11. mars. 2016 11:00
ÍA tók á móti Ármanni í 1. deild karla í körfuknattleik í gær. Með sigri gátu Skagamenn tryggt sætið í úrslitakeppninni en Ármenningar náð í mikilvæg stig í botnbaráttunni. Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks. Ármenningar skoruðu fyrstu stigin en Skagamenn komust fljótlega yfir og tóku frumkvæðið í leiknum en gestirnir fylgdu þeim eins og skugginn. Með þriggja stiga körfu undir lok fyrsta leikhluta komust Ármenningar stigi yfir. Leikmenn ÍA komu gríðarlega ákveðnir til annars fjórðungs. Svæðisvörn þeirra fór að skila tilætluðum árangri og þeir höfðu níu stiga forskot í hálfleik, 40-31.
Skagamenn virtust ætla að síga fram úr um miðjan þriðja leikhluta. Ármenningar voru ekki á þeim buxunum og hleyptu smá spennu í leikinn á ný með góðum kafla. En þeir höfðu ekki erindi sem erfiði. Skagamenn réðu lögum og lofum á vellinum í lokafjórðungnum, skoruðu hverja körfuna á fætur annarri og unnu að lokum 20 stiga sigur 84-64. Tryggðu Skagamenn sér þannig 5. sæti deildarinnar og sæti í úrslitakeppninni um laust sæti í úrvalsdeild að ári.
Sean Tate var atkvæðamestur Skagamanna með 34 stig, sex stoðsendingar og fimm fráköst. Jón Orri Kristjánsson var með 16 stig og 16 fráköst og Áskell Jónsson var með tólf stig. Þá skoraði Fannar Freyr Helgason ellefu stig, tók ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar en aðrir höfðu minna.
Næst mæta Skagamenn deildarmeisturum Þórs norður á Akureyri föstudaginn 18. mars áður en úrslitakeppnin tekur við.