Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
02. mars. 2016 08:01

Boðað til stofnfundar sjósportsklúbbs á Akranesi

Annað kvöld, fimmtudaginn 3. mars, hyggjast áhugamenn um hvers konar sjósport á Akranesi og nágrenni koma saman og leggja drög að stofnun sjósportklúbbs. Fundurinn verður haldinn á Vitakaffi og hefst klukkan 20. Eyjólfur M. Eyjólfsson er forgöngumaður um stofnun klúbbsins. „Ég er alinn upp við siglingar á Skerjafirði og hef fundist þetta vanta hér eftir að ég flutti hingað á Akranesi,“ segir hann. „Um nokkurt skeið hafa siglingaáhugamenn verið að ræða stofnun eigin félags hver í sínu horni en aldrei hefur neitt verið gert í málinu,“ bætir hann við. Nú er hins vegar útlit fyrir að breyting verði á. „Ég hafði spurnir af því í fyrra gegnum formann Siglingasambands Íslands að þreifingar væru milli þess, Akraneskaupstaðar og ÍA um stofnun slíks klúbbs. Ég sat einn kynningarfund þess efnis en svo gerðist ekkert meira. Ég sendi ÍA því fyrirspurn og í kjölfar þess var mér einfaldlega réttur boltinn,“ segir Eyjólfur. Ég renni auðvitað dálítið blint í sjóinn. Ég veit til þess að hér eru fjölmargir áhugamenn um siglingar sem eiga ekki bát. Ég hef farið með marga slíka í stuttar siglingar og haft gaman af. Þannig að ég ákvað því að drífa í þessu, blása til stofnfundar og kanna áhuga bæjarbúa á þessu,“ segir Eyjólfur og viðurkennir að auðvitað renni hann dálítið blint í sjóinn.

Sjósport í sókn á landsvísu

Síðastliðið sumar var hópur á vegum SÍL á vikulöngu námskeiði á Akranesi. Í samtali við Skessuhorn meðan á námskeiðinu stóð lofaði þáverandi formaður sambandsins í hástert aðstæður til siglinga úti fyrir Langasandi. Svæðið væri nokkuð varið af skerjunum í kring. Reyndar opið fyrir sunnanáttinni en þegar svo bæri undir væri gott og mikið pláss til að sigla í höfninni. Enn fremur sagði hann siglingar og sjósport almennt vera í nokkurri sókn á Íslandi. Eyjólfur tekur undir það. Víða um land hafi verið að spretta upp siglinga- og sjósportsklúbbar. „Til dæmis var nýlega stofnaður á Eskifirði klúbbur sem hefur vaxið hratt og örugglega á skömmum tíma. Í þeim klúbbi er allur pakkinn; siglingar á hvers kyns fleyjum, köfun og fleira. Vel kemur til greina að starf klúbbsins hér verði með þeim hætti,“ segir Eyjólfur. „Það gæti verið spennandi niðurstaða fyrir okkur hér á Skaga, ef útbúin yrði viðunandi sjósetningaraðstöðu í höfninni,“ bætir hann við og leggur áherslu á að aðstaða sjósportsklúbbs þurfi augljóslega að vera nálægt sjónum. „Siglinga- eða sjósportklúbbur þarf að eiga húsnæði og geta geymt sína báta og björgunarbáta nálægt sjó. Sú aðstaða er auðvitað ekki til staðar í dag,“ segir hann. Einnig þurfi klúbburinn að hafa á sínum snærum reynda starfsmenn. „Ég hyggst leita aðstoðar Siglingaklúbbsins Brokeyjar í Reykjavík. Fá þá til að deila reynslu sinni og ekki síður með tilliti til aðkomu barna- og unglinga að starfinu. Fá þá kannski til að halda örnámskeið um helgar eða eitthvað slíkt,“ segir Eyjólfur. „Það er það sem brennur mest á mér, að kynna sjósport fyrir ungu fólki svo það fái nasasjón af þessu því þetta er yndislegt sport. Frelsið, slökunin og nálægðin við náttúruna er engu lík.“

Eins og áður sagði verður fundurinn haldinn á Vitakaffi klukkan 20 og eru allir áhugamenn um siglingar og hvers kyns sjósport velkomnir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is