12. mars. 2016 12:32
Nú um hádegisbil snýst veðrið á suðvesturlandi í suðvestan 20-25 m/s og um leið kólnar. Dimm él og hríð verða um tíma austur yfir Hellisheiði og Mosfellsheiði og hált verður á vegum eftir því. Á láglendi verða krapaél og síðar él. Um landið norðvestan- og norðanvert brestur einnig á með suðvestanátt og þar verður allt að 25-28 m/s á fjallvegum síðdegis. Él og krapi sem frýs á vegum sem margir hverjir eru hálir fyrir. Því er spáð að veðrið gangi heldur niður síðdegis suðvestanlands en annars ekki fyrr en í nótt. Nú eru vegir að miklu leyti auðir á láglendi á Vesturlandi en nokkur hálka er á fjallvegum. Fróðárheiði, Holtavörðuheiði og Brattabrekka eru nú lokaðar fyrir umferð.