11. mars. 2016 10:20
Víkingur AK-100 kom með sinn fyrsta loðnufarm til Akraness í morgun. Albert Sveinsson skipstjóri segir í samtali við Skessuhorn að aflinn sé um 750 tonn sem fékkst á norðanverðum Faxaflóa. Loðnan fer í hrognatöku og -frystingu. „Við vorum í tvo daga að ná þessum afla eftir að við komum að austan á miðvikudagsmorgun. Loðnan er dreifð um svæðið og lítið að sjá. Engin alvöru lóðning sem við fundum í þessum túr,“ sagði Albert. Hann segir veðrið hafa verið slæmt á miðunum og haugasjór, einkum í gærkvöldi, en þá fór vindur í yfir 40 metra á sekúndu. „Við áttum svo viðkomu í Reykjavík í morgun og tókum olíu og hinkruðum meðan verið var að klára að vinna úr afla Venusar hér á Akranesi.“
Albert segir að það taki um tólf tíma að dæla úr skipinu og eftir það muni þeir sigla aftur út á flóann og freista þess að finna meiri loðnu. „Það spáir auk þess illa og væri sjálfsagt vont að liggja í höfninni. Röð lægða gengur nú yfir næstu dag, en eftir helgina á veðrið að skána og þá náum við vonandi að veiða upp í þann kvóta sem fyrirtækið á eftir,“ segir Albert Sveinsson.