23. mars. 2016 10:18
Snæfell tók á móti Val í lokaumferð Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik í gær. Fyrir leikinn átti Snæfell enn möguleika á að ná toppsæti deildarinnar, en til þess hefðu þær ekki aðeins þurft að vinna sinn leik, heldur einnig treysta á að botnlið Hamars leggði topplið Hauka.
Gestirnir voru heillum horfnir í upphafi leiks, skoruðu ekki stig fyrstu fjórar mínúturnar. Snæfellskonur byrjuðu aftur á móti af krafti og náðu góðu forskoti í upphafsfjórðungnum. Um miðjan annan leikhluta var hins vegar sem þær misstu einbeitinguna. Þær brenndu af hverju skotinu á fætur öðru, hvort sem það var stökk- eða sniðskot, opið skot eður ei. Valskonur gengu á lagið og náðu að minnka muninn í eitt stig fyrir hálfleik, 30-29.
Valur náði forystunni með fyrstu körfu síðari hálfleiksins og hafði yfirhöndina í þriðja leikhlutanum. En Snæfellskonur fylgdu gestunum hvert fótmál og sýndu svo sitt rétta andlit í lokafjórðungnum þar sem þær tóku forystuna á nýjan leik. Varnarleikur þeirra var góður, þær létu boltann vinna fyrir sig í sókninni og virtust njóta þess að vera inni á vellinum. Sigruðu þær að lokum með átta stiga mun, 66-58.
Haiden Palmer var atkvæðamest Snæfellskvenna með 20 stig og níu fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir kom henni næst með 18 stig og fimm fráköst en aðrar höfðu minna.
Haukar unnu botnliðið á sama tíma og Snæfell sigraði Val í gær. Þessi tvö lið, Snæfell og Valur, eigast því við í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Fyrsti leikur þeirrar viðureignar fer fram í Stykkishólmi miðvikudaginn 30. mars næstkomandi.