Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. mars. 2016 02:10

Leikrýni - Eitthvað sem togar… og tefur

Egill Ólafsson skemmtir gestum á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi um þessar mundir. Ég var þar í hópi góðra vina sem naut þess að hlusta á þennan fjölhæfa tónlistarmann og leikara lýsa þroskabrautinni frá því hann stóð þriggja ára gamall í gúmmístígvélunum einum fata í fjörunni á Akranesi staðráðinn í að fara á sjóinn með afa, til þess að vera fullbúinn í úthafssiglingu með konu sinni á eigin skútu rúmlega sextugur. 

 

Ég vissi að Egill væri frábær sögumaður og söngvari en ég vissi ekki að sjómannsblóð ólgaði í æðum hans. Ég vissi ekki að Egill hefði alist upp á Akranesi ungur drengur og dregist þar að hafinu. Ég vissi ekki að hann hefði erft göngulagið frá afabróður sínum, eins og frænka hans sagði. Afabróður?! Hver var nú það? Ég vissi ekki að Harry Belafonte var sá söngvari sem hann helst vildi líkjast þegar hann var ungur og að hann sá þetta átrúnaðargoð sitt á tónleikum í Kaupmannahöfn. Svo hittust þeir síðar. Og ég vissi ekki að í tvígang var hann kominn á fremsta hlunn með að fara í söngnám til Mílanó (með stefnuna á Scala, væntanlega), en þá var eitthvað sem tafði! Í fyrra skiptið var hann orðinn landsfrægur í Spilverki þjóðanna og Stuðmönnum og ekki hægt að stökkva burt úr vinsældadæminu. Í seinna skiptið var það fjölskyldan og Þursaflokkurinn sem ekki var auðvelt að yfirgefa. Hann talaði mikið um kraftana sem togast á um líf manns: „Það er eitthvað sem togar og annað sem ýtir á móti og svo er eitthvað sem tefur.“ Þetta með töfina minnir svolítið á það sem John Lennon sagði: „Life is what happens while you are busy making other plans.“

 

Egill grípur öðru hverju í gítarinn þegar hann rifjar upp tónlistarferilinn og segir frá því hvernig samstarfið hófst við Sigurð Bjólu og Diddú, Valgeir Guðjóns og Jakob Frímann, að ógleymdri Steinunni Bjarna, hvernig raddir þeirra og hugmyndir náðu saman. Hann gerir góðlátlegt grín að sjálfum sér og félögum sínum í bransanum og öllu baslinu í kringum gerð platnanna. Áheyrandi sem man allar þessar plötur, frábær lögin, frumlega textana og flutninginn fer í gamalkunnugt stuð og tekur undir: „Manstu ekki eftir mér…“

 

Sögur Egils lýsa því hvernig listamaður verður til. Þar eiga margir hlut að máli, kennarar, Tinna, fjölskylda og félagar. Þakklætið til söngelskrar móður hans fer ekki fram hjá neinum, þegar hann lýsir tónlistaruppeldinu sem hún veitti honum með því að spila látlaust plötur stórsöngvara á borð við Di Stefano, Benjamino Gigli, Mario Lanza, Stefán Islandi, Maríu Callas o.fl. Hann hugsaði ekki út í það, þegar hann var ungur, að auðvitað dreymdi móður hans um að vera óperusöngkona. En það var eitthvað sem tafði…

 

Það verður enginn svikinn af því að heimsækja Landnámssetrið í Borgarnesi og hlusta á Egils sögur. Látið ekki verða töf á því.

 

Steinunn Jóhannesdóttir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is