10. mars. 2016 02:51
Næstsíðasta umferð 1. deildar karla í körfuknattleik hefst í kvöld þegar ÍA tekur á móti Ármanni. Með sigri í kvöld geta Skagamenn tryggt sér sæti í úrslitakeppninni um laust sæti í úrvalsdeild að ári. Ármenningar eiga hins vegar í harðri fallbaráttu. Viðureignin er því báðum liðum mikilvæg og ljóst að áhorfendur mega búast við hörkuleik á Akranesi í kvöld.
Gaman er að geta þess að fyrir fjórum árum síðan, nánast upp á dag, mættust ÍA og Ármann í Kennaraháskólanum í Reykjavík í leik þar sem Skagamenn voru í nákvæmlega sömu stöðu. Þeir gátu með sigri þá tryggt sér sæti í úrslitakeppninni. Vonast Skagamenn til að endurtaka leikinn í kvöld, að þessu sinni á heimavelli.
Leikurinn í kvöld hefst kl. 19:15 í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi.