Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. febrúar. 2016 01:51

Uppfærð frétt: Snjóflóð í Heinabergshlíð í nótt

Fjögur lítil snjóflóð féllu í Heinabergshlíð á Skarðsströnd í nótt. Það staðfesti Sæmundur Kristjánsson hjá Vegagerðinni í Búðardal í samtali við Skessuhorn. „Þetta eru fjögur lítil flóð sem hafa fallið í nótt og töluvert af grjóti í einu þeirra,“ segir hann. Verið er að moka af veginum með traktorsgröfu þegar þessi orð eru rituð og hefill Vegagerðarinnar á leiðinni á vettvang. Sæmundur segir mikið hafa snjóað síðasta sólarhring. „Það hefur hrúgast niður hérna víðast hvar óhemju mikið af þungum og blautum snjó.“

Guðmundur Gíslason, bóndi á Ytri-Fagradal, fór af stað á traktorsgröfu um 6:30 í morgun og kom á staðinn um þremur klukkustundum síðar. Þurfti hann að moka sig í gegnum fjögur lítil snjóflóð sem hann áætlar að séu um einn metri að dýpt og tíu metrar að breidd. Töluvert af grjóti segir hann hafa verið í fyrsta flóðinu.

 

Bíll hafi farið út af og ekki um annað að ræða en að fara af stað. „Ég fór af stað til að aðstoða póstinn. Hann er út af hér í Nýpurhlíðinni. Bíllinn snerist í hálkunni á veginum og fór afturábak út af,“ segir Guðmundur í samtali við Skessuhorn. „Hann er eiginlega á versta stað, hér er nokkuð bratt, um 20-30 metrar niður á slétt og grýtt.“ Bíllinn fór þó ekki alla leið heldur sat ofan á stórgrýti, nánast upp á endann, þegar Guðmundur kom á vettvang. „Hann er líklega eitthvað tjónaður.“

 

Maðurinn er óslasaður en var að sögn Guðmundar orðið nokkuð kalt þegar aðstoð barst. Þó bíllinn hafi setið á stórgrýti hafi verið mjög sleipt allt í kring og ekki á það treystandi að hann rynni ekki af stað aftur. „Hann vildi þess vegna ekki hafa bílinn í gangi og sat úti þegar ég kom,“ segir Guðmundur. „Það er mjög hált hér alls staðar. Ég náði að losa bílinn af grjótinu en næ honum ekki upp á veginn vegna hálku,“ bætir hann við.

Beðið er eftir aðstoð hefils frá Vegagerðinni. „Hann er rétt ókominn, ég sé hann hérna í fjarska,“ segir hann.

 

Guðmundur segir að mikið hafi snjóað í nótt. „Ég sá það bara þegar ég kom út á hlað í morgun að þar voru heilu haugarnir af snjó sem voru ekki þar í gær.“ Eins segir hann vindátt hafa verið afar óhagstæða. „Það var austanátt, sem er versta áttin upp á hlíðarnar að gera. Þá safnast í þær alveg um leið og þessi blauti, þungi snjór getur farið af stað,“ segir Guðmundur.

 

Nú laust eftir 10:30 hefur tekist að koma bíl póstsins upp á veg með aðstoð hefils Vegagerðarinnar. Öllum heilsast vel. Aftur á móti er veður tekið að versna á nýjan leik með norðaustan skafrenningi sem safnast á veginn.

 

 

Uppfært 13:45
Samkvæmt heimildum Skessuhorns var þess freistað um hádegisbilið að snúa bíl póstsins við á veginum og koma honum í burt. Mikil hálka var enn á veginum og rann bíllinn af stað. Bremsur hans virkuðu illa og bíllinn skautaði út af á nýjan leik og er enn utan vegar.
Veður var orðið vont og ákváðu björgunarmenn að hverfa á brott og bíða þess að veðrinu slotaði. Þá var færð orðin afar slæm á nýjan leik þar sem skafið hafði í allt aftur. Snjómokarinn sat því ekki auðum höndum á bakaleiðinni heldur. Ekið var frá Nýpurhlíðinni að Ytri-Fagradal, um þriggja kílómetra leið og tók sú ferð hálfa klukkustund.
Nýjustu fréttir af Skarðsströnd herma að veðrið sé gengið niður og á að freista þess að gera aðra tilraun til að ná bíl póstsins upp á veginn og koma á burt.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is