01. mars. 2016 03:38
Hlaupársdagur fór rólega af stað á fæðingadeildinni á Akranesi og fram eftir degi í gær var útlit fyrir að ekkert hlaupársbarn myndi fæðast á deildinni. Það átti þó eftir að breytast og klukkan 21:15 í gærkvöld fæddist stúlka, 48 sentímetra löng og 3.470 gr. að þyngd. Nóg hefur verið að gera á deildinni undanfarið og er þetta ellefta barnið sem fæðist á liðinni viku. Á hlaupári er degi bætt við almanaksár til að leiðrétta skekkju í tímatali. 29. febrúar ber þannig upp fjórða hvert ár og má því litla stúlkan bíða til ársins 2020 eftir fyrsta eiginlega afmælisdeginum sínum.