02. mars. 2016 04:09
Í Skessuhorni í dag er Hótel Bjarkalundur í Reykhólasveit auglýstur til sölu af fasteignasölunni Kaupsýslunni. Hótelið og mannvirki þess urðu ekki síst fræg eftir að sjónvarpsþættirnir um Dagvaktina voru teknir þar upp og sýndir á Stöð2. Hótel Bjarkalundur er 1015 fermetra atvinnuhúsnæði. Það er fallega í sveit sett í stórbrotnu umhverfi skammt frá veginum milli Berufjarðar og Þorskafjarðar. Á hótelinu er m.a. veitingasalur, setustofa, bar, verslun, salernisaðstaða fyrir ferðafólk. Eldhús er vel búið tækjum, allur húsbúnaður fylgir, kjöt- og grænmetiskælar, frystigámur og goskæligámur, aðstaða fyrir starfsfólk, þvottahús með þremur þvottavélum og þurrkara.
Hótelið er með 19 herbergjum, en þar af eru 15 herbergi með handlaug en salerni og sturta á gangi og fjögur herbergi eru í nýlegri álmu með sér snyrtingu og sturtu. Sex gestahús fylgja, hvert um 19,6 m2 með verönd með tvíbreiðu rúmi, eldhúsi, borðkrók, salerni og sturtu. Þjónustuskáli við tjaldstæði með salernis-, eldunar- og sturtuaðstöðu. Góð aðstaða er fyrir tjaldgesti utandyra, heitt og kalt vatn. Rafmagn á túni. Ásett verð samkvæmt auglýsingu er 120 milljónir króna.