09. mars. 2016 11:01
"Ég er innfæddur Borgnesingur, ólst upp á Gunnlaugsgötu 5 áður en fjölskyldan flutti alla leið í næsta hús,“ segir Vigdís Pálsdóttir og brosir þegar blaðamaður Skessuhorns ræddi við hana á heimili hennar í Borgarnesi í liðinni viku. Vigdís er dóttir Páls Stefánssonar og Jakobínu Hallsdóttur frá Hofsósi. „Borgnesingar þekktu hana sem Bínu í Kaupfélaginu.“ Við dveljum stutt við ættfræði og dembum okkur beint í ævintýri Vigdísar. Eftir útskrift úr Samvinnuskólanum á Bifröst árið 1964 lá leið hennar út fyrir landsteinana. Hún gerðist au pair í Bretlandi og síðan hótelþerna í Danmörku. „Ég kom og fór en vann alltaf hér í Kaupfélaginu í Borgarnesi milli þess sem ég var úti. Það þótti mér óskaplega góður vinnustaður, fólkið skemmtilegt og ég lærði mikið af öllum sem unnu þar,“ segir hún. Útlönd áttu engu að síður eftir að skipa stóran sess í hennar lífi og Vigdís átti eftir að koma víða við á meginlandi Evrópu. Hún starfaði í hartnær fjóra áratugi í utanríkisþjónustu Íslendinga, var sendiráðsfulltrúi í Kaupmannahöfn, London, Moskvu og víðar. Sendiráð Íslands veita ýmsa þjónustu við Íslendinga í viðkomandi ríkjum. „Það snýr til dæmis að útgáfu vegabréfa eða neyðarvegabréfa. Það eru ótrúlega margir ferðalangar árlega sem týna vegabréfinu sínu,“ segir hún. „En einnig að vitja um Íslendinga sem lenda í vandræðum erlendis, lenda á sjúkrahúsi til dæmis. Svo eru alltaf nokkrir er stungið í steininn í öðrum löndum á hverju ári. Þeim er gefinn kostur á að láta vita af sér heima fyrir og kynntur réttur sinn, svo réttindi þeirra séu ekki fótum troðin, svo dæmi séu tekin,“ bætir hún við.
Lesa má fróðlegt viðtal í Skessuhorni vikunnar við siglda konu sem flutt er á æskuslóðirnar í Borgarnesi. Þar lætur hún málefni líðandi stundar sig varða og tekur virkan þátt í umræðunni.