótur, Golfklúbburinn Leynir, Sundfélag Akraness og Fimleikafélag Akraness auk Björgunarfélags Akraness lögðu öll hönd á plóg í fyrra. Að launum útdeildu forsvarsmenn Club ´71 hagnaðinum á milli þessara félaga í hlutfalli við framlagða vinnu, en þannig hefur félagsskapurinn frá upphafi stutt við íþrótta- og tómstundastarf í heimabyggð. Á síðasta ári var vel á þriðju milljón króna til skiptanna. „Ég held að við höfum í gegnum árin safnað heilt yfir í kringum níu milljónum króna sem deilt hefur verið á félögin sem hafa aðstoðað okkur hverju sinni,“ segir Gurri.

 

Forsala hefst á morgun, föstudag

Eins og verið hefur verður forsala aðgöngumiða í útibúi Íslandsbanka að Dalbraut 1 á Akranesi og eru aðeins 650 miðar í boði. Hefst forsalan föstudaginn 8. janúar næstkomandi og ráðleggur Gurri fólki að tryggja sér miða í tíma því undanfarin ár hafi verið uppselt á blótið. „Það má búast við röð og mikilli stemningu í Íslandsbanka að morgni fyrsta forsöludagsins. Ég veit til þess að starfsfólk bankans hefur þegar hafist handa við að undirbúa forsöludaginn. Magnús Brandsson útibússtjóri hefur lofað harðfiski og hákarli á meðan birgðir endast að morgninum,“ bætir hann við.

 

Áhugasömum er bent á að nánari upplýsingar má nálgast á facebook-síðu þorrablótsins, Þorrablót Skagamanna Akranes, þegar nær dregur. Þar verður að sögn Gurra ef til vill einhverju ljóstrað upp sem enn hvílir mikil leynd yfir þegar þessi orð eru rituð. Gurri bætir því við að hann líkt og aðrir félagar í Club 71 bíði blótsins með mikilli eftirvæntingu. „Það er orðið árvisst hjá okkur að hittast snemma í janúar og skipuleggja Þorrablót Skagamanna. Við hlökkum mikið til,“ segir Gurri að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is