04. mars. 2016 06:01
Háskóladagurinn verður með kynningar í Fjölbrautaskóla Vesturlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga þriðjudaginn 8. mars nk. Allir háskólar landsins kynna þar námsleiðir sínar, sem eru yfir 500 talsins, og námsráðgjafar verða á staðnum. Kynningin á Akranesi verður kl. 10 - 11:30 og í Grundarfirði sama dag kl. 14 - 15:30
„Það er ekki á hverjum degi sem allir háskólar landsins mæta í FVA og FSN til að kynna allt háskólanám á Íslandi,“ segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins um kynningar Háskóladagsins á Vesturlandi þann 8. mars. „Það verður bara brunað á milli skólanna því við viljum hitta sem flesta sem hafa áhuga á háskólanámi,“ segir hún jafnframt. Allir háskólar á Íslandi standa í sameiningu fyrir Háskóladeginum sem fer fram í Reykjavík laugardaginn 5. mars frá kl. 12 til 16. Eftir þann dag halda háskólarnir í ferð um landið til að kynna þær námsleiðir sem háskólarnir bjóða upp á. „Þetta er einstakt tækifæri fyrir þá sem ætla að hefja háskólanám næsta haust eða vilja skoða hvaða möguleikar eru í boði,“ segir Hallfríður og bætir við að allir séu velkomnir.
Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands kynna námsframboð sitt, á grunn- og framhaldsstigi. Háskóladagurinn veitir framtíðarnemendum tækifæri til þess að hitta námsráðgjafa, kennara, starfsmenn og nemendur háskólanna svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um námsval. „Við hvetjum fólk á öllum aldri til þess að mæta hvort sem þeir eru að útskrifast úr framhaldsskóla eða vilja bæta við sig meistaranámi. Það er margt í boði í þessum sjö háskólum landsins og vert að kynna sér fjölbreytileikann sem ríkir innan veggja háskólanna," segir Hallfríður.