03. mars. 2016 02:26
Ungmennafélag Reykdæla æfir nú af kappi leikritið „Óþarfa offarsi“ eftir Bandaríkjamanninn Paul Slade Smith í leikstjórn Ármanns Guðmundssonar. Verkið verður frumsýnt næstkomandi föstudag í Logalandi í Reykholtsdal. Að sögn Emblu Guðmundsdóttur formanns leiknefndar ungmennafélagsins er um að ræða farsa sem settur hefur verið upp víða um heim en þetta er í annað sinn sem verkið er sýnt á Íslandi. „Leikritið gerist á móteli í borg í Bandaríkjunum þar sem löggan er búin að setja upp gildru til að koma upp um spilltan borgarstjóra. Þarna eru tvær löggur sem vaða ekki í vitinu en eru afskaplega viljugar til að leysa verkefnið vel af hendi. Það flækir málin þegar önnur löggan tekur upp ástarsamband við kynsveltan endurskoðanda í næsta herbergi. Einnig koma við sögu leigumorðingi úr skosku hálöndunum, frekar ráðvilltur og hræðslugjarn yfirmaður öryggismála og ákaflega blíðleg borgarstjórafrú - svo ég segi nú ekki meira,“ segir Embla leyndardómsfull.
Alls taka átta leikarar þátt í sýningunni og skipta þeir með sér sjö hlutverkum. Ungmennafélag Reykdæla setur reglulega upp leikrit í Logalandi. Síðast var sýnd revían „Ert‘ekki að djóka elskan mín“ eftir Bjartmar Hannesson kúabónda á Norður - Reykjum. Embla segir þá sýningu hafa gengið glimrandi vel. „Nú æfum við eins og enginn sé morgundagurinn, alveg fram að frumsýningu. Við munum sýna eins lengi og aðsókn leyfir en auglýsum fimm sýningar til að byrja með. Þess má geta að Fosshótel Reykholt býður upp á þriggja rétta leikhúsmatseðil í tengslum við sýninga og sértilboð á gistingu, þannig að nú er lag að skella sér í leikhús og gera vel við sig í leiðinni,“ segir Embla að lokum.
Sjá nánar auglýsingu