26. mars. 2016 11:00
„Dalabyggð, Reykhólahreppur og Strandabyggð hafa tekið höndum saman um að vinna að áætlun um svæðisskipulag til að stilla saman strengi í atvinnumálum, samfélagsmálum og umhverfis- og skipulagsmálum. Alta ehf. hefur umsjóðn um gerð svæðisskipulagsins. Við mótun svæðisskipulagsins verður lögð áhersla á að draga fram af auðlindir til sjávar og sveita og sérkennum í landslagi, sögu og menningu. Það er gert til að styrkja ímynd svæðisins og auka aðdráttarafl þess gagnvart ferðamönnum, nýjum íbúum, fyrirtækjum og fjárfestum,“ segir í frétt á vef Dalabyggðar um nýtt svæðisskipulag.
„Á þeim grunni verður mörkuð stefna sem skilgreinir sameiginlegar áherslur og tækifæri í atvinnu-, samfélags- og umhverfismálum og síðan skipulagsstefna sem styður við þær áherslur. Svæðisskipulagið myndar einnig ramma fyrir aðalskipulag hvers sveitarfélags og einfaldar vinnslu þess. Á kynningarvef um verkefnið er hægt að lesa nánar um áætlunargerðina og þar verður hægt að fylgjast með framgangi hennar og nálgast ýmsar upplýsingar um svæðið. Lögð er áhersla á að nýta tiltæk landfræðileg gögn og birta á kortum til þess að fá þá heildarmynd sem nauðsynleg er.“ Sjá nánar á dalir.is og samtakamattur.is, kynningarvef verkefnisins.