Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. febrúar. 2016 04:45

Nýir búvörusamningar undirritaðir

Í dag var skrifað undir nýja búvörusamninga við bændur. Það gerðu fulltrúar Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auk fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Samningarnir eru gerðir samkvæmt búnaðarlögum og fjalla um starfsskilyrði við framleiðslu grænmetis, kindakjöts og nautgripaafurða. Samningarnir eru til tíu ára en gert er ráð fyrir að þeir verði teknir til endurskoðunar tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Það er nýmæli að gildistíminn sé þetta langur, en ástæða þess er að með samningunum er verið að ráðast í umfangsmiklar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins sem kallar á langtímahugsun, segir í tilkynningu frá samningsaðilum.

Stefnt er að því að leggja af kvótakerfi, bæði í mjólkurframleiðslu og í sauðfjárrækt. Losað verður um styrkjafyrirkomulagið þannig að greiðslur til bænda verða ekki bundnar við framleiðslu á mjólk eða kjöti eins og verið hefur. Útgjöld ríkisins til landbúnaðarmála hækka um rúmar níu hundruð milljónir árið 2017 en fara stiglækkandi út samningstímann og verða heldur lægri á síðasta ári samningsins en þau verða í ár.

 

 

Í nýju samningunum er lögð aukin áhersla á lífræna framleiðslu, velferð dýra, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu. Veigamiklar breytingar fela það í sér að nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verða auðveldari en verið hefur. Sérstakt verkefni kemur inn í samninginn um stuðning við skógarbændur til að auka virði skógarafurða. Um leið er kveðið á um annað nýtt verkefni um mat gróðurauðlindum sem ætlað er til þess frekari rannsókna á landi sem nýtt er til beitar. Jafnframt verða möguleikar á fjárfestingastyrkjum í svínarækt fyrri hluta samningstímans til þess að hraða umbótum sem bæta aðbúnað dýra.

 

Jarðræktarstuðningur er aukinn verulega og gerður almennari. Hægt verður að styðja betur við ræktun, þar með talið ræktun matjurta en það er nýmæli. Um leið verður tekinn upp almennur stuðningur á ræktarland sem er ekki bundinn ákveðinni framleiðslu. Stuðningur við lífræna framleiðslu verður tífaldaður frá því sem nú er og sérstakur stuðningur verður tekinn upp við geitfjárrækt, sem ekki hefur verið áður. Ennfremur fylgir samningnum bókun þar sem gert er ráð fyrir frekari viðræðum um innviði hinna dreifðu byggða og almenn atriði er varða byggðastefnu stjórnvalda.

 

Fjárhæðir í rammasamningi nema kr. 1.743 milljónum árið 2017 en enda í kr. 1.516 milljónum árið 2026 við lok samnings. Heildarútgjöld ríkisins vegna samningana verða nánast þau sömu í lok samningstímans (á föstu verðlagi) og þau eru nú. Sett er þak á stuðning í alla samningana þannig að enginn framleiðandi getur fengið meira en ákveðið hlutfall af heildarframlögum.

 

Mjólkursamningur tekur breytingum

Í nautgriparæktarsamningi er stefnt að viðamiklum breytingum. Vægi greiðslna út á framleidda mjólk auk gripagreiðslna eykst en á móti er gert ráð fyrir að vægi greiðslna út á greiðslumark verði þrepað niður. Viðskipti með greiðslumark verða jafnframt takmörkuð en aðlögunartími er talsverður. Horft er til þess að hægt verði að afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu en ákvörðun um það verður ekki tekin fyrr en við fyrri endurskoðun árið 2019. Atkvæðagreiðsla verði meðal mjólkurframleiðenda um málið áður en til þess kemur. Ný verkefni eru einkum að nú verður tekinn upp stuðningur við nautakjötsframleiðslu, en innlend framleiðsla hefur ekki annað eftirspurn síðustu ár. Ennfremur verður mögulegt að fá stuðning við fjárfestingar, sem líka er nýmæli. Þá mun ráðherra beita sér fyrir því að tollvernd á ákveðnum mjólkurvörum verði færð til raungildis, en hún hefur verið óbreytt í krónum talið frá árinu 1995.

 

Garðyrkjusamningur áþekkur fyrri samningum

Samningur garðyrkjubænda er um margt áþekkur fyrri samningum og engar snöggar eða áhrifamiklar breytingar eru fyrirsjáanlegar vegna hans. Kveðið er á um hlutdeild ríkisins í kostnaði við dreifingu og flutning raforku, en undanfarin ár hafa verið gerðir sérstakir samningar um þá þætti, utan búvörusamninga. Áfram munu papriku-, gúrku- og tómataframleiðendur fá beingreiðslur vegna framleiðslu sinnar. Sett hefur verið viðmið um hámarksstuðning til einstaka bænda vegna beingreiðslna og niðurgreiðslna á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku í því skyni að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist sem best.

 

Breyttar áherslur í sauðfjársamningi

Í sauðfjárræktarsamningi eru breyttar áherslur frá fyrri samningi. Markmið nýja samningsins er að efla íslenska sauðfjárrækt í sátt við samfélag og náttúru þar sem sérstaða, sjálfbærni, fjölbreytni, verðmætasköpun og góðir búskaparhættir eru hafðir að leiðarljósi. Vægi álagsgreiðslna gæðastýringar er aukið og greiðslur út á greiðslumark þrepaðar niður á móti. Teknar verða upp gripagreiðslur í sauðfjárrækt þegar liðið er á samninginn, en á öðru ári hans hefjast greiðslur sem kallast býlisstuðningur og eru sérstaklega ætlaðar til að styðja við minni bú. Einnig verður kostur á fjárfestingastuðningi í sauðfjárrækt og stuðningur við svæði sem eru sérstaklega háð sauðfjárrækt verður aukinn. Nýtt verkefni er í samningnum um aukið virði afurða sem er ætlað til margskonar aðgerða til að auka verðmæti framleiðslunnar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Dalabyggð

Framtíð Breiðafjarðar

Framleiðnisjóður Landbúnaðarins

Fram á völlinn

Grundarfjarðarbær

Fundaröð um vegamál á Vesturlandi

Grundarfjarðarbær

Bæjarstjórnarfundur

Dalabyggð

Sveitarstjórn Dalabyggðar - 181. fundur

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is