Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Miðaftann. Fjórði Mánadagur í Haustmánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. febrúar. 2016 01:04

Samið við ASK arkitekta um skipulag Sementsreitsins

ASK arkitektum í Reykjavík hefur verið falið að deiliskipuleggja Sementsreitinn á Akranesi. Samningur þess efnis var undirritaður í morgun. Stefnt er að því að öllu skipulagsferlinu verði lokið fyrir árslok. Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að skipulagið taki aðallega til athafnasvæðis Sementsverksmiðjunnar. Akraneskaupstaður tók við svæðinu í lok árs 2013 og hugmyndin er að nýta það fyrir íbúðabyggð og þjónustu auk hafntengdrar starfsemi. Upphaflega var efnt til opins íbúafundar í ársbyrjun 2014 um framtíðarnýtingu reitsins og var skipaður starfshópur til að fjalla um framhaldið. Óskað var eftir tillögum að skipulagi reitsins frá arkitektastofunum ASK arkitektum, Kanon arkitektum og Landmótun eftir ákveðnum forskriftum og voru tillögur þeirra kynntar íbúum á fundi í október síðastliðnum. Í desember var ákveðið að semja við ASK arkitekta um að ljúka deiliskipulagsvinnunni. Verkefnið verður unnið í nánu samráði við Faxaflóahafnir enda er hluti skipulagssvæðisins í eigu þeirra. Gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist á skipulagslýsingu og að hin eiginlega skipulagsvinna taki við í maímánuði. Drög að skipulagi verða að öllum líkindum kynnt almenningi síðsumars. Endanleg skipulagsgögn skulu liggja fyrir í september og þá verður skipulagið sett í auglýsingaferli. Öllu ferlinu á þannig að vera lokið fyrir næstu áramót.

Skipuleggja 7,5 hektara

Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er verkefnið stórt enda sé skipulagssvæðið alls um 75 þúsund fermetrar, eða 7,5 hektarar. „Sementsreiturinn sjálfur er 55 þúsund fermetrar og svo nær skipulagið yfir Faxabrautina meðfram honum og einnig yfir hluta hafnarsvæðisins. Ásýnd strandlengjunnar á Akranesi mun taka miklum breytingum með uppbyggingunni þarna.“ Páll Gunnlaugsson arkitekt hjá ASK arkitektum segir verkefnið áhugavert og óvenjulegt í ýmsum skilningi. „Hönnunarreiturinn er á sögulegu svæði og þar er eitt helsta kennileiti Akraness. Það er tímanna tákn að leggja niður verksmiðju miðsvæðis í bæjarsamfélagi og skipuleggja landið til annarra nota. Akraneskaupstaður sýnir hér mikinn metnað fyrir sína hönd og íbúanna og fyrir okkur hönnuðina er verkefnið bæði ögrandi og spennandi.“

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is